Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Qupperneq 10
Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir fólk með kynhneigð,
kynvitund, kyneinkenni og/eða kyntjáningu sem fellur ekki að
ríkjandi viðmiðum samfélagsins.
Hinsegin fólk er m.a. hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir,
pankynhneigðir, eikynhneigðir, trans fólk og intersex fólk.
Kynhneigð segir til um það hverjum fólk verður skotið í, ástfangið
af og/eða laðast að. Kynhneigð er allskonar, getur breyst með
tímanum og er mismunandi hjá hverjum og einum. Fólk getur
laðast að einhverjum af öðru kyni, af sama kyni, að tveimur eða fleiri
kynjum en fyrir öðrum skiptir kyn ekki máli þegar kemur að aðlöðun.
Sum laðast lítið eða ekkert að öðru fólki. Sumum hentar að skilgreina
kynhneigð sína en öðrum ekki.
Gagnkynhneigð: að laðast að fólki af öðru kyni
Samkynhneigð: að laðast að fólki af sama kyni (hommar/lesbíur)
Tvíkynhneigð: að laðast að fólki af fleiri en einu kyni
Pankynhneigð: að laðast að fólki óháð kyni
Eikynhneigð: að laðast lítið eða ekkert að öðru fólki
BDSM-hneigð: að laðast að fólki sem deilir löngunum um
samþykk og meðvituð valdaskipti
Kyneinkenni segja til um hvernig líkaminn okkar starfar og hefur því
eingöngu með líffræði að gera. Kyneinkenni ná t.d. yfir hormónastarfsemi
líkamans, litninga og ytri og innri kynfæri. Sumir einstaklingar fæðast
með kyneinkenni sem falla ekki að ríkjandi hugmyndum um karl- og
kvenlíkama og kallast það að vera intersex. Til eru margar útgáfur af því
að vera intersex. Hjá sumum sést það strax við fæðingu, hjá öðrum við
kynþroska, öðrum mun seinna og hjá sumum kemur það aldrei í ljós.
Markkynja: að fæðast með dæmigerð kyneinkenni sem falla að
stöðluðum hugmyndum um hvernig líkamar kvenna
og karla líta út eða starfa
Intersex: að fæðast með ódæmigerð kyneinkenni sem stangast
á við staðlaðar hugmyndir um hvernig líkamar kvenna
og karla líta út eða starfa
Kynvitund segir til um hvernig við viljum lifa og vera í okkar kyni.
Kynvitund hefur ekkert með kynfæri, líffræði eða útlit að gera,
heldur með upplifun okkar af eigin kyni. Sumt fólk er með kynvitund
í samræmi við það kyn sem það fékk úthlutað við fæðingu (þ.e. það
kyn sem gert er ráð fyrir út frá kynfærum) og kallast það að vera
sískynja. Aðrir eru með kynvitund sem samræmist ekki því kyni
sem það fékk úthlutað við fæðingu og kallast það að vera trans.
Sískynja: manneskja sem er sátt við það kyn sem hún
fékk úthlutað við fæðingu
Trans kona: er kona sem var úthlutað karlkyni við fæðingu
Trans karl: er karl sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu
Kynsegin: manneskja sem tengir hvorki við að vera karl
eða kona, er blanda af hvoru tveggja eða
flakkar á milli
Kynleiðrétting: læknisfræðilegt ferli sem sumt trans fólk fer í,
t.d. aðgerðir, taka inn hormón o.s.frv.
Frekari upplýsingar og aðstoð:
Samtökin ’78 – Félag hinsegin fólks á Íslandi
www.samtokin78.is
skrifstofa@samtokin78.is s. 552 7878
Opnunartími skrifstofu er alla virka daga kl. 13-16.
Einnig bendum við á upplýsingavef Samtakanna ‘78
www.otila.is fyrir frekari upplýsingar um hinsegin hugtök,
reynslusögur og hinsegin hugmyndafræði.
HVAÐ ER
Kyntjáning segir til um hvernig við tjáum kyn okkar út á við, svo sem
hvernig við klæðum okkur, berum okkur, tölum, klippum hárið okkar
og hvernig almennt fas okkar er. Frá blautu barnsbeini er okkur kennt
hvernig fólk eigi að vera út frá kyni og er það iðulega tengt við
staðalmyndir kynjanna.
Karllæg kyntjáning: er í samræmi við ríkjandi hugmyndir um
hvernig karlar eiga að tjá kyn sitt
Kvenlæg kyntjáning: er í samræmi við ríkjandi hugmyndir um
hvernig konur eiga að tjá kyn sitt
Óræð eða ódæmigerð kyntjáning:
er á einhvern hátt á skjön við ríkjandi hugmyndir
um hvernig fólk eigi að tjá sig út frá kyni
HVAÐ ER KYNHNEIGÐ? HVAÐ ER KYNVITUND?
HVAÐ ER KYNTJÁNING?HVAÐ ERU KYNEINKENNI?
M
yndskreyting: H
insegin félagsm
iðstöðin