Strandapósturinn - 01.06.1979, Blaðsíða 72
Sólskríkjan heldur áfram að tísta, en ósköp ámátlega, finnst
honum. Skyldi kötturinn hafa náð unga frá henni. O, jæja, kettir
og sólskríkjur eiga ekki of vel saman.
Gaman væri nú að sjá sólskinið, himininn og lognkyrrðina og
sjá grængresið, en hann getur næstum heyrt það gróa. Grasið rís
upp eftir harðan og langan vetur, kyrrt í logni, en bylgjast þegar
golan bregður á leik.
Hann sjálfur, kannske var hann hélustrá, sem hefur orðið eftir
frá vetrinum, en þó, hann á eftir óleyst verkefni, og það verður að
gerast í dag. Heimilið getur ekki verið húsmóðurlaust. Hann
ætlar að skreppa og ná í búkonuefni fyrir tengdason sinn. Það
verður að hugsa um þá, sem lifa, það er séð um hina.
Hann tekur ekkert eftir því, að maður er kominn að hlið hans,
ekki fyrr en sá styður hendi á öxl hans, því að hann þekkir
handarþrýsting tengdasonar síns.
— Hvað er Óli að gera með þá Blesa og Jarp, — spyr ungi
bóndinn hæglátlega.
— Svo sem ekkert. Ég ætla bara að skreppa dálítið.
— Nú, ætlar þú að fara yfir að Fossi og hitta hann Jón þinn,
spyr sá yngri.
— O, nei, ég ætla nú lengra. Ég ætla að sækja konu á heim-
ilið. Fagrabrekka getur ekki verið húsmóðurlaus. —
— En hún Guðrún okkar hggur á börunum, segir sá yngri og
er nú fastmæltur. — Ekki get ég farið að hugsa um aðra konu
fyrir mig á meðan. —
— Það verður að hugsa um þá sem lifa, Nonni, — segir sá
gamli með þjósti. — Það er séð um hina. Við þurfum ekki að
hugsa um þá, sem Guð hefur tekið á móti. —
— Nú kemur þú heim, segir yngri bóndinn ákveðinn. — Ég
hef fengið loforð um aðstoð frá Melum, og svo sjáum við til. —
Hann tekur hlýlega en ákveðið um herðar gamla bóndans,
sem er orðinn hvítur á hár og skegg, hvítur eins og hélustrá, en
hefur aldrei kunnað að gefast upp og alltaf viljað halda áfram að
lifa fyrir þá sem lifðu.
70