Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 256
Af þessu má sjá að þótt höfundur leggist ekki í rannsóknir á textasamhengi
til að meta hvort sá og hinn séu dæmi um greini eða ekki í gögnunum sem eru til
skoðunar getur hann þó nýtt sér mismunandi eiginleika þessara orða, einkum
ólíkt samspil við lýsingarorð, til þess að varpa skýrara ljósi á samkeppnina milli
þeirra og þarf ekki að reiða sig eingöngu á það að bera saman hlutfallslega tíðni í
textum, eins og gert er á myndum 1 og 2.
En myndum við fá eitthvað skýrari mynd með því að skoða samhengið? Í
umsögn um (11b), þ.e. sá/hinn frægi leikari, hélt ég því fram að þótt sá í slíku
samhengi væri væntanlega oftast endurvísandi ábendingarfornafn, þ.e. vísaði í
einhvern sem hefði verið nefndur áður, væri líka hægt að hugsa sér það í sama
hlutverki og hinn hefur með slíkum lýsingarorðum. Á grundvelli þessa mats má
setja fram eftirfarandi spá:
(12)a. Í samhenginu hinn/sá frægi X NN (þar sem X er eitthvert nafnorð (til
dæmis leikari, rithöfundur, heimspekingur …) og NN er sérnafn), má búast við
því að hinn sé algengara en sá (sbr. Hinn frægi leikari Ingvar Sigurðsson …).
b. Í samhenginu NN, hinn/sá frægi X, má búast við að sá sé algengara en
hinn (sbr. Ingvar Sigurðsson, sá frægi leikari …) af því að þar er verið að vísa
til baka.
Ég prófaði þessa tilgátu á Risamálheildinni svokölluðu og fékk hana staðfesta
eins og sýnt er í (13):
(13)a. hinn/sá frægi X NN: hlutfallið er 55/15
b. NN, hinn/sá frægi X: hlutfallið er 20/30
Höskuldur Þráinsson256
Mynd 3: Hlutfallið hinn/sá með mismunandi lýsingarorðum í blöðum og tíma-
ritum eftir 1840.
100%
90,0
80,0
70,0
60,0
50,0
40,0
30,0
20,0
10,0
0%
hinn fyrrnefndi
hinn síðarnefndi
hinn svokallaði
hinn frægi
hinn látni