Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 240
(2) Laus greinir: hinn eða sá
a. veduratta hefur vérid hin æskilegasta (SigPal-1842-03-07.xml)
b. veduráttan hefur verid sú æskilegasta i vetur (SigPal-1841-03-07.xml)
(3) En þau tímabilin eru þyngri, þegar maður getur ekki grátið (GudMag-1844-06-13.txt)
Í öllum tilvikum var um að ræða tilbrigði sem amast hafði verið við þegar á 19.
öldinni, til dæmis innan menntakerfisins, og þau eru jafnframt ólík í form gerðar -
legu tilliti: staða sagnar er að verulegu leyti óhlutbundin að því leyti að vera ekki
bundin við tiltekin orð, ólíkt fornafninu maður, og færa má rök fyrir að lausi
greinirinn sé þarna mitt á milli. Þetta er hægt að sýna skematískt á eftirfarandi
hátt:
(4)a. Alveg óhlutbundið, óskilyrt: [ NL <AO> SOpersh. <AO> ]
b. Að hluta orðasafnslega skilyrt: [ HINN/SÁ LO (N) ]
c. Alveg orðasafnslega skilyrt: [ MAÐUR ]
Þessi atriði voru könnuð í þremur ólíkum textategundum: persónulegum bréfum,
tímaritstextum og skólaritgerðum. Frá félagsmálfræðilegu og málnotkunarlegu
sjónarmiði eru ólíkar væntingar um áhrif málstaðals í þessum textategundum, þar
sem mestra tilbrigða væri að vænta í einkabréfum. Þannig hefur verið talað um að
málstöðlun hafi ekki borið fullkominn árangur nema hún nái til alls (ritaðs) máls,
þ.m.t. til óformlegs máls í persónulegum skrifum þeirra sem ekki eru lang skóla -
gengnir, og ef breytingar finnast aðeins í formlegum skrifum elítunnar er mál -
stöðlun því aðeins árangursrík að hluta (sbr. Elspaß 2016). Í umfjöllun um áhrif
málstöðlunar hefur einmitt verið gagnrýnt að ekki sé nægjanlegt tillit tekið til
málfars almennings í því sem Elspaß kallar texta „neðan frá“; þess í stað sé einblínt
á formlegt mál menntafólks, texta „ofan frá“. Hefðbundin umfjöllun um mál -
stöðlun sé því oft saga forskriftar fremur en málnotkunar og þar af leiðandi
„ímyndun“ í vissum skilningi (sjá Elspaß 2014:310 og tilv. þar). Í íslensku samhengi
flækir það þessa mynd að málstaðallinn hefur jafnframt verið sagður hafa
endurspeglað mál alþýðunnar að verulegu leyti en þetta er vandmeðfarið atriði þar
sem staðhæfingar sem þessar höfðu mikið pólitískt vægi innan hinnar ríkjandi
hugmyndafræði þjóðríkisins (sbr. t.d. Leerssen 2006). Því var mikilvægt að kanna
fyrrnefnd málfræðileg atriði einnig með slík sjónarmið í huga og reyna að kortleggja
málnotkun bréfritara með eins fjölbreyttan félagslegan bakgrunn og mögulegt var.
Niðurstöðurnar benda til meiri setningafræðilegs breytileika í 19. aldar íslensku
en fyrir fram var við að búast og að setningafræðileg atriði fylgi a.m.k. að nokkru
leyti félagslegum mynstrum. Víða sjást ummerki um áhrif málstöðlunar, þó síst í
bréfasafninu, en ekki kom fram skýr munur á málbreytunum þremur eftir því hve
orðasafnslega skilyrtar þær voru. Þetta þyrfti þó að rannsaka nánar. Mest dró úr
stöðu sagnar í þriðja sæti setningar, þ.e. röðinni ao.− so. (sbr. (1b)), þá sá sem
lausum greini og minnst úr fn. maður en þetta er einmitt þveröfugt við þær
væntingar sem hefði mátt hafa miðað við fyrrnefnt snertiflatarlögmál og stigveldi
Heimir Freyr van der Feest Viðarsson240