Morgunblaðið - 08.07.2021, Qupperneq 64
64 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. JÚLÍ 2021
Sími 557 8866 | www.kjotsmidjan.is | Fossháls 27, 110 Reykjavík
Gott úrval af gæðakjötiá grillið
Opnunartími
8:00-16:30
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Plata með hinn óvenjulega titil
Einbeittur brotavilji kom út fyrir
helgi. Að baki þessari fjórtán laga
plötu stendur Sálgæslan, sem er
sérverkefni Sigurðar Flosasonar
saxófónleikara, en hann hefur
fengið einvalalið söngvara og hljóð-
færaleikara með sér í lið.
Söngvararnir sjö eru ekki af
verri endanum; Helgi Björns, KK,
Andrea Gylfadóttir, Stefán Hilm-
arsson, Friðrik Ómar, Jógvan Han-
sen og Rebekka Blöndal. „Þetta er
allt frábært fólk sem ég hef unnið
með í gegnum tíðina í alls konar
verkefnum og það er gaman að það
sé til í að koma í þessa vitleysu
með manni,“ segir Sigurður.
Þórir Baldvinsson leikur á
Hammond-orgel, Einar Scheving á
trommur og Andrés Þór Gunn-
laugsson á gítar, auk þess sem
nokkrir aðrir tónlistarmenn aðstoð-
uðu við gerð plötunnar, Ari Bragi
Kárason á trompet, Samúel J.
Samúelsson á básúnu, Matthías
Stefánsson á fiðlu og Bryndís
Björgvinsdóttir á selló.
Systurnar djassinn og blúsinn
Að sögn Sigurðar er tónlistin á
mörkum djass, blús og sálartón-
listar. „Þessi snertiflötur djass og
blús, blúsuð djasstónlist eða djöss-
uð blústónlist, hefur höfðað til mín
alveg frá því ég var unglingur.
Þetta eru svona systrafyrirbæri,
djassinn og blúsinn, og eiga mjög
eðlilega samleið. Það er stórt
skurðmengi þeirra á milli og þessi
tónlist á plötunni er einhvers stað-
ar þar.“
Sigurður segir plötuna hafa
sprottið upp úr vangaveltum um
blús og þau umfjöllunarefni sem
koma við sögu innan þeirrar tón-
listarstefnu. „Þetta á sér reyndar
sögu aftur í eldri plötur sem ég hef
gert, það eru instrumental plötur
þar sem Hammond-orgelið er í for-
grunni, eins og er á þessari plötu.
Ég á einar þrjár þannig að baki.
Þær heita Bláir skuggar, Blátt ljós
og Blátt líf og þótt þar séu engir
textar þá eru titlar sem vísa í þess-
ar áttir. Þar var ég að velta fyrir
mér blúsumfjöllunarefnum og
komst að þeirri niðurstöðu að þar
væri oft um að ræða orð sem byrja
á bókstafnum F,“ segir Sigurður
og hlær. „Það er kannski ekki það
sem fólki dettur fyrst í hug. En
þar koma við sögu fangelsi, fyllirí,
framhjáhald og ferðalög og fimmta
F-ið er jafn vel fjandinn sjálfur.
Ég fór að leika mér að því að búa
til lög sem yfirfærðu þennan amer-
íska blúsveruleika á íslenskan
veruleika. Það var fyrst bara í titl-
unum á lögunum en svo fór ég að
föndra við að setja texta við nokk-
ur þeirra laga sem áður voru bara
instrumental og svo búa til ný lög
og texta, út frá sömu grunnhug-
mynd. Þá kemur meira kjöt á bein-
in.“
Kemur í stórum gusum
Einbeittur brotavilji er að sögn
Sigurðar í beinu framhaldi af ann-
arri plötu sem kom út fyrir síðustu
jól og ber titilinn Blásýra. Hann
segir þetta í rauninni vera sama
verkefnið, sum laganna á nýju plöt-
unni hafi verið hljóðrituð á sama
tíma og lögin á Blásýru en önnur
síðar. „Þannig að þetta er svona
einn bunki af tuttugu og fjórum
lögum sem koma þarna saman á
systurplötum,“ segir Sigurður.
„Það er stundum þannig að þegar
ég byrja á einhverju þá kemur stór
gusa. Þarna er komin dálítið stór
gusa af þessu og svo kemur
kannski stór gusa af einhverju
öðru næst.“ Hann bætir við að árið
2011 hafi Sálgæslan gefið út sína
fyrstu plötu, sem bar titilinn Dauði
og djöfull, svo Einbeittur brotavilji
sé í raun sjötta platan í þessu
verkefni, þar sem alls eru þrjár
instrumental plötur og þrjár
sungnar.
Umfjöllunarefnin á Einbeittum
brotavilja eru óvenjuleg og segir
Sigurður plötuna nokkurs konar
„óð til íslenska smáglæpamanns-
ins“. Þar koma við sögu brenni-
vínsberserkir, eltihrellar, siðleys-
ingjar og smákrimmar. Hann segir
að ýmislegt ólöglegt komi fyrir í
textunum og ýmsir vinklar á sam-
skipti kynjanna sem kalla má tabú
eða eru á einhverjum mörkum, til
dæmis swing-menningin.
„Þetta er gert með bros á vör
eða glotti út í annað, en þetta eru
auðvitað alvarlegir hlutir líka. Ég
er svona að leika mér að því að
hlæja með þessum heimi og líka að
velta fyrir mér hvort megi skrifa
texta um hvað sem er. Við erum
orðin það nútímaleg í íslensku
samfélagi að við ættum eiginlega
að vera komin lengra en svo að
bara samþykkja þessa hluti. Ef
þeir eru orðnir algerlega normal-
íseraðir þá hljótum við að mega
brosa að þeim eins og öllu hinu,“
segir saxófónleikarinn.
„Geysilega gaman“
„Ég satt að segja hlæ upp úr
eins manns hljóði þegar ég er að
semja þessa texta. Ég hef geysi-
lega gaman af þessu. Fyrir mér er
þetta líka ákveðin skemmtitónlist.
Mest af því sem ég hef gert á mín-
um ferli er alvarlegri djasstónlist,
instrumental og kannski nútíma-
legri, ýmist frumsamin eða djass-
standardar. Þetta er svolítið annar
gír. Það er dálítil frelsun í því,
þetta er ákveðið hliðarspor eða
„alter ego“-mál fyrir mig, aftöppun
fyrir annars konar sköpunargáfu
eða sköpunarþrá.“
Sigurður vonar að hlustendur
deili með honum gleðinni. „Ég er
að vona að einhverjum sem ekki
eru djassunnendur geti fundist
þetta skemmtilegt. Ég finn það á
þeim sem heyra þessa tónlist að
margir brosa líka og hafa gaman af
þessu. Þetta er aðgengilegri og
einfaldari músík en mikið af þeim
djassi sem ég spila annars.“
Tónlistarmaðurinn Þórir Bald-
ursson hefur verið í stóru hlutverki
á plötunum sex, þar sem hann leik-
ur mest á Hammond-orgel. „Þetta
er byggt svolítið utan um Hamm-
ond-orgelið, þessi blús- og kirkju-
hljómur sem það hefur er í þessu
öllu saman. Þórir er aðeins farinn
að reskjast, hann er nær áttræðu
en sjötugu, en lætur engan bilbug
á sér finna og það er alveg frá-
bært. Það er gaman að geta doku-
menterað hann svona.“
Óður til íslenska smáglæpamannsins
Morgunblaðið/Unnur Karen
Sálgæslan Sigurður Flosason saxófónleikari leikur sér að því að semja lög og texta um ýmislegt sem kalla má tabú.
- Ný plata Sálgæslunnar, Einbeittur brotavilji, er komin út - Saxófónleikarinn Sigurður Flosason
segir þetta skemmtitónlist á mörkum djass og blús - Óvenjuleg og ögrandi umfjöllunarefni
Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn
Spike Lee er mættur til Cannes þar
sem hin virta kvikmyndahátíð er
hafin í 74. sinn. Lee er formaður
aðaldómnefndar hátíðarinnar og
sá fyrsti þeldökki í langri sögu
hennar. Lee sagði á fundi með fjöl-
miðlamönnum á þriðjudag að
Cannes væri merkasta kvikmynda-
hátíð heims og að með þeim orðum
sínum væri hann þó ekki að gera
lítið úr öðrum hátíðum. Lee hefur
mætt reglulega á hátíðina allt frá
því fyrsta kvikmynd hans, She’s
Gotta Have It frá árinu 1986, var
frumsýnd þar. Árið 1989 var önnur
kvikmynd eftir hann, Do the Right
Thing, einnig frumsýnd í Cannes
en hlaut þó ekki aðalverðlaunin. Sú
fjallar um átök fólks af ólíkum
uppruna og kynþáttahatur í Brook-
lyn og nefndi Lee á fundinum að
enn í dag, rúmum 30 árum síðar,
væri svart fólk ofsótt í Bandaríkj-
unum. Minntist hann morðsins á
George Floyd í því sambandi.
Hátíðin stendur yfir til 17. júlí
og verða kvikmyndir margra
heimskunnra leikstjóra frum-
sýndar.
AFP
Formaður Spike Lee í Cannes. Hér sést hann með frönsku leikkonunni Mel-
anie Laurent (t.h.) og hinni fransk-senegölsku Mati Diop sem er leikstjóri.
Fyrsti þeldökki for-
maðurinn í Cannes