Rit Mógilsár - 01.03.2004, Page 29
29
að leita sér að einhverju nýju til að taka sér fyrir hendur til að nýta
landið og í rauninni til að hafa að einhverju að hverfa þar sem ekki
mátti taka fé aftur í tvö til þrjú ár eftir riðuniðurskurð. Hann nefnir
stofnun Félags skógarbænda og segir að þeir hafi þrýst á um
skógræktarverkefni. Aðspurður sagði Sigurður að það mætti segja að
bændur hefðu alfarið átt frumkvæði að Héraðsskógaverkefninu, en þó
ásamt Skógrækt ríkisins. Þessir aðilar drógu verkefnið í gang, en
embættismenn og sérfræðingar voru til aðstoðar.
VIÐTÖKUR OG ÞRÓUN
Héraðsskógaverkefninu virðist hafa verið tekið vel á sínum tíma. Að
vissu leyti má segja að jarðvegurinn fyrir skógrækt hafi verið plægður
með framkvæmd Fljótsdalsáætlunar. Viðtökur og þróun skógræktar á
Héraði gekk þó ekki snurðulaust fyrir sig. Ákveðin átök og/eða tregða
hafa komið í ljós bæði í sambandi við stofnun og þróun
skógræktarstarfsins. Á þeim tíma sem Fljótsdalsáætlun var að komast
á laggirnar skiptist fólk í tvær fylkingar. Það var sauðfjárræktarfólk og
skógræktarfólk. Páll lýsir umræðunni í samfélaginu á þessum tíma:
Þá voru bara stríð á milli búgreina sko, það var bara talað
um skógrækt og sauðfjárrækt sem andstæður og þegar að
forystan talar svona máli þá munu náttúrlega þeir sem eru í
grasrótinni líka trúa því að þetta sé svona.
Indriði tekur í sama streng þegar hann rifjar viðtökur
Fljótsdalsáætlunar upp. Hann segir að það hafi ekki verið mikill
meðbyr þegar farið var af stað með það verkefni. Það tengdist
sérstaklega því að bændur máttu hreinlega ekki missa land undir
skógrækt á þeim tíma. Þá var búið á hverjum bæ og sauðfé var miklu
fleira á svæðinu. Jafnframt nefnir hann að mikilvægt atriði hafi verið
að Skógrækt ríkisins hafi ekki samþykkt neina beit í skógi, land sem
var lagt í skógrækt var lokað um aldur og ævi og það var eitthvað
sem margir bændur gátu ekki sætt sig við.
Þrátt fyrir þessa vankanta á Fljótsdalsáætlun nefndu flestir
viðmælendur mínir sögu skógræktar á svæðinu og náttúrufar sem
helstu ástæður fyrir því að fólk tók vel í að hefja skógrækt á jörðum
sínum þegar Héraðsskógaverkefnið fór af stað. Þorsteinn segir t.d.:
Menn [eru] búnir að sjá það að það er vel hægt að rækta
skóg á þessu svæði og búið að vera náttúrlega á
Hallormsstað heilmikil svona skógarvinnsla og þannig að,
margir hérna af íbúum hér sem hafa verið tímabundið í
skógræktinni og þekkja heilmikið til skógræktar.