Rit Mógilsár - 01.03.2004, Side 21
21
meiri en nú. Indriði Valdimarsson er bóndi á sextugsaldri og hefur
stundað búskap í Fljótsdal síðan á áttunda áratugnum. Hann rifjar upp
að um 1982 hafi bæir byrjað að fara í eyði. Hann segir ýmsar ástæður
hafa legið þar að baki. Jarðir á svæðinu eru frekar litlar og þegar
þrengdist að sauðfjárrækt varð erfiðara að framfleyta sér á lökustu
jörðunum. Í þó nokkrum tilfellum var enginn til að taka við búskap á
jörðum þegar eldri bændur létu af störfum og bújörðum fækkaði
umtalsvert við síðustu kynslóðaskipti. Einn megin áhrifavaldur á
sauðfjárbúskap í dalnum, ásamt versnandi markaðsaðstæðum, var
hins vegar riðuveiki og óumflýjanlegur niðurskurður vegna hennar.
Árið 1989 var gripið til þess ráðs að skera niður allt fé á milli
Lagarfljóts og Jökulsár á Dal og hafði það mikil áhrif á landbúnað á
svæðinu.
Fólk lýsir þróuninni síðan 1980 sem neikvæðri, íbúum fækkar
og grundvöllur fyrir búsetu á svæðinu veikist. Tekjur hafa dregist
saman og fólk er þreytt á þeim mótbyr sem það hefur lent í. Sigríður
Gunnarsdóttir lýsir búskapnum sem stöðugu „basli“ og Anna, bóndi á
fimmtugsaldri, segir:
Við erum búin að bíða hérna í 10 ár að það fari nú eitthvað
að gerast og það fer alltaf frekar niður, alltaf minni tekjur.
Þorsteinn Arnarsson, bóndi um fertugt, bendir á að algengt hafi verið
að bændur „lógi niður“ og selji kvótann. Jörðin fer þá annaðhvort í eyði
eða fólk býr áfram á þeim án þess að hafa fé og um leið fer starfandi
sauðfjárbúum fækkandi. Þá þyngist vinnan fyrir þá sem eftir eru jafnvel
þó þeir geti eitthvað stækkað við sig. Sameiginleg vinna eins og
göngur og réttir verður erfiðari og eins eru takmörk fyrir því hvað fólk
kemst yfir að hafa margt fé áður en þarf að kaupa utanaðkomandi
vinnuafl.
Staðan í dag
Í viðtölum við bændafólk í Fljótsdal kom fram að það upplifir stöðu
sína sem erfiða og jafnvel slæma. Fólk er hins vegar líka meðvitað um
kosti þess að búa í dreifbýli og lítur ekki sérstaklega á sig sem
fórnarlömb.
Meginvandamál sauðfjárræktar í Fljótsdal er að búin skila ekki
nægilegum tekjum. Á langflestum jörðum getur fólk ekki haft
landbúnað sem lifibrauð. Ragnar, bóndi á sextugsaldri segir það
vonlaust að lifa eingöngu af sauðfjárrækt nema þá að hafa stærri bú
en nú eru í dalnum. Það eru þá helst eldri bændur sem eiga orðið
byggingar og vélar skuldlausar og þurfa ekki að fjárfesta. Aðrir bændur