Morgunblaðið - 28.05.2021, Blaðsíða 56
Bassi Kristinn Sigmundsson.
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Annað árið í röð hefur kórónu-
veirufaraldurinn áhrif á tímasetn-
ingu hátíðarinnar,“ segir Laufey
Sigurðardóttir fiðluleikari, sem í
24. sinn stendur fyrir tónlistar-
hátíðinni Músík í Mývatnssveit nú
um helgina. Frá því hátíðin hóf
göngu sína 1998 hefur hún verið
haldin um bænadagana, en í fyrra
var hún haldin að sumri til og í ár
er hún haldin í maí. Þannig verða
fyrri tónleikar ársins haldnir í
Reykjahlíðarkirkju í kvöld, föstu-
dag, kl. 21 og seinni tónleikarnir í
Skjólbrekku annað kvöld, laugar-
dag, kl. 20.
„Nýjustu fréttir um afléttingu
samkomutakmarkana eru góðar
fréttir sem gleðja okkur,“ segir
Laufey og tekur fram að von sé á
töluverðum fjölda fólks í Mývatns-
sveit um helgina þar sem fram fer
Mývatnsmaraþon. „Vonandi geta
hlaupararnir líka komið og notið
tónleikanna,“ segir Laufey.
Hleypur glöð í skarðið
Þegar blaðamaður náði í Lauf-
eyju fyrr í vikunni var hún að
leggja í hann norður. „Í morgun
kom í ljós að Diddú, Sigrún Hjálm-
týsdóttir, getur ekki verið með
okkur vegna veikinda og þá voru
góð ráð dýr,“ segir Laufey og tek-
ur fram að hún hafi áður þurft að
redda afleysingu á leið sinni norð-
ur í land. „Ég hafði samband við
Þóru Einarsdóttur sópran sem
hleypur glöð í skarðið. Það er stór-
kostlegt að eiga svona gott fólk
að,“ segir Laufey sem sjálf kemur
fram á hátíðinni. Auk þeirra koma
fram bassasöngvarinn Kristinn
Sigmundsson og píanóleikarinn
Peter Máté. „Það er mikið ánægju-
efni fyrir mig að fá svona glæsi-
lega flytjendur til að koma fram
með mér.“
Í venjulegu ári bæri föstudags-
tónleikana upp á föstudaginn
langa, en svo er ekki í ár. „Sem
þýðir að við verðum ekki í eins
hátíðlegum stellingum og vana-
lega,“ segir Laufey þegar hún er
spurð um efnisskrána. Í kvöld mun
meðal annars hljóma fiðlusónata
eftir Johann Sebastian Bach auk
þess sem flutt verður tónlist eftir
Henry Purcell, Joseph Haydn og
Wolfgang Amadeus Mozart. Á efn-
isskrá tónleikanna á morgun er
fiðlusónata eftir Ludwig van
Beethoven auk þess sem fluttar
verða óperuaríur, dúettar og
íslensk sönglög.
Þakkar góðar viðtökur
Spurð hvort reynslan í kófinu
verði mögulega til þess að hátíðin
verði í framhaldinu á öðrum tíma
en um páskana svarar Laufey því
neitandi. „Í venjulegu árferði er
svo mikið af ferðafólki í sveitinni í
kringum páskana. Ástæða þess að
ég fór af stað með hátíðina á sínum
tíma var að mér fannst vanta mót-
vægi við þá útivistarafþreyingu
sem í boði er um páskana. Mark-
mið mitt hefur líka alltaf verið að
bjóða upp á afþreyingu sem
Mývetningar geta notið, en reynsl-
an hefur sýnt að sumarið er svo
mikill annatími að ég næ betur til
heimamanna um páskana. Fólkið í
sveitinni, sveitarstjórnin og ýmis
ferðaþjónustufyrirtæki hafa í
gegnum tíðina tekið á móti okkur
af miklum rausnarskap sem ber að
þakka,“ segir Laufey sem reiknar
því með að hátíðin Músík í Mý-
vatnssveit verði haldin um páskana
2022. „Á næsta ári verður hátíðin
haldin í 25. sinn. Besta afmælis-
gjöfin væri ef hægt yrði að tryggja
fjárhagslegt öryggi verkefnisins til
frambúðar,“ segir Laufey að lok-
um. Þess má geta að miðar eru
seldir við innganginn og aðgengi
er fyrir hjólastóla á báðum tón-
leikastöðum.
„Stórkostlegt að eiga svona gott fólk að“
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Eftirvænting Peter Máté og Laufey Sigurðardóttir skömmu fyrir brottför.
Sópran Þóra Einarsdóttir.
- Tónlistarhátíðin Músík í Mývatnssveit haldin í 24. sinn - Tónleikar í Reykjahlíðarkirkju og
Skjólbrekku - Á efnisskránni er tónlist eftir Bach, Beethoven, Purcell, Haydn og Mozart
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. MAÍ 2021
Þ
egar gróðurinn fer að taka
við sér, grasið að vaxa og
runnar og tré fara að
skipta litum, þá má segja
að fyrrverandi heimili Ásmundar
Sveinssonar, Ásmundarsafn, sómi
sér best. Með uppsprettu græna lit-
arins ljómar þessi hvíta bygging
enn frekar og stíleinkenni hennar
skerpast í sólinni. Á meðan ég gekk
að safninu í gegnum högg-
myndagarðinn velti ég því fyrir
mér hvort einhver verk sýning-
arinnar Ef lýsa ætti myrkva væru
sýnileg utan frá, sem reyndist vera.
Í bogadregnum gluggum Skemm-
unnar má sjá glitta í regnbogalitað
verk listakonunnar Sirru Sigrúnar
Sigurðardóttur, „Hvelfingu“ (2021),
með skemmtilegum hætti.
Á undanförnum mánuðum hafa
farið fram viðgerðir á Ásmundar-
safni og þegar ég steig inn í safnið
mátti enn finna málningarlykt í
loftinu; hinn hvíti einkennislitur
safnsins ljómaði sem aldrei fyrr að
utan sem innan. Ásmundur Sveins-
son var alþýðulistamaður í þeim
skilningi að viðfangsefni hans sem
og framsetning verkanna voru
hugsuð fyrir almenning til að lesa
og njóta. Ásmundur gekk meira að
segja svo langt að segja að til-
gangur listarinnar væri lítill ef
þjóðin gæti ekki notið hennar. Þau
verk hans sem valin hafa verið af
listakonunni Sirru og sýning-
arstjóranum Ingibjörgu Sigurjóns-
dóttur gefa ágæta mynd af ferli
listamannsins, hugrenningum hans
og tilvistarlegum áherslum. Í mjög
svo einfölduðu máli endurspegla
verk sýningarinnar annars vegar
fyrri hluta ferils Ásmundar, til að
mynda með fígúratívum högg-
myndum með einkennandi ávölum
línum og sterkri formgerð sem
sýna litasnauðan en sterkan naív-
ískan stíl. Litlu er ofaukið í verkum
Ásmundar en augnablik viðfangs-
efnisins kemst vel til skila. „Veður-
spámaðurinn“ (1935) og „Himinn
og jörð“ (1935) sýna einmitt þessi
efniseinkenni listamannsins ágæt-
lega. En það má einnig sjá nýrri
verk Ásmundar á sýningunni,
óhlutbundna málmskúlptúra sem
eiga í ágætu samtali við skissur
beggja, hans og Sirru, sem og önn-
ur hennar verk þar og hugrenn-
ingatengsl. Það sem sameinar verk
Ásmundar og Sirru Sigrúnar eru
athuganir listamannanna á grunn-
einingum mannlegrar tilveru, alls
þess sem á sér stað á milli himins
og jarðar. Þannig eiga verk Sirru í
einlægu samtali við skúlptúrverk
Ásmundar og ekki síst safnbygg-
inguna sjálfa.
Samtalið gengur upp
Ef safnið er skoðað utan frá þá ber
það mörg einkenni stjörnuathug-
unarstöðvar, má þá nefna Kúlu-
húsið svokallaða, bogadregnu
gluggaríku Skemmuna, og flötu
hálfpíramídalaga þökin sem mynda
í sjálfu sér ágæta útsýnispalla.
Hugmynd Sirru að baki verkinu
„Hvelfing“ sem myndar þunga-
miðju sýningarinnar má rekja til
sólúrs og rímar því ágætlega við
þessar hugmyndir tengdar him-
ingeiminum. Sólúr þetta er þó ein-
stakt og gefur ekki hugmynd um
nákvæma tímasetningu sólarhrings-
ins heldur myndar litaskin verksins
áminningu um að njóta augnabliks-
ins eins og það kemur fyrir í þess-
um töluðum orðum. Í víðu sam-
hengi eru verk Sirru á sýningunni
undir áhrifum hugmyndalistar en
eru þó aðgengileg, gáskafull og
tengja hvíta rýmið lit og mjúkum
ljóma. Að mörgu leyti gengur sam-
tal þessara tveggja listamanna vel
upp, einmitt vegna þess að vísun
Ásmundar til naívisma og ekki síst
natúralisma passar vel við litanotk-
un og viðfangsefni Sirru. En í verk-
um sínum hefur Sirra ýmist skoðað
ljós, skugga og samspil lita sem og
hreyfingu mannsins og viðbrögð
hans við eigin umhverfi, bæði
manngerðu og náttúrulegu. Hvort
sem litið er til hinna gegnsæju lit-
ríku plexiglers-stöpla, sem verk Ás-
mundar eru á, eða litaskinsins sem
endurkastast í gegnum rúður safns-
ins á nærliggjandi veggi má segja
að litaskin verksins „Hvelfing“
verði hvatning til að skerpa á eft-
irtektinni og njóta augnabliksins
meðan birtan varir.
Hugrenningar Sirru um form-
notkun Ásmundar, og sameig-
inlegur áhugi þeirra á forna
Ólympíuleikvanginum í Aþenu, eru
skemmtilega fram settar þó svo á
stundum renni hugmyndaheimur
þessara tveggja listamanna saman.
Þessi samsuða kemur þó ekki að
sök enda þekkja hugmyndaheimar í
sjálfu sér hvorki tíma né rúm. Sýn-
ingin er natúralísk og sýnir rann-
sóknarvettvang tveggja ólíkra lista-
manna sem starfa með um hundrað
ára millibili. Hvoru í sínu lagi er
þeim Ásmundi og Sirru tilvist
mannsins hugleikin, smæð hans og
tengsl við bæði menn og náttúru.
Þau eru mörg augnablikin á milli
himins og jarðar sem gefa má
gaum; 20. maí var afmælisdagur
Ásmundar, 26. maí var tunglmyrkvi
og á tímabilinu 13. maí til 3. októ-
ber stendur sýning þeirra Ásmund-
ar og Sirru yfir. Augnablik sem er
þess virði að doka við og taka eftir.
Augnablik á milli himins og jarðar
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Regnbogalitir Í bogadregnum gluggum Skemmunnar má sjá glitta í regnbogalitað verk Sirru, „Hvelfingu“.
Ásmundarsafn
Ef lýsa ætti myrkva – Verk eftir Sirru
Sigrúnu Sigurðardóttur og Ásmund
Sveinsson bbbnn
Ásmundarsafn við Sigtún.
Sýningarstjóri: Ingibjörg Sigurjóns-
dóttir. Opið er alla daga kl. 10 til 17.
KARINA
HANNEY
MYNDLIST
Samtal Verk Sirru eiga í einlægu samtali við skúlptúrverk Ásmundar.