Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 233
búast við að jaðarlægar atvikssetningar, sem leyfa gjarnan kjarnafærslu
eins og hér hefur komið fram, ættu síður að leyfa S3-röð en miðlægar
atvikssetningar þar sem kjarnafærsla virðist ganga verr. Í Tilbrigða rann -
sókninni voru rúmlega 700 þátttakendur m.a. beðnir að meta atvikssetn-
ingarnar í töflu 4 (sams konar valmöguleikar og í færeysku könnuninni,
sjá Höskuld Þráinsson og Ásgrím Angantýsson 2015:309).
Já ? Nei
4.1 Hann lagði prófið fyrir þótt nemendurnir
ekki hefðu lesið bókina. 26,3% 16,2% 57,5%
4.2 Vala tók bókina svo að Haraldur ekki gat lesið hana. 8% 10,7% 81,3%
4.3 Henni líður miklu betur þegar hann ekki mætir. 20,6% 31% 48,4%
4.4 Það er ómögulegt þegar formaðurinn ekki mætir. 28,6% 34,7% 36,7%
Tafla 4: S3-röð í atvikssetningum í íslensku.
Dæmi 4.1 í töflu 4 inniheldur jaðarlæga viðurkenningarsetningu en í
hinum dæmunum eru miðlægar atvikssetningar (afleiðingarsetning og
tíðarsetningar) samkvæmt flokkun Haegeman (2012). Engu að síður fær
S3-röðin frekar neikvæða dóma í þeim öllum. Kjarnafærsla í tíðarsetning-
um á borð við 4.3 og 4.4 er stirð eða ótæk eins og við sáum hér að framan
en afleiðingar- og viðurkenningarsetningar á borð við 4.1 og 4.2 leyfðu
hins vegar kjarnafærslu. Þetta samræmist því ekki þeirri tilhneigingu að
neikvæð fylgni sé milli kjarnafærslu og S3-raðar því að samkvæmt því
„ættu“ dæmi 4.2, 4.3 og 4.4 að koma betur út en dæmi 4.1. Raunin er hins
vegar sú að dæmi 4.2 kemur verst út af þeim öllum. Það sést best þegar
litið er á dálkinn lengst til hægri, þ.e. hlutfall þeirra sem hafna S3-röðinni
alfarið. Í þessu sambandi má reyndar nefna að það er mjög stutt á milli
afleiðingarsetninga eins og 4.2 sem eru miðlægar samkvæmt flokkun
Haegeman (2012) og síðan tilgangssetninga eins og Vala tók bókina svo að
Haraldur ekki gæti lesið hana sem eru jaðarlægar. Að mati fyrri greinarhöf-
undar er S3-röðin í tilgangssetningunni enn erfiðari en í samsvarandi
afleiðingarsetningu (4.2) en þetta þyrfti að kanna nánar með dómapróf-
um.
5. Lokaorð
Flokkun Haegeman (2012) á atvikssetningum spáir því að rótarfyrirbæri
á borð við kjarnafærslu gangi betur í jaðarlægum atvikssetningum en mið -
lægum í S2-málum eins og íslensku og færeysku. Þessi tilgáta fær stuðning
Gerð atvikssetninga í íslensku og færeysku 233