Strandapósturinn - 01.06.1979, Qupperneq 69
sögu þeirra systkina. Þau verða öllum, sem þau þekktu, minnis-
stæð, og mér voru þau einkar kær. Það voru ótaldar gleðistundir,
sem ég átti á heimili þeirra í æsku og einnig fullorðinn, þann
tíma, sem ég átti heimili á Borðeyri. Lengst af skildi ég þau ekki
nógu vel, en sá glöggt er á leið, að þau komu alltaf til dyranna
eins og þau voru klædd og gerðu litlar kröfur til skrauts eða
þæginda fyrir sig eða heimilisfólk sitt, og var báðum jafn eðlilegt
og nauðsynlegt að fara vel með og gæta þess, sem þau öfluðu,
eins og þeim var í blóð borið að sýna gestum rausn — er þá bar
að garði.
Sem ég hef hér fyrr sagt, var Kristín fróð og sagði hispurslaust
frá, og varð hún mér uppspretta að fróðleik um fólk og fyrirbæri
í Hrútafirði og nágrannahéruðum.
Þess minnist ég og, að þætti Kristínu sérstaklega til um ein-
hvern, þá sagði hún gjarna — já, hann var maður. — Þetta voru
orð þessarar stórlyndu rausnarkonu um þá, sem hún mat mikils.
Þessi orð notaði hún ósjaldan um Jón Bjarnason, langafa
föður míns, en föðurbróður hennar, en hans minntist hún oft.
Saga hans varð því mér minnisstæð, enda var hann ættfaðir
minn, og ætla ég nú að reyna að segja kafla úr henni, sem líkast
því, er Kristín sagði, og færa kaflann í þann búning, er ég hygg
að hún mundi helzt hafa kosið.
II. Á Fögrubrekku
Við skulum bregða okkur sem snöggvast aftur í tímann. Það er
14. júní árið 1884. I lágreistri baðstofu á Fögrubrekku í Hrúta-
firði situr á fleti sínu 84 ára gamall bóndi, maður hár vexti, lítt
lotinn með grátt og mikið alskegg. Hár hans hvítt og flókið nær á
herðar niður. Hann situr og rær fram í gráðið og horfir blindum
augum fram fyrir sig.
Þessi maður er Jón Bjarnason. Hann er búinn að vera al-
blindur síðan í april í vor, er hann lokaði brostnum augum síðari
konu sinnar, Kristínar Jónsdóttur, er þá andaðist. Enginn hafði
heyrt hann kveinka sér þá fremur en fyrr, en hann sagði í lágum
hljóðum — ég kem bráðum, Kristín mín. —
67