Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 239
heimir freyr van der feest viðarsson
Reifun á helstu rannsóknarefnum
Doktorsrannsókn mín beindist að tilbrigðum í setningagerð 19. aldar íslensku frá
sjónarhóli sögulegrar félagsmálfræði og málstöðlunar. Í verkefninu Málbreytingar
og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals, sem mín rannsókn var
hluti af, var einkum leitað svara við þeirri spurningu að hve miklu leyti mögulegt
er að snúa við málbreytingum.1 Þessi spurning á rætur að rekja til algengra stað -
hæfinga um að íslensk málstöðlun hafi haft mjög víðtæk áhrif á íslenskt mál,
einkum í tengslum við svonefnda „málhreinsun“, og náð til sviða eins og orðaforða,
beyginga, hljóðfræði og setningafræðilegra þátta. Þeirri spurningu hefur jafnvel
verið varpað fram hvort nokkrar hömlur séu yfirleitt á möguleikum til málstýringar
svo fremi sem hugmyndafræðilegar stoðir hennar séu nægilega traustar (Kristján
Árnason 2003). Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi þess að í almennri málfræðilegri
umræðu er málstýring yfirleitt talin hafa hverfandi áhrif á raunverulega málnotkun
fólks (sjá t.d. Anderwald 2014). Þá er einnig gert ráð fyrir að ólík svið málfræðinnar
séu misaðgengileg málnotendum og sum atriði jafnvel talin standa utan þess sviðs
sem málnotendur séu meðvitaðir um og/eða hægt sé að hafa áhrif á (sjá umfjöllun
hjá Labov og Harris 1986, Laycock og Mühlhäusler 1990 og síðari skrif). Í því
sambandi hefur verið talað um snertiflatarlögmálið (e. Interface Principle) og
stigveldi íhlutunarhæfis (e. Degree of Interference Hierarchy), þar sem óhlutbundin
eða abstrakt setningafræðileg atriði séu utan seilingar og tengist almennt ekki
félagslegum þáttum nema þau eigi við tiltekin orð eða hljóð.
Til þess að varpa nánara ljósi á staðhæfingar um íslenska málstöðlun og
snertiflöt félagsmálfræði- og setningafræðilegra þátta voru tiltekin málfræðileg
atriði í nítjándu aldar íslensku könnuð nánar en gert hefur verið til þessa. Þau atriði
sem urðu fyrir valinu voru staða persónubeygðrar sagnar í öðru eða þriðja sæti í
aukasetningum, lausi greinirinn hinn á móti sá og óákveðna fornafnið maður:
(1) Staða sagnar: sögn – atviksorð („Vfin−Adv“) / atviksorð – sögn („Adv−Vfin“)
a. eg finn eg get ei talað eða skrifað mikið um það. (GudMag-1819-00-00.txt)
b. og gefi það nú guð, að þetta bréf ei angri þig. (GudMag-1819-00-00.txt)
Íslenskt mál 41–42 (2019–2020), 239–307. © 2020 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Um er að ræða samstarfsverkefni fræðimanna við Stofnun Árna Magnússonar í
íslenskum fræðum, Háskóla Íslands, Uppsalaháskóla og Vrije Universiteit Brussel (sjá
nánar https://www.arnastofnun.is/is/malbreytingar-og-tilbrigdi-i-islensku-mali-19-old-
tilurd-opinbers-malstadals). Verkefnið hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði 2012–2014 (styrkur
nr. 120646021/22) og sá verkhluti sem sneri að doktorsverkefni mínu var styrktur af
Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands.