Börn og menning - 2015, Síða 25

Börn og menning - 2015, Síða 25
25Þriggja heima þroskasaga leiðir lesandann inn í stærri og flóknari atburðarás. Bókin er þó mun merkilegri en þessi orð gefa til kynna. Höfundar leggja gríðarlega vinnu í persónusköpun og í að búa til sannfærandi söguheim sem hvergi finnst glufa á og það tekst þeim prýðilega. Nornir og tunglvarðliðar Önnur bók þeirra, Draumsverð, kom svo út árið 2013. Vinirnir þrír eru á flótta ásamt leiðsögumanninum Nanúk og leita nú nornarinnar Heiðvígar sem geymir eitt innsiglanna. Þau leysa ýmsar þrautir og lenda í alls kyns ævintýrum auk þess að kynnast heiminum talsvert betur og víkka sjóndeildarhring sinn. Í bókinni er einnig hliðarsaga um tunglvarðliða keisara Velajaborgar, sem rannsakar morð yfirskjalavarðar borgarinnar og kemst á snoðir um alveg hreint ótrúlegt samsæri. Draumsverð er verk rithöfunda sem sem hafa öðlast reynslu og unnið vel með hana því sagan er afskaplega vel fléttuð og byggð. Unglingarnir sem í fyrri bókinni voru fremur barnalegir og síhræddir eru farnir að þroskast og harðna. Höfundar leyfa persónunum að halda einkennum sínum og gera mistök og við það verða þær heilsteyptari og mannlegri þannig að það er auðveldara fyrir lesendur að tengjast þeim. Raunar er þessi áhersla höfundanna á persónu- og umhverfislýsingar um leið akkílesarhæll þessarar ágætu bókar, því ýtarlegar lýsingar hægja á framvindu sögunnar sem í raun hefði að meinalausu mátt stytta um þriðjung. Sundrung tvíhyggjunnar Þriðja verkið í sagnabálknum er svo Ormstunga, sem kom út fyrr á þessu ári. Hún kom út í kilju en ekki innbundin eins og hinar bækurnar, sem kemur sér virkilega illa fyrir bókaskápinn minn, sem er hrifinn af samhverfni og vill einsleitni innan bókaflokka. Kiljuútgáfan er þó talsvert þægilegri í meðförum en hinar tvær og getur frekar fylgt hinum upptekna lesanda á ferð hans um lífið. Ormstunga tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið í Draumsverði. Við upphaf bókarinnar eru ungmennin þrjú stödd hér og þar um heiminn og lenda í alls kyns hremmingum þegar þau reyna að lifa af á algjörlega ókunnum slóðum. Þroskasögu þeirra vindur fram og hvert þeirra upplifir heiminn á sinn hátt. Þeirri dýpt sem náðist í persónusköpun í Draumsverði er haldið hér, en tónn sögunnar verður dýpri og þróaðri þegar við skoðum veröldina með augum þessara þriggja ólíku sögupersóna. Í bókinni verður baráttan milli góðs og ills sem lagt var upp með í Hrafnsauga óskýrari og mörkin dofna. Í stað þeirrar ofuráherslu sem oft er lögð á tvíhyggjuna - einstaklingar eru annað hvort góðir eða illir - snýst málið um gjörðir og hvaða áhrif þær hafa. Þannig er áherslan lögð á galdrana sem beita má bæði til góðs og ills. Boðskapurinn virðist vera að vald sé vandmeðfarið, að manni beri að halda í mennskuna í sér með öllum tiltækum ráðum. Eins og Úlfhildur Dagsdóttir bendir á í dómi sínum um bókina, „Goð, galdramenn og meinvættir“, sem birtist á Bókmenntir.is, er líklega um áhrif frá Ursulu Le Guin að ræða, en í sagnaflokki hennar, Earthsea, sem hefur haft gríðarleg áhrif á ritun fantasía fyrir ungmenni, er um svipað andóf gegn tvíhyggjunni að ræða. Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson komu með hvelli inn í íslenskt bókmenntalíf. Þeir lögðu upp með þá hugmynd að skrifa skemmtilegar fantasíur sem unglingar og ungt fólk hefði gaman af því að lesa. Hvorki meira né minna. Bækurnar hafa þó farið langt fram úr þessum væntingum höfunda sinna og standa eftir sem mjög áhugaverður sagnabálkur þar sem leikið er með hugmyndir um æsku, þrótt, umhverfi og erfðir. Persónur bókanna þurfa að horfast í augu við að geta ekki stjórnað heiminum, sem er alltaf erfið lexía fyrir ungt fólk. Með því að átta sig á því fá þær þann kraft og þroska sem þarf til þess að geta lagt lóð sín á vogarskálarnar í heimsátökunum - þótt allt sé skilið eftir galopið í bókarlok og enginn viti hvoru megin lóðin falla. Þessir ágætu höfundar leika sér með tungumálið af miklum krafti og búa til orð þar sem þeirra er þörf - ég er sérstaklega hrifin af orðinu manngálkn sem er orð yfir skrímsli sem einungis eru til í þeirra heimi. Bækurnar eru vel skrifaðar, þeim er vel ritstýrt og vandað er til allra verka. Kjartan Yngvi og Snæbjörn verða betri og betri með hverri bókinni og það verður virkilega spennandi að sjá hvernig sagan þróast í næstu bók, sem ég vona að komi út sem fyrst. Höfundur er íslensku- og bókmenntafræðingur

x

Börn og menning

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.