Rit Mógilsár - 01.03.2004, Side 7
7
eðlisbreytingu á daglegu lífi fólks hvar sem er í heiminum. Mikilvægi
hins hnattræna hagkerfis er undirstrikað og bent er á minnkandi vægi
þjóðríkja sem gerenda og valdhafa í heiminum (Friedman, 1999).
Tvískipting sem þessi er einfölduð útgáfa af veruleikanum og
oftar en ekki skarast hugmyndir fræðifólks um hnattvæðingu.
Hnattvæðing hefur ekki dottið af himnum ofan, hún á sér sögulegar og
pólitískar rætur. Hins vegar erum við einnig að verða vitni að
byltingakenndum og almennum breytingum á daglegu lífi, sérstaklega
með tilkomu margs konar tækninýjunga.
Mikið hefur verið skrifað um hugsanlegar afleiðingar og áhrif
hnattvæðingar og oftar en ekki talið að hún leiði til vaxandi einsleitni.
Þeirri skoðun hefur verið varpað fram að heimurinn sé að verða eins
og þorp og það sé að verða til ein (vestræn) alheimsmenning
(Toynbee, 2000).
Robertson (1995) er einn þeirra sem hefur gagnrýnt áherslu á
einsleitni. Að hans mati er varasamt að líta á hið hnattræna sem
andstæðu hins staðbundna. Í stað þess vill Robertson undirstrika að
hið hnattræna og hið staðbundna eru tvær hliðar á sama peningi.
Staðbinding býr óumflýjanlega í hnattvæðingu sem er ávallt hluti af
staðbundnu umhverfi fólks. Hann leggur því til að nota hugtakið
hnattsvæðing (e. glocalization) til að lýsa ferlum hnattvæðingar á
fínlegri hátt. Með því er lögð áhersla á að hnattvæðing á sér ekki stað
fyrir utan og ofan staðbundið samhengi heldur er hún hluti af daglegu
lífi. Fólk hvar sem er hnattsvæðir líf sitt á hverjum degi.
Daglegt líf, hið pólitíska stjórnkerfi og hagkerfið sem fólk vinnur í
er því allt á einhvern hátt markað hnattsvæðingu. Það sem liggur til
grundvallar hnattsvæðingu er aukinn hreyfanleiki flestra þátta
samfélagsins (sjá t.d. Bauman, 2001; Lash, 1994; Urry, 2000).
Nútíminn er fljótandi, en flæðin sem hnattsvæðing felur í sér eru
margleit og streyma í mismunandi áttir. Fólk gleypir ekki viðstöðulaust
við þeim, heldur getur það verið gerendur og mótað veruleika sinn enn
frekar en áður. Að vissu leyti færir hnattsvæðing fólki ný tækifæri en
um leið þyngja þessi ferli byrðar einstaklinga. Ríkisvaldið er að draga
sig í hlé á mörgum sviðum, vald hefur bæði runnið til yfirþjóðlegra
stofnanna eins og Evrópusambandsins, Alþjóðaviðskiptamála-
stofnunarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og til staðbundinna
stofnanna eins og sveitastjórna og fyrirtækjahópa. Blómatími
opinberrar íhlutunar og velferðarríkisins er liðinn og í staðinn er
runninn upp tími einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar þar sem
nýsköpun og sveigjanleiki í framleiðslu er lykilatriði (Bærenholdt og
Aarsaether, 2001; Neil og Tykkyläinen, 1998)1. Einstaklingar eða
einstök samfélög þurfa við þessar aðstæður í meiri mæli en áður að
1 Einkenni þessarar stefnubreytingar má finna í hinni nýju byggðastefnu stjórnvalda sem leggur
höfuðáherslu á frumkvæði og framtak heimafólks (Byggðastofnun, 1999).