Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 274
Þótt það hafi ekki orðið hluti af ritgerðinni, m.a. vegna lengdarmarka, hef ég
einnig kannað þennan hóp í mínu gagnasafni og flutt um það nokkur erindi (sbr.
t.d. Heimi van der Feest Viðarsson 2016; sjá stuttlega umræðu í framhjáhlaupi í
ritgerð bls. 94, 97–98 og 199). Um er að ræða bréf Finns Jónssonar prófessors og
fjögurra systkina hans, auk bréfa móður þeirra (sbr. Sigrúnu Sigurðardóttur
1999). Bræðurnir þrír eru náttúrulega ólíkir að því er varðar menntun og störf:
Finnur málfræðingur og prófessor í norrænum fræðum við Kaupmanna hafnar -
háskóla, Klemens lögfræðimenntaður embættismaður og síðar ráðherra á Íslandi.
Hann er á lokasprettinum í Lærða skólanum í elstu bréfunum og alþingismaður
í þeim síðustu. Vilhjálmur hóf einnig nám við Kaupmannahafnarháskóla en
hann flosnaði upp úr námi, starfaði lengst af sem póstmaður í Reykjavík en lést
ungur. Bréf hans eru flest skrifuð á háskólaárum hans og eftir að hann kom aftur
til Íslands (sbr. Sigrúnu Sigurðardóttur 1999:28–29). Með þennan bakgrunn í
huga má ætla að Finnur og Klemens séu fyrirfram líklegri til þess að hafa ein-
kenni „fyrirmyndar málhafans“ sem leggur sig fram við að fylgja málfræðilegri
forskrift en Vilhjálmur, sbr. einnig ólíka dreifingu (að hluta) í gögnunum hér á
eftir. Af þeim þremur breytum sem ég skoðaði er það helst lausi greinirinn hinn
sem bendir til beinna áhrifa af (lang)skólagöngu. Með hinum breytunum birtist
a.m.k. töluverður munur á Finni annars vegar og systur hans, Guðrúnu, hins
vegar, þar sem málnotkun Finns er í umtalsvert meira samræmi við málstaðalinn
en málnotkun Guðrúnar.
Ef við lítum á töflu 3.9 (sjá ritg. bls. 93) sjáum við að hlutfall Adv−Vfin á
móti Vfin−Adv í þessum fjölskyldubréfum er ærið misjafnt. Þessir bréfritarar
eru sýndir hér í töflu 1. Adv−Vfin birtist ekki eða varla hjá Guðnýju og móður
hennar, Önnu Guðrúnu. Hlutfall þeirrar orðaraðar er um 10% hjá bræðrunum,
sem er reyndar svipað hlutfall og í heildarbréfasafninu á þessum tíma (sjá t.d.
töflu 3.8 á bls. 90). Athygli vekur að hlutfall Adv−Vfin er hæst hjá Guðrúnu
Jónsdóttur og auðvitað mætti ímynda sér að skortur á skólagöngu hafi hér ein-
hver áhrif en við sitjum þá uppi með þá spurningu hvað segja megi um lágt (og
enn lægra) hlutfall Adv−Vfin hjá mæðgunum Guðnýju og Önnu Guðrúnu.
Adv−Vfin heildarfjöldi
Finnur Jónsson 11% 109
Klemens Jónsson 9,7% 31
Vilhjálmur Jónsson 9,1% 33
Guðrún Jónsdóttir 24,3% 415
Guðný Jónsdóttir 2,7% 37
Anna Guðrún Eiríksdóttir 0% 94
Tafla 1: Hlutfall Adv-Vfin orðaraðar af heildardæmafjölda um breytuna (Adv−
Vfin/Vfin−Adv) í fjölskyldubréfunum.
Heimir Freyr van der Feest Viðarsson274