Bændablaðið - 28.01.2021, Page 20

Bændablaðið - 28.01.2021, Page 20
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. janúar 202120 Ásælni auðmanna í land, og þá einkum ræktarland um allan heim, jókst verulega í kjölfar efna­ hagshrunsins 2008 og hefur haldið áfram samfara auknum auðsöfn­ uði á fárra hendur. Ein birtingar­ mynd þessara landhremminga, eða „Land Grabbing“, er að smá­ bændur og fátækir landeigend­ ur eru hraktir af jörðum sínum, heilu vistkerfunum umbylt og frumskógum eytt. Í vaxtarhagkerfi nútímans, þar sem þeir ríku verða stöðugt rík ari, þá fækkar stöðugt þeim stóru fjár- festingakostum sem eru nógu stór- ir fyrir þeirra auðæfi. Ræktarland, námuréttindi, vatns réttindi og veiði- réttindi eru því komin ofarlega á innkaupalistann hjá þessu fólki og þar er allur heimurinn undir. Líkt og eftir efnahagshrunið 2008 er nú búist við aukinni ásælni í landar- eignir í kjölfar heimsfaraldurs af völdum COVID-19. Hið nýja líf- hagkerfi (bioeconomy) sem búið var til undir yfirskini náttúruverndar hefur líka reynst vera vatn á myllu auðmanna til að réttlæta ásókn sína í ræktarland. Landhremmingar í Evrópu, brot á mannréttindum Hafa landhremmingar af þessum toga vakið ugg víða um lönd og hefur Evrópusambandið meira að segja vakið á þessu athygli og tekið til umræðu á þingi ESB. Þar var m.a. rætt um að óhófleg jarðakaup auð- manna og fyrirtækja í skjóli land- búnaðarstefnu ESB gætu mögulega verið brot á mannréttindum. Á árinu 2015 var t.d. greint frá því að vegna ásælni auðmanna og stórfyrirtækja í jarðir í skjóli stefnu CAP, landbúnaðarstefnu ESB, hyrfu þrjár jarðir smábænda úr höndum bænda í Rúmeníu á hverjum klukkutíma. Þá voru um 99% jarða í landinu í höndum lítilla fjölskyldubúa sem réðu yfir minna en einum hektara lands. Um 76 þús- und slíkar smájarðir voru keyptar upp í Rúmeníu á árunum frá 2010 til 2013. Í Úkraínu hafa fjárfestar víða að úr heiminum, en ekki síst frá Bandaríkjunum og ríkjum ESB, reynt að komast yfir verðmætt rækt- arland allt frá falli Sovétríkjanna. Um þessa ásælni hafa átökin í Úkraínu í raun að verulegum hluta snúist á undanförnum árum. Á evrópsku vefsíðunni arc2000, sem tileinkuð er hagsmunum smá- bænda, var í janúar 2019 grein um áhyggjur manna yfir að smábændur væru að þurrkast út vegna ásókn- ar verksmiðjubúskapar. Frá árinu 2000 hefur verksmiðjubúskapur farið ört vaxandi í landinu sem oft hefur verið kallað brauðkarfa Evrópu. Leiddi það vissulega af sér minnkandi fátækt í dreifbýlinu, en um leið að eignarhaldið á jörðum hvarf úr höndum smábænda og oft til útlendinga. Var þetta fegrað með hugtölum eins og „stýrðum landhremmingum“ (Controlled landgrabbing). Í greininni er sagt að um 80% af ræktarlandi í Úkraínu og í Rússlandi væri komið í hendur á eignarhaldsfélögum í landbúnaði. Þessi félög reyndu að kreista eins mikið út úr landinu og mögulegt væri með óhóflegri áburðargjöf sem geti haft alvarlegar afleiðingar til lengri tíma. Landhremmingar upp á rúmlega 60 milljónir hektara á 13 árum Á árunum 2000 til 2013 voru gerðir 1.127 stórir samningar um jarða- kaup víða um heim sem flokkast undir landhremmingar eða „Land Grabbing“, samkvæmt upplýsingum Research Gate. Efnahagshrunið haustið 2008 vakti aukna ásælni fjárfesta í ræktarlandi og öðrum raunverulegum fasteignum þegar þeir sáu fjárfestingar sínar í fjár- málafyrirtækjum gufa upp. Hafa bandarískir sem og evrópsk einka- fyrirtæki ásamt kínverskum ríkis- fyrirtækjum verið áberandi á þessu sviði. Tóku þessar fjárfestingar mikinn kipp á árinu 2009 og náðu hámarki 2010. Fóru þær síðan lækkandi til 2012 er þær fóru að aukast á ný. Má því allt eins búast við að afleiðing heimsfaraldurs COVID-19 verði mikill skellur á fyrirtækjamarkaði og stóraukin ásælni eftir landi víða um heim. Á bak við þessa stóru samninga frá 2000 til 2013 voru rúmlega 60 milljónir hektara. Þar af voru 545 samningar um stór jarðakaup í Afríku upp á 33.887.558 hekt- ara. Þá voru 400 samningar í Asíu á 16.933.517 hekturum. Í Mið- Ameríku voru 109 samningar um 4.279.466 hektara lands. Í Ástralíu voru 50 samningar um 3.964.138 hektara lands og í Austur-Evrópu voru 23 samningar um 994.569 hektara lands sem flokkuðust undir landhremmingar. Sama þróun á Íslandi Ísland er engin undantekning í þessum efnum og eru miklar efa- semdir uppi um að breytingar á íslenskum lögum sem gerðar voru á síðasta ári dugi til að stemma stigu við þessari þróun hér á landi. Ráðherra eru þar veittar víðtækar heimildir til að víkja frá skilyrðum laganna. Þar segir m.a. að ef væntan- legur kaupandi er hvorki íslenskur ríkisborgari né erlendur ríkisborgari með lögheimili á Íslandi eða á rétt á samningum sem tilgreindir eru, er unnt að sækja um leyfi ráðherra til þess að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign hér á landi. Ráðherra er þá heimilt að veita leyfi til að víkja frá skilyrðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna í tveimur tilvikum er varða atvinnustarfsemi og vegna sterkra tengsla við Ísland, m.a. vegna hjúskapar. Lögin lítill hemill á jarðakaup útlendinga Engar strangar takmarkanir eru í raun á hversu mikið land útlend- ingar geta eignast á Íslandi. Þó ákvæði séu um að skylt sé að afla samþykkis ráðherra er ekkert sem bannar honum að veita undanþágur fyrir eignarhaldi útlendinga á meiru en 1.500 hekturum. Þó skal sam- þykki „að jafnaði ekki veitt ef við- takandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð, nema umsækjandi sýni fram á að hann hafi sérstaka þörf fyrir meira landrými vegna fyrirhugaðra nota fasteignar“. Heimildir um kaup útlendinga á jörðum á Íslandi eru því eins opin og hugsast geta. Engin skyldu- ákvæði eru t.d. um að þeir þurfi að hafa verið búsettir á Íslandi um tiltekinn tíma, né að þeim sé skylt að hafa fasta búsetu á jörð sem þeir kaupa. Enda virðast lögin ekki hafa verið til vandræða við kaup Power Minerals Iceland, á Hjörleifshöfða ásamt 11.500 hektara jörð síðla árs 2020 fyrir 489 milljónir króna. FRÉTTASKÝRING Hörður Kristjánsson hk@bondi.is Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna – þá er ný tegund af ásælni í landbúnaðarland sögð bein afleiðing af stefnumörkum vegna umhverfis- og loftslagsumræðu Á vefsíðu MDPI í Basel í Sviss má sjá umfjöllun í skýrslu sem gefin var út í apríl 2020. Þar er lýst nýrri tegund land­ hremminga eða ásælni í rækt­ arland í Brasilíu og víðar sem sprettur upp úr loftslags­ umræðunni og er hluti af hinu nýja „lífhagkerfi“, eða „bioeconomy“. Þarna eru undir liggjandi miklir peninga­ hagsmunir. Hagsmunirnir felast í því að ná undir sig landi til að framleiða olíu úr korni sem notuð er í líf- eldsneyti (biofuel). Þessi olía selst á mjög háu verði til íblöndunar í jarðefnaeldsneyti. Í Brasilíu snýst þetta þó einkum um að leggja land undir ræktun á sykurreyr til að framleiða etanól í eldsneyti. Lífeldsneytið hefur síðan verið kynnt sem vistvænt eldsneyti í loftslagsmálum. Vísindamennirnir sem stóðu að þessari skýrslu og koma eink- um úr hagfræðideildum háskóla í Tékklandi, Brasilíu og Ítalíu, telja að í tilfelli Brasilíu sé þessi nýting á landi í raun andstæð yfirlýstum markmiðum. Hún geti ekki talist sjálfbær gagnvart umhverfinu. Skýrsluhöfundar benda á að ræktun sykurreyrs og olíuríkra korntegunda sé keyrð áfram í skjóli pólitískra ákvarðana, ekki síst innan Evrópusambandsins, sem hluti af lífhagkerfinu. Það er bein afleiðing umræðunnar um umhverfismál til að réttlæta áform um að draga úr losun gróð- urhúsalofttegunda. Í skýrslunni kemur fram að einhæf ræktun á sykurreyr til lífeldsneytisfram- leiðslu í Brasilíu hafi margvísleg neikvæð áhrif á náttúruna. Það leiði m.a. til stóraukinnar notk- unar eiturefna til að hemja ill- gresi og drepa skordýr. Þá hafi stóraukin ræktun á sykurreyr í Brasilíu leitt til landhremminga með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á náttúru og samfélag íbúa í landinu. Líka í Afríku Loftslagsumræðan hefur líka leitt til mikillar uppstokkunar í ræktun í Afríku. Þar hafa milljónir hekt- ara verið lagðir undir ræktun á olíuríkum jurtum til framleiðslu á lífeldsneyti. Þetta er í löndum sem hafa m.a. átt í vandræðum með að tryggja íbúum sínum fæðu. Það eru lönd eins og Gana, Benin, Eþíópía, Úganda, Tanzanía, Zambía og Suður-Afríka. Ný tegund landhremminga vegna loftslagsumræðunnar Reykspúandi sykurreyrverksmiðja Costa Pinto baggar sykurreyr sem fer til etanólframleiðslu sem notað er í „umhverfisvænt" lífeldsneyti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verksmiðjan er í Piracicaba, São Paulo-ríki í Brasilíu og framleiðir einnig allt rafmagn sem notað er í verksmiðjunni með brennslu á sykurreyr. Mynd / Wikipedia Þessi mynd er frá árinu 2012 en á fullkomlega við enn þann dag í dag. Þarna krefst Ramona Duminicioiu þess á þessu skilti að lokið verði sett á landbúnaðarstefnu ESB (CAP). „Við erum 4.000.000 smábændur í Rúmeníu. Við viljum lifa.“ Smábændurnir Mykoly og Maria í þorpinu Rusanivtsi í Khmelnytsk-héraði í Úkraínu reyna að lifa hófsömu lífi af því sem jörðin gefur af sér. Þau eru með tvær kýr, geitur og hænsni. Slíkir smábændur hafa þurft að víkja fyrir stórfyrirtækjum í landbúnaði. Mynd / arc2000/N.Mamonova Hinn 68 ára gamla breski milljarðamæringur, sir Jim Ratcliffe, fimmti ríkasti maður Bretlands, hefur verið drjúgur við kaup á íslenskum jörðum. Breska blaðið Daily Mail segir að hann hafi varið um 36,2 milljónum punda í kaup á 39 jörðum Íslandi síðan 2016, eða sem svarar um 6,4 milljörðum króna á núvirði.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.