Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Blaðsíða 17
Miðar hægt
ILGA-Europe, samband hinsegin
fólks í Evrópu og Mið-Asíu, gefur út
Regnbogakort á ári hverju. Á bakvið
kortið liggur mikil greiningarvinna við að
greina réttarstöðu hinsegin fólks í hverju
landi beggja álfanna. Samtökin ’78, Trans
Ísland og Intersex Ísland aðstoða ILGA-
Europe við gagnaöflun íslenska kaflans,
en samhliða kortinu er gefin út ítarleg
skýrsla um stöðuna, hvað megi betur
fara og hvert ætti að stefna.
Hvar stöndum við nú?
Regnbogakortið er uppfært í maí ár
hvert. Í maí 2021 fékk Ísland 52%, sem
þýðir að 52% af lagalegum skilyrðum
sem ILGA-Europe setur upp eru uppfyllt
á Íslandi. Árið 2017 var Ísland með
47% og því höfum við bætt við okkur
um eina prósentu á ári, sem er mun
hægari gangur en æskilegt er. Enn er
Ísland neðst á meðal Norðurlandanna
þó að munurinn hafi minnkað síðustu
ár. Sú bætta staða sem orðið hefur á
Íslandi má að flestu leyti rekja til laga
um kynrænt sjálfræði. Markmið þeirra
laga er að tryggja rétt einstaklinga
til þess að skilgreina kyn sitt og miða
þannig að því að kynvitund þeirra njóti
viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað
að standa vörð um rétt einstaklinga til
líkamlegrar friðhelgi. Því miður ná lögin
þó ekki að vernda allt intersex fólk, og því
fær Ísland ekki einkunn fyrir það atriði.
Öll atriði er hægt að sjá á heimasíðu
Regnbogakortsins, rainbow-europe.org
(á ensku) og á heimasíðu Samtakanna
’78, samtokin78.is (á íslensku).
Stefnum fram á við
Það er nóg eftir í hinsegin baráttunni
og möguleikar til umbóta margir. Hér
skulum við þó aðeins skoða þau atriði
sem Regnbogakort ILGA-Europe tekur
á og hver staðan í þeim málum er á
Texti: Daníel E. Arnarsson, hann, 31 árs
Íslandi. Listinn er alls ekki tæmandi en
Samtökin ’78 vinna nú að skýrslu þar sem
Regnbogakortið allt er greint með tilliti
til þess sem mögulegt er að bæta á allra
næstu misserum.
Stjórnarskrá Íslands
Þessi punktur snýr að mismununarkafla
stjórnarskrár. Til að uppfylla skilyrði ILGA-
Europe þá þarf að uppfylla að minnsta
kosti eitt eftirfarandi atriða:
- Að í stjórnarskrá sé grein gegn
mismunun þar sem sérstaklega er
tekið fram að ekki megi mismuna á
grundvelli kynhneigðar, kynvitundar eða
kyneinkenna.
- Að stjórnarskrá innihaldi almenna
eða tvíræða grein gegn mismunun,
en skilningur greinarinnar er sá að
mismunun vegna kynhneigðar,
kynvitundar eða kyneinkenna er bönnuð
með greininni. Þetta verður að rökstyðja
t.d. með gögnum úr undirbúningsvinnu
stjórnarskrár, löggjafarsögu,
lögskýringargögnum, með greinargerð
eða dómaframkvæmd.
- Að stjórnarskráin banni óbeint
mismunun vegna kynhneigðar,
kynvitundar eða kyneinkenna, t.d. með
því að lýsa yfir að Mannréttindasáttmáli
Evrópu sé hluti af stjórnarskránni eða
hafi aðra stjórnskipulega stöðu (t.d. með
yfirlýsingum stjórnvalda).
Á Íslandi eru teknar fyrir nokkrar
mismununarbreytur en engin þeirra snýr
að kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum
eða kyntjáningu. Eins er engin tvíræð
grein gegn mismunun sem hægt er að
rökstyðja með lögskýringargögnum,
að t.d. 65. gr. stjórnarskrárinnar skuli
ná yfir mismununarbreytur er tengjast
hinseginleikanum þar sem upptalning
á mismununarbreytum er skýr, þ.e.:
„… kynferðis, trúarbragða, skoðana,
þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar,
efnahags, ætternis og stöðu að öðru
leyti.“
Meðferð gegn hinseginleika
(conversion therapy)
Meðferð við hinseginleika (e. conversion
therapy) á sér nokkrar birtingarmyndir
en þær tengjast því að hinsegin fólk er
bælt eða því haldið niðri, jafnvel pyntað
eða beitt ofbeldi í þeim tilgangi að það
„hætti að vera hinsegin“. Þekktasta
dæmið um þetta er „afhommun“ Gunnars
í Krossinum sem bæði hann og Snorri í
Betel töluðu reglulega um eða vísuðu til
upp úr aldamótum.
Skilyrði ILGA-Europe til að uppfylla þetta
atriði nær til löggjafar og/eða stefnu
sem bannar meðferð sem byggir á þeirri
forsendu að kynhneigð sé geðröskun
eða annars konar röskun sem hægt sé að
lækna eða fjarlægja.
Á Íslandi eru engin lög sem fjalla beint
um þetta atriði. Þó má færa rök fyrir því
að hægt væri að gera lagabreytingu á
læknalögum, nr. 53/1988, en hættan
er sú að þau verði þá óþarflega sértæk
á nákvæmlega þessu sviði. Maltneska
þingið fór þá leið að setja heildarlög
um hinsegin fólk, að intersexfólki
undanskildu. Í þessum lögum er til
dæmis bann við þessum meðferðum
mjög skýrt (Affirmation Of Sexual
Orientation, Gender Identity and Gender
Expression Act, nr. 567).
Blóðgjafir
Þessi punktur nær til þess þegar ekki
er bannað með lögum, reglugerð eða
stjórnsýsluákvæði að gefa blóð eða hvers
konar líkamsvef á grundvelli kynhneigðar
17