Rit Mógilsár - 01.03.2004, Síða 24
24
Þó að hér hafi verið dregin upp nokkurs konar kyrralífsmynd af
hagrænum og samfélagslegum aðstæðum fólks í Fljótsdal situr fólk ekki
með hendur í skauti. Það tekst á við aðstæður sínar og breytingar sem
gerendur á margvíslegan hátt. Hér á eftir er fjallað um nokkrar þeirra
aðferða sem fólk nýtir til að geta búið þar sem það vill.
Bjargráðin stór og smá
Fólk í Fljótsdal beitir ýmsum aðferðum til að takast á við aðstæður
sínar. Langflestir vinna eitthvað utan heimilis og eru oft og tíðum í
mörgum störfum. Störf fólks eru margvísleg, sumir sækja vinnu til
Egilsstaða eða Hallormsstaðarskóla, aðrir sinna tímabundnum störfum
við slátrun, rúning, smalamennsku, vegavinnu, skógarhögg og
girðingarviðhald auk skógræktar á vegum Héraðsskóga. Einnig er
nokkuð algengt að fólk hafi skapað sér aukatekjur á jörðum sínum, t.d.
með ferðaþjónustu, aukabúgreinum og þróun í sauðfjárrækt. Það er
algengt að heimilistekjur fólks komi úr ýmsum áttum. Aðspurður hvernig
gangi að samþætta mörg störf segir Þorsteinn:
Það er bara að láta allt draslast (bros). Það gengur
náttúrlega ekki nógu vel í rauninni því að það bitnar alltaf á
einhverju sko.
Indriði tekur í sama streng og segir að of mörg aukastörf séu
óásættanleg við sauðfjárbúskapinn. Það er yfirleitt hann sem rekur þá á
reiðanum og að auki er mikið vinnuálag á fólki sem sé slítandi til
lengdar. Þeim og fleirum þykir þetta ástand óskemmtilegt og vildu
gjarnan hafa rýmri tíma og fjárráð til að leggja meiri metnað í búskapinn
og sinna honum sem skyldi.
Ferðaþjónusta er ofarlega í hugum margra þegar rætt er um
framtíðarmöguleika á svæðinu. Hjón á tveimur bæjum hafa farið út í
ferðaþjónustu sem aukabúgrein. Annars vegar er um að ræða
bændagistingu og hins vegar skipulegar hestaferðir upp á hálendið
norðan Vatnajökuls. Bændagistingin er framtak hjóna á sextugsaldri
sem tóku við jörð og húsum þar í niðurníðslu og endurbyggðu hlöðu og
innréttuðu hana sem tvær íbúðir til útleigu. Íbúðirnar eru nú bókaðar
meirihlutann af árinu og að sögn þeirra eru þær sérlega vinsælar af
veiðifólki. Auk þess hafa þau komið sér upp aðstöðu við bakka
Lagarfljóts til þess að taka á móti Lagarfljótsorminum, ferju sem flytur
ferðafólk í útsýnisferðir upp Löginn til og frá Egilsstöðum. Þessi
starfsemi gefur þeim mikilvægar aukatekjur en jafnframt vinna þau bæði
aðra vinnu meðfram.
Í upphafi tóku fjórir aðilar sig saman og hófu hestaferðirnar. Nú
eru aðeins ein hjón eftir og eru þau í samstarfi ferðaþjónustufyrirtæki á