Bændablaðið - 28.01.2021, Síða 18

Bændablaðið - 28.01.2021, Síða 18
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. janúar 202118 ÍSLENSKT LAMBAKJÖT Vaxandi vinsældir íslenskrar ofurfæðu Eins og í gamalli þjóðsögu byrj- ar saga matvælafyrirtækisins Feed the Viking á miðri heiði eitt óveðurskvöld haustið 2016. Friðrik Guðjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Feed the Viking, var þá staddur í útkalli með Hjálparsveit skáta í Garðabæ en hún hafði verið köll- uð út til þess að aðstoða við leit að tveimur göngugörpum sem höfðu örmagnast í miklu vetr- arveðri uppi á Hellisheiði. Eftir stutta leit í haustlægðinni fundu björgunar sveitarmennirnir þá heila á húfi, örmagna eftir langa bið. Var hlúð að þeim, þeir fengu vatn og þurrkað nautakjöt, en það var á því augnabliki sem Friðrik fékk hugmyndina að þurrkuðu íslensku kjöti, eða Jerky. Eftir að hafa gætt sér á þurrkuðu kjötinu og drukkið nægilega mikið af vatni höfðu týndu göngugarp- arnir nægan styrk til þess að standa sjálfir upp og ganga niður fjallið með björgunarsveitarmönnun- um. Upplifuninni gleymir Friðrik seint, enda vill hann meina að þetta örlagaríka útkall hafi verið kveikj- an að fyrirtækinu Feed the Viking, sem í dag framleiðir og selur sex vörutegundir, þurrkað lambakjöt, nautakjöt, frostþurrkaðar fisk- og kjötsúpur auk tveggja útgáfna af harðfiski. Einsetur fyrirtækið sér að framleiða hollar og hreinar gæða- vörur úr íslensku hráefni. Mikvægt að virða fyrir sér heildarmyndina Frá upphafi hefur Feed the Viking leitast fyrst og fremst eftir því að skapa aukin verðmæti úr afurðum íslenskra bænda og sjómanna. Friðrik segir að við uppbyggingu vörumerkisins hafi honum fund- ist mikilvægt að horfa á heildar- myndina og þeirra áhrifa sem vel- gengni fyrirtækisins gæti skilað sér fyrir alla virðiskeðjuna. „Með aukinni fótfestu okkar á alþjóðamörkuðum mun útflutn- ingur á hreinni og náttúrulegri íslenskri matvöru ekki aðeins skila sér í sterkara vörumerki Feed the Viking, heldur sem landkynningu á öllu því góða sem Ísland hefur upp á að bjóða og auknu virði íslenskra afurða.“ Friðrik segist hafa strax í upp- hafi gert sér grein fyrir möguleik- unum sem náttúrulega kryddaðar og þurrkaðar íslenskar kjötvörur ættu á markað hér á landi sem og erlendis. „Ég sá þau fyrir mér þarna uppi á heiðinni, markaðstækifærin sem felast í okkar einstöku og hreinu gæðahráefnum. Nú þegar vinsældir hreins mataræðis hafa aldrei verið meiri og neytendur eru meðvitaðari þegar kemur að innihaldi matvæla.“ Þar sem Feed the Viking fram- leiðir einungis náttúrulegar afurðir hentar þurrkaða kjötið, Lamb Jerky og Beef Jerky, einstaklingum á ketó, paleo og DASH mataræði vel. Harðfiskurinn, Fish Jerky, er vinsæll próteingjafi hjá grænkerum sem borða fisk (e. Pescatarian) og þeim sem kjósa Miðjarðarhafsmataræðið (e. Mediterranean diet). Bregðast við brotthvarfi ferðamanna og horfa til Bandaríkjamarkaðar Vörur Feed the Viking eru til sölu í öllum helstu matvörubúðum og sölustöðum á Íslandi og í nokkrum verslunum í Kanada og á Kastrupflugvelli í Danmörku. Vörurnar eiga eina af öflugustu byrjun nýrrar vöru í sögu Duty Free- búðarinnar í Leifsstöð og er Friðrik stoltur af hröðum vexti fyrirtækis- ins. Hann segist þó sakna erlendu ferðamannanna. „Við finnum að sjálfsögðu fyrir stöðnun ferðamannastraumsins, enda voru erlendir ferðamenn langsamlega stærsti viðskiptahópur okkar.“ Hann segir þó útflutning ganga vel en í dag er hægt er að kaupa vörur Feed the Viking í vefversl- unum Amazon í Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Bretlandi og Svíþjóð. Ennig er hægt að versla beint í gegnum heimasíðu Feed the Viking og segir Friðrik þau hafa afgreitt netpantanir til 28 landa og yfir 470 borga. „Við erum komnir með einn endursöluaðila í Bandaríkjunum sem selur ýmsa matvöru á netinu og hefur salan gengið vonum framar. Sá aðili kaupir harðfisk, harðfisk með hvítum cheddar osti og Lamb Jerky“ en Friðrik segir þessar vörur vera þær vinsælustu. „Harðfiskurinn hefur verið vin- sælastur hingað til en þurrkaða lambakjötið er heldur betur að sækja í sig veðrið og hefur salan á því í Bandaríkjunum margfaldast á árinu. Í september birti Icelandic Lamb umfjöllun í Norður-Ameríku í samstarfi við Iceland Naturally um Feed the Viking og þurrkaða lambakjötið en salan tók kipp í kjöl- farið.“ Segir Friðrik það mikilvægt að sprotafyrirtæki fái aðstoð þegar fyrstu skrefin eru tekin á erlendum markaði. „Það er mikilvægt fyrir framleiðendur eins og okkur að fá tækifæri til þess að koma fætinum inn fyrir dyrnar. Við höfum pakk- að þurrkaða lambakjötinu í litlar kynningarpakkningar merktar Feed the Viking og Icelandic Lamb sem dreift hefur verið á blaðamanna- viðburðum í tengslum við Taste of Iceland-viðburði Iceland Naturally og var ánægjulegt að sjá áhuga lesenda fréttabréfsins á vörunum okkar í haust.“ Iceland Naturally er samstarfsverkefni stjórnvalda og íslenskra framleiðenda með hagsmuni á mörkuðum í Norður- Ameríku. Heldur verkefnið utan um markaðs- og kynningarherferð- ir í Bandaríkjunum og Kanada en markaðsstofan Icelandic Lamb er aðili að samningnum og hefur nýtt herferðir Iceland Naturally vel til markaðssetningar á íslenskum sauðfjárafurðum. Þrátt fyrir að stærsti mark- hópurinn hafi horfið í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar eru Friðrik og teymið bak við Feed the Viking bjartsýn til framtíðar. „Við sjáum auknar vinsæld- ir matvöruverslana á netinu og leggjum áherslu á útflutning og markaðssetningu erlendis. Við erum líka á fullu í vöruþróun og hlakka ég til þess að kynna fyrir viðskipavinum okkar fleiri íslensk matvæli. Nýjustu vörurnar okkar eru frostþurrkaðar súpur, fiskisúpa og þjóðarréttur Íslendinga – kjöt- súpan.“ Hann segir þær hannaðar fyrir göngugarpa eins og þá sem hann aðstoðaði uppi á Hellisheiði fyrir fjórum árum síðan. Með því að hella heitu vatni beint í umbúðirn- ar verður til dýrindis heit máltíð á tíu mínútum. Auðvelt er að koma umbúðunum fyrir í bakpokum hjá útivistarfólki og göngugörpum sem geta á ferðalögum sínum um hálendið gætt sér á næringarmikl- um súpum sem sækja fyrirmynd sína beint í íslenska matarmenn- ingu. Una Hildardóttir Friðrik Guðjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Feed the Viking. Friðrik fékk hugmyndina að þurrkuðu íslensku kjöti, eða Jerky, í útkalli með Hjálparsveit skáta í Garðabæ. Íslensk kjötsúpa, eða „Lamb Stew“, frá Feed the Viking. Hefur Íslendingum láðst að meta verðleika eigin þjóðarauðs? Það kom kannski sumum á óvart þegar áhugi erlendra ferðamanna á Íslandi jókst hratt eftir gos í Eyjafjallajökli. Hingað komu ferðamenn í leit að náttúruperlum og einstakri upplifun, upplifun- um sem okkur Íslendingum þykja ekki merkilegar. Þegar ferðamenn eru spurð- ir hvað hafi staðið upp úr á ferð sinni um landið eru algengustu svörin hreina loftið og drykkj- arvatnið, tilkomulitlir hlutir í huga okkar. Glöggt er gests augað og hafa símælingar Gallup á upplifun erlendra ferðamanna nýst vel í að meta gæði Íslands sem áfangastaðar. Síðastliðin þrjú ár hefur Gallup kannað áhrif markaðsherferðar Icelandic Lamb á neysluhegðun erlendra ferðamanna og viðhorf þeirra til íslensks lambakjöts. Frá upphafi mælinga hefur lambakjöt verið sú íslenska afurð sem flestir ferðamenn segjast hafa smakkað en vísbendingar eru um að ferðamenn séu eingöngu að auka neyslu sína á lambakjöti samhliða minni neyslu þeirra á öðru kjöti. Niðurstöðurnar hafa einnig gefið til kynna aukin sóknarfæri í útflutningi á uppruna- merktu íslensku lambakjöti en 19–24% ferðamanna frá löndum þar sem lambakjötsneysla er mikil telja sig mjög líklega til þess að kaupa íslenskt lambakjöt á sambærilegu verði og aðrar fyrsta flokks kjöt- vörur í heimalandi sínu. Hversdagsleg sælkeravara Íslendinga Sauðfjárbúskapur hefur fylgt okkur frá landnámi og höfum við þróað með okkur einstakar aðferðir við sauðfjárrækt sem hafa mótast af okkar sérstæðu aðstæðum. Á meðan aðrar þjóðir færðu sig nær verk- smiðjubúskap aðlöguðu íslenskir sauðfjárbændur hefðir sínar að tækninýjungum í landbúnaði. Stórt skref var tekið með tilkomu gæða- stýringar sauðfjárræktar sem telur til landnotkunar, einstaklings merkinga, skýrsluhalds, hirðingar, aðbúnaðar, fóðuröflunar og takmarkaðrar lyfja- notkunar. Með gæðastýringunni vinna sauðfjár bændur markvisst að því að bæta framleiðslu sína á há- gæða vöru sem á sér enga hliðstæðu. Íslenskt lambakjöt er framleitt á fjöl- skyldubúum við einstakar aðstæður í íslenskri náttúru og er frábrugðið öðru lambakjöti að því er varðar bragð, meyrni og hollustu. Viðhorf erlendra ferðamanna til lambakjöts er því allt annað en viðhorf okkar Íslendinga, í hversdagsleika okkar leynist sælkeravara sem meta þarf að þeim verðleikum sem gestir okkar hafa komið auga á. Öflugt markaðsstarf styrkir stöðu bænda Sjálfsmat og endurskoðun er undir- staða vel heppnaðs markaðs starfs en símat á viðhorfi ferðamanna á félagamerki og herferðum Icelandic Lamb er skýrasti árangursmæli- kvarði átaksverkefnisins. Kannanir hafa sýnt fram á fylgni milli þekk- ingar ferðamanna á félagamerki Icelandic Lamb og neysluhegðunar þeirra. Könnun sem framkvæmd var í lok síðasta árs sýndi t.a.m. að af þeim ferðamönnum sem könn- uðust við félagamerki Icelandic Lamb borðuðu 66% þeirra lamba- kjöt meðan á dvölinni stóð miðað við 47% þeirra sem ekki könnuð- ust við félagamerkið. Það má því leiða líkum að því að átakið hafi aukið neyslu ferðamanna á íslensku lambakjöti um 19%, auk þess voru ferðamenn sem þekktu merkið og sáu skjöld Icelandic Lamb á veitingahúsi helmingi líklegri til þess að neyta lambakjöts oftar en einu sinni. Markmið markaðssetn- ingar Icelandic Lamb gagnvart er- lendum viðskiptavinum innanlands og utan er að auka virði íslensks lambakjöts og bæta þannig afkomu bænda. Árangur átaksins sýnir að auðkenning íslensks lambakjöts með félagamerki sem vísar til upp- runa, auk markaðssetningar sem segir sögu íslenska sauðfjárkynsins, geti aukið arðsemi í útflutningi og stuðlað að verðmætasköpun með aukinni sölu til erlendra ferða- manna. Mikilvægt er að halda áfram að markaðssetja íslenskt lambakjöt til erlendra ferðamanna og horfa til möguleikanna sem kunna að leyn- ast í öðrum íslenskum landbúnað- arvörum. Gísli S. Brynjólfsson stjórnarformaður Icelandic Lamb Lambakjöt er sú íslenska afurð sem flestir ferðamenn segjast hafa smakkað.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.