Bændablaðið - 28.01.2021, Side 44
Bændablaðið | Fimmtudagur 28. janúar 202144
Fyrirhugaðar rannsóknir á sjúkdómum í íslenskum dúfum
Hér á landi finnst þó nokkur
fjöldi ræktaðra dúfna sem flokka
má í bréf- og skrautdúfur. Þessar
dúfur eru afkomendur bjargdúf-
unnar (Columba livia) sem búið er
að rækta í mismunandi afbrigð-
um til að ná fram ákveðnum eig-
inleikum og útliti. Einnig finnast
hópar villtra og hálfvilltra dúfna
víðs vegar um landið en ekki er
vitað nákvæmlega um uppruna
þeirra. Sumar hafa líklega flogið
hingað frá nágrannalöndunum
en einnig hafa ræktaðir fuglar
sjálfir valið líf í villtri náttúru
fram yfir kofalífið.
Litlar rannsóknir hafa verið
gerðar á sjúkdómum í íslensk-
um dúfum. Ætla má að tegundir
sjúkdómsvalda hérlendis svipi til
þeirra sem finnast erlendis en það
eru veirur, bakteríur, sveppir og
sníkjudýr.
Til þess að kanna sjúkdómsvalda
meðal íslenskra dúfna er nú verið
að hrinda af stað rannsókn sem fara
mun fram á Tilraunastöð Háskóla
Íslands í meinafræðum að Keldum.
Rannsóknin er styrkt af atvinnu-
vega- og nýsköpunarráðuneytinu
og miðar einkum að því að kanna
tíðni sýklalyfjaónæmis hjá bakter-
íum í dúfum á Íslandi. Þar verður
algengi Salmonella Typhimurium
var. Copenhagen (STVC) í dúfum
kannað sérstaklega en einnig verður
rannsakað hvort ónæmir stofnar,
bæði STVC og Escherichia coli (E.
coli) bakteríunnar finnist í dúfum.
Að auki verður sníkjudýrafána
fuglanna rannsökuð.
Salmonella í dúfum
Sú sermisgerð salmonellu sem oft-
ast greinist í dúfum er Salmonella
Typhimurium var. Copenhagen
(STVC) en bakterían er mjög
tegundasérhæfð og sýkir því
sjaldan önnur dýr eða fólk.
Bakterían skilst út með saur
þannig að smit verður með saur-
menguðu vatni, fóðri eða frá
umhverfi fuglanna.
Bakterían getur valdið
s júkdómseinkennum og
dauðsföllum hjá dúfunum. Helstu
einkenni af völdum hennar er
minnkuð matarlyst, slímugt og
grænleitt jafnvel blóðugt drit,
ofsamiga og lið- og húðbólgur.
Dánartíðni er há, sérstaklega hjá
ungum. Einstaklingar sem ná
sér annaðhvort af sjálfsdáðum
eða eftir meðhöndlun geta orðið
einkennalausir smitberar. Þeir eru
með slitróttan útskilnað bakteríunnar
og viðhalda því viðvarandi smiti í
kofunum án þess að sýna einkenni
eða veikjast sjálfir. Einkennalausa
smitbera ætti því að fjarlægja úr
kofunum ef þeir finnast. Greining
salmonellu getur verið erfið vegna
óreglulegs útskilnaðar bakteríunnar
en helst er að finna hana við
krufningu með sýnatöku og ræktun
úr sýktum líffærum eða með ræktun
úr endurteknum saursýnum.
Sýkingar af völdum salmonellu
eru tilkynningarskyldar til
Matvælastofnunar en vegna þess
hversu tegundasérhæfð STVC
er, telur stofnunin ekki ástæðu til
opinberra takmarkana þegar þessi
sermisgerð greinist í dúfum. Ekki
er vitað um tíðni salmonellusmita
af þessari sermisgerð hér á landi
en nokkur tilfelli hafa verið greind
í dúfum á Tilraunastöðinni að
Keldum ásamt fáeinum tilfellum
annarra sermisgerða salmonellu.
Aðrar bakteríusýkingar í dúfum
Ýmsar aðrar tegundir baktería
geta valdið sjúkdómseinkennum
hjá dúfum. Sýkingar af völdum
Streptococcus gallolyticus valda
einkennum sem svipar til einkenna
salmonellusýkinga en einnig geta
dúfurnar sýnt taugaeinkenni eins
og jafnvægisleysi. Stór hluti dúfna
hefur þessa bakteríu í þarmaflóru
sinni án þess að hún valdi sjúkdóms-
einkennum en berist hún í blóðið
hefur bakterían greiðan aðgang
að hinum ýmsu líffærum þar sem
hún getur fjölgað sér og valdið
sjúkdómi. E. coli er hluti af eðlilegri
þarmaflóru fuglanna en svipað og
S. gallolyticus getur bakterían
valdið sjúkdómi berist hún í blóðið.
Einkenni blóðsýkingar af völdum
E. coli eru niðurgangur, uppköst,
þyngdartap og skyndidauði,
sérstaklega hjá ungum.
Einkenni frá öndunarfærum geta
orsakast af bakteríunni Chlamydia
psittaci en einnig Mycoplasma og
öðrum tegundum baktería. Helstu
einkenni sýkinga í öndunarvegi
dúfna eru óeðlileg öndunarhljóð,
öndun með opinn gogg en einnig
stélöndun sem lýsir sér þannig
að kroppur fuglanna gengur til
og stél ið sveiflast upp og niður
vegna erfiðleika við öndun. Þar að
auki getur orðið vart við útferð frá
nösum og augum.
Oft eru sjúkdómseinkenni óljós
en fuglarnir eiga það gjarnan til
að éta og drekka minna og sýna
vanlíðan með því að ýfa fjaðrir
sínar og draga sig til hlés. Þessi
hegðun er einungis vísbending um
veikindi sem rétt er að rannsaka
áður en meðhöndlun hefst.
Veirusýkingar
Sýkingar af völdum veira sem herja
á dúfur eru þekktar erlendis. Lítið er
enn sem komið er vitað um tegundir
veira í dúfum og algengi þeirra hér
á landi.
Innri sníkjudýr
Ýmis sníkjudýr hafa þegar verið
staðfest í dúfum á Íslandi. Innri
sníkjudýrin eru Trichomonas gall-
inae sem veldur kranka en einnig
iðraþráðormarnir Ascaridia
columbae og Capillaria ormar.
Trichomonas gallinae er svipu-
dýr sem sest að í koki og sarpi
og getur valdið þar sjúkdómsein-
kennum. Helstu einkenni eru ost-
kennd útferð í koki og munnholi
en einnig skert fluggeta og óeðli-
leg öndun. Smitaðar, fullorðnar
dúfur sýna oftast ekki einkenni
en þær geta veikst ef ónæmiskerfi
bælist til að mynda við álag eða
stress. Ungar eru hins vegar í
meiri hættu á að veikjast alvar-
lega og getur dánartíðni verið
há hjá ungum í hreiðri. Helsta
smitleið Trichomonas gallinae
er með munnvatni eða sarpmjólk
sem foreldrar fæða unga sína á.
Erlendar rannsóknir hafa sýnt
að svipudýrið er mjög algengt í
dúfum en ekkert er vitað um tíðni
þess hér á landi.
Fáein tilfelli ormasýkinga hafa
verið greind á Tilraunastöðinni
að Keldum þar sem áðurnefndar
tegundir fundust. Erlendis finnast
mun fleiri tegundir, bæði þráð- og
bandormar en einnig ögður.
Mikilvægt er að greina og með-
höndla ormasýkingar í fuglunum
því þær skemmdir sem ormarnir
valda á þarmaslímhimnu greiða
leið baktería inn í blóðrás fuglanna.
Þannig geta bakteríur sem teljast
til eðlilegrar þarmaflóru orðið að
sjúkdómsvöldum.
Alvarleiki einkenna af völdum
ormasýkinga er mismundandi og
fer það meðal annars eftir tegund og
fjölda fullorðinna orma í þörmum
en einnig eftir heilbrigði fuglanna
og hversu öflugt ónæmiskerfi þeirra
er.
Hreinlæti í kofum er mjög þýðingarmikið þar sem óþrifnaður í kringum
fuglana, saurmengað vatn og fóður, viðheldur sýkingum í umhverfinu.
Einnig er mikilvægt að huga vel að heilsu fuglanna með góðri fóðrun og
bætiefnum sem styrkja ónæmiskerfi þeirra.
Mikilvægi hreinlætis og fóðrunar
Tvær tegundir naglúsa sem greindar voru á íslenskri dúfu í nóvember
síðastliðnum, Campanulotes compar (t.v.) og Columbicola columbae (t.h.).
Myndir / Karl Skírnisson
Egg Capillaria iðraþráðorms sem
fannst í driti veikrar dúfu hérlendis.
Mynd / Kristbjörg Sara Thorarensen
Afturendi iðraþráðormsins Ascaridia columbae. Ormurinn fannst nýverið í
innfluttri dúfu. Mynd / Karl Skírnisson
Gull- og Kopargimplar í kofa sínum. Mynd / Olgeir Andresson
Skrautdúfur eru ræktaðar í ýmsum afbrigðum, hér er Horseman pústari.
Mynd / Olgeir Andresson
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum