Strandapósturinn - 01.06.1967, Page 55
Vorsins blíðu vökustundir
veita mörgum yndishót.
UnaSsheitir ástarfundir,
ef að bindast sveinn og snót.
Allt til lífsins vorið vekur,
vaknar þrá í brjóstum heit.
Til ýmsra ráða ungmey tekur,
ef unnustann í nálægð veit.
Oft til leynifunda fóru,
fögur snót og hraustur sveinn.
Grunuðu ei, að vöktuð voru,
vissu um þetta fleiri en einn.
Faðir hennar fékk þó eigi,
fregn af þessu neina um sinn.
Ill er hætta á ástarvegi,
ef það vissi húsbóndinn.
Út við hamar áttu skúta,
inni gátu setið þar.
Það má oft að litlu lúta,
litla skýlið höll þeim var.
Þeir, er elska heitt af hjarta,
horfa fram á glœstan veg.
Heiðrík œskuástin bjarta,
yndisfull og dásamleg.
Þetta sumar þannig líður,
þeim var létt um næturfund.
Sveinninn hýr og svanni fríður
saman undu marga stund.
Haustið kom með hret og snjóa,
heldur strjálast ástamót.
Sporrœkt varð um mel og móa,
mun það hœtta sveini og snót.
53