Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 213
helga hilmisdóttir
Agnir í forfasa lota: líka í samtölum
íslenskra unglinga
1. Inngangur
Eitt af því sem talið er einkenna unglingamál í a.m.k. hinum vestræna heimi
er tíð og að sumu leyti óvenjuleg notkun orðræðuagna (sjá t.d. Kotsinas
1994:95 o.áfr.). Þegar fjallað er um orðræðuagnir sem eru al gengar í samtöl-
um unglinga er oft bent á orðræðuögnina like í ensku (Ander sen 2001), og í
norsku hefur verið fjallað um liksom í þessu samhengi (Hasund 2001). Í
þessu greinarkorni er ætlunin að fjalla um hlið stætt orð í íslensku, líka, sem
þó hefur þróast á allt annan veg en like í ensku eða liksom í skandinavískum
málum.
Í Íslenskri nútímamálsorðabók er atviksorðið líka skilgreint á eftirfar-
andi hátt: „merkir viðbót við það sem fer á undan, til viðbótar, einnig“. Í
flestum tilfellum vísar líka til ákveðinna upplýsinga í segðinni, eins og í
„mamma og pabbi líka“, þar sem mælandi bendir á að það sem sagt var í
síðustu lotueiningu eigi líka við um „mömmu og pabba“. Oft er það þó
áhersla sem sker úr um hvaða upplýsingar átt er við eins og greina má af
dæmum í fyrrnefndri orðabók: „þau eru líka að fara á tónleika“ (þ.e. líka
vísar annaðhvort í þau eða tónleika). Á hljóðupptökum af samtölum sem
tekin voru upp innan rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál: Rann -
sókn á samskipta aðferðum í raungögnum (2017–2020)1 má einnig greina að
langflest tilvik líka falla í þennan flokk. Þó eru örfá tilvik sem skera sig úr
Íslenskt mál 41–42 (2019–2020), 213–224. © 2020 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Verkefnið hlaut þriggja ára verkefnisstyrk frá Rannís. Ætlunin er að útbúa gagna-
grunn með samtölum íslenskra unglinga á aldrinum 13–19 ára og skoða efnið frá ýmsum
hliðum. Efnisöflun er þegar lokið en enn er mikil vinna fram undan við skráningu og frá-
gang gagnagrunnsins. Verkefnisstjóri er Helga Hilmisdóttir en í verkefnisstjórn eru Ás -
grímur Angantýsson, Ásta Svavarsdóttir, Finnur Friðriksson, Jón Guðnason og Sigríður
Sigurjónsdóttir. Ég vil þakka sérstaklega starfsmönnum verkefnisins sem séð hafa um
skráningu efnisins, Atla Snæ Ásmundssyni, Ásdísi Helgu Jóhannesdóttur, Dagbjörtu Guð -
mundsdóttur, Evu Ragnarsdóttur Kamban, Evu Hrund Sigurjónsdóttur, Iðunni Kristínar -
dóttur og Ragnheiði Jónsdóttur.