Rit Mógilsár - 01.03.2004, Page 27
27
Austurlands lögðu fram um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði.
Þar með fór málið í ákveðinn farveg í stjórnkerfinu. Árið 1989
samþykkti þáverandi ríkisstjórn að „klæða skyldi skógi allt nýtanlegt
skógræktarland á Fljótsdalshéraði á næstu 40 árum“ (Héraðsskógar,
1995, bls. 14), og lagði fram fé til undirbúningsstarfs. Málið var kynnt
bændum á Upphéraði og á sama tíma var verkefnið mótað.
Verkefninu var úthlutað 15 milljónum á fjárlögum 1990, aðeins
fjórðungi af því sem óskað hafði verið eftir. Skipulagning og
undirbúningur hélt þó áfram og gerð var 40 ára kostnaðar- og
framkvæmdaáætlun sem náði til 15 þúsund hektara lands. Drög að
lögum og samningum við bændur voru einnig samin (Héraðsskógar,
1995). Allt að 90 landeigendur voru tilbúnir til að hefja þátttöku í
verkefninu á þessum tíma. Verkefnið fékk 10 milljóna framlag á
fjáraukalögum 1990 og hófust þá framkvæmdir, gróðursetning og
girðingarvinna. Þrátt fyrir það dróst að leggja frumvarp til laga um
verkefnið fyrir Alþingi til samþykktar. Það var loks gert vorið 1991 og
voru lögin samþykkt á Alþingi þann 11. mars 1991 (Alþingi, 1991).
Fyrstu ár Héraðsskóga náði verkefnið til Upphéraðs, eða
svæðisins suður af Eiðum. Undir lok tíunda áratugarins var ákveðið
að víkka verkefnið út yfir allt Fljótsdalshérað. Verkefnið er
framkvæmt þannig að bændur eða landeigendur gera samning við
Héraðsskóga um skógrækt á jörðum sínum. Þeir fá greidd 97% af
kostnaði sem af skógræktinni hlýst og þegar úrvinnsla fer að skila
arði greiða þátttakendur hluta af honum til baka til ríkisins. Árið 2001
voru 104 landeigendur á Fljótsdalshéraði samningsbundnir
Héraðsskógum og þar af voru 21 jörð í Fljótsdal. Það ár fékk
verkefnið rúmar 86 milljónir á fjárlögum til að standa straum af
starfseminni (Héraðsskógar, 2001a).
Tilgangur og markmið Héraðsskóga koma fram í lögum um
verkefnið. Í fyrstu grein laganna segir:
Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun nytjaskóga
á Fljótsdalshéraði og umhirðu þess skóglendis sem þar er
fyrir og treysta með því byggð og efla atvinnulíf á Héraði.
Héraðsskógar merkja í lögum þessum sjálfstætt
skógræktarverkefni um ræktun nytjaskóga á jörðum á
Fljótsdalshéraði samkvæmt sérstakri áætlun (Alþingi,
1991).
Meginmarkmið Héraðsskóga er:
...með ræktun nytjaskóga að stuðla að þróun og viðhaldi
byggðar á Fljótsdalshéraði. Þannig er verkefnið bæði
byggða- og skógræktarverkefni. Skógana skal rækta í