Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 260
Spurning 11:
Er beygingin man – en – ens í dönsku ekki alveg sambærileg við beyginguna
sá – þann – þess í íslensku, þ.e. óregluleg (e. suppletive) beyging? Við erum
ekki vön að segja að ábendingarfornafnið (eða lausi greinirinn) sá (kvk. sú)
sé bara til í nefnifalli og ekki í hvorugkyni.
Þrátt fyrir þann mun á merkingu og notkunarsviði man í dönsku og maður í
íslensku sem nú var lýst virðast ýmsir hafa trúað því að fornafnið maður væri til
komið í íslensku vegna danskra áhrifa, eins og áður var nefnt, og það hefur þá
væntanlega verið talin nægileg ástæða til þess að berjast gegn því. Í setninga -
fræðibók Jakobs Jóh. Smára segir t.d. svo (1920:26, feitletrun mín):
Einkum með þessum sögnum [þ.e. geta, sjá, heyra], en þó einnig ella, þegar
unt er að hugsa sér óákveðna persónu sem frumlag, er nú einatt notað orðið
maður sem frumlag, eftir útlendri fyrirmynd (d. og þ. man, óákv. forn.) —
en einnig oft í stað ákveðins frumlags (t.d. eg), til þess að gera merkinguna
almennari og yfirgripsmeiri. — Í fornmálinu (t.d. lögunum) er maðr oft
notað um einhvern óákveðinn mann, og er ekkert við það að athuga, því að
þar er það nafnorð, og vísað til þess með fornöfnum (hann og sig).
Ef fornafnið maður væri til komið í íslensku fyrir áhrif frá danska fornafninu man
hefði kannski mátt búast við því að það hefði verið „gleypt í heilu lagi“, þ.e. að
maður hefði m.a. verið notað eins og man í dönsku (sbr. dæmin í (19)–(21) hér
framar). Í ritgerðinni segir hins vegar að ekki séu nein ótvíræð merki þess (bls.
211–212). Auk þess má finna ýmis dæmi í fornu máli, eins og bent er á í ritgerð -
inni, sem mæla gegn þeirri skoðun Jakobs Smára að þar sé maður alltaf nafnorð:
(22)a. Í fornmálsorðabók Fritzners (1891) má finna mörg „pronominal examp-
les of maðr“, bæði úr lausu máli og bundnu (bls. 188).
b. Í miðaldaskáldskap má finna talsvert af dæmum um að orðið maðr sé
áherslulaust eins og um fornafn væri að ræða (bls. 188, þar er vísað til
Helga Skúla Kjartanssonar 2017).
c. Það er líka hægt að finna fjölda dæma um maðr í forníslensku orðabók-
inni Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) sem eru þýdd með „man,
én, nogen“.
Af þessu dregur höfundur eftirfarandi ályktun (feitletrun frá mér): „it at least
seems fair to assume that potential pronominal uses were ‘in the air’, so to
speak, already in the medieval period” (bls. 188). Þetta vekur eftirfarandi spurn-
ingu (sem má auðvitað þykja smásmuguleg):
Spurning 12:
Áttu við að mað(u)r hafi verið nafnorð á miðöldum en hafi samt getað verið
notað sem fornafn (sbr. orðalagið „pronominal uses“)?
Höskuldur Þráinsson260