Rit Mógilsár - 01.03.2004, Page 23
23
leyti legið niðri og lítil starfsemi er í búnaðarfélagi og fjárræktarfélagi
svæðisins13. Fólk er einfaldlega komið með nóg á sína könnu vegna
nauðsynlegra skyldustarfa.
Erfiðleikar í sauðfjárrækt hafa verið nokkuð í almennri umræðu
í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Viðmælendur mínir töldu flestir
að ímynd sauðfjárræktar og landbúnaðar hefði batnað allra síðustu ár
en væri þó enn ekki nægilega góð. Indriði segir að neytendur líti
bændur skárri augum nú en fyrir nokkrum árum og betri pólitísk sátt
virðist vera um landbúnaðinn. Kristín segist stundum verða vör við
það að fólk skilji ekki af hverju einhver hafi áhuga á að búa í sveit,
langt frá næsta þéttbýli. Henni finnst oft hafa verið gert niðurlægjandi
grín af bændum og þeim lífsstíl að búa í sveit. Hún og Jóhann taka þó
undir það að ímynd bænda hafi breyst til batnaðar á síðustu árum.
Þau benda á að bændur hafi nú betri tækifæri til að mennta sig og
einnig séu margir að átta sig á því að hægt sé að búa í sveit án þess
að hafa búskap. Nú sé allskonar fólk að sækjast eftir kostum
sveitalífsins.
Í viðtölum við bændur kom fram að breytingar og aðstæður í
sauðfjárrækt hafa tekið á fólk. Það er erfitt að „basla“ og halda reisn
sinni óskertri. Stundum má finna fyrir vanmáttarkennd gagnvart því
reglukerfi sem smíðað hefur verið utan um atvinnugreinina. Sumir
upplifa sig sem þolendur og valdalausa gagnvart kerfinu. Indriði segir
að það sé nokkuð um það að bændur séu bitrir, bæði gagnvart
reglukerfi stjórnvalda og þeim aðstæðum sem þeir upplifa sig í. Hann
segir að þetta eigi sérstaklega við fólk sem kemur inní búskap fullt
áhuga en lendir í basli vegna rekstrarerfiðleika. Baslið „smækkar“ fólk
og það sé napur raunveruleiki að svo erfitt sé fyrir ungt fólk að koma
inn í greinina. Á sama tíma eiga aðrir í erfiðleikum með að hætta.
Ragnar og Anna segjast t.d. ekki hafa efni á því að flytja þó þau vildu.
Þau myndu ekki fá neitt að ráði fyrir jörðina og húsin, ef til vill nóg til
að leigja litla íbúð í Reykjavík.
Sauðfjárbúskapur og búseta í sveit hefur þó sína kosti. Út frá
orðum viðmælenda minna er erfitt að halda því fram að þau séu
bundin einhverskonar átthagafjötrum heldur vilja þau búa á svæðinu
og eru tilbúin til að leggja töluvert á sig til að svo megi verða. Kristinn
lýsir því ágætlega hvað hann sér við það að búa í sveit með sauðfé:
Ég held að það sé ekkert verra að vera hérna en að vera í
svona bara einhverri vinnu utan bús... bara á lægsta kaupi.
Maður er frjáls, maður er svona sinn herra og getur svona
hagað sér dáldið eftir því… en auðvitað þarf maður að
halda vel á spöðunum.
13 Kristín segir að kannski sé ekki lengur mórall fyrir „hefðbundum“ félagsskap eins og
kvenfélögin hafa orð á sér fyrir að vera en saknar þess að ekki sé meiri grundvöllur fyrir
félagsstarfi íbúa á svæðinu.