Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2021, Síða 34
„Ég hélt að ég vissi hver Lola væri, en hún
breyttist og myndaðist sjálf með hverri
framkomu. Hún átti að vera einhvers
konar andstæða við mig en hún varð
meiri spegilmynd eða framlenging af
sjálfri mér heldur en eitthvað annað,“ segir
Oddný og segir að í Lolu búi eitthvað
alveg sérstakt sjálfstraust. „Hún veit hvað
hún er að gera, og hún er toppurinn,
alltaf. Lola hefur líka þennan eiginleika
að geta „gert hvað sem er“. Hún hefur
gert atriði sem rista djúpt og neyða
áhorfandann til að líta inn á við, en hún
gerir líka atriði sem eru bara gerð til að
vera fyndin.“ En Lola er ekki staðnað íkon
á arinhillu heldur tekur, eins og Oddný
sjálf, stöðugum breytingum, þroskast
og þróast. „Líkt og ég hefur Lola farið í
gegnum mörg „tímabil“ útlitslega séð,
en það er eiginlega það sem mér finnst
skemmtilegast, að fólk viti ekki við hverju
það eigi að búast. Mér finnst erfitt að
lýsa henni því hún breytist stanslaust. En
grunnurinn hennar breytist aldrei; hún
er hávær, sterk og máttug. Það er ekkert
að fara stoppa hana, því hún er með
fullkomið sjálfstraust og fyrir mér er hún
bara that bitch.“
Lola hefur blásið fleirum dragdrauma
í brjóst og er hún sjálf svokölluð drag-
mamma. „Ég er svo stolt af „Haus of Heart“,
sem er hópur af mínum nánustu vinum
innan dragsenunnar. Þau eiga öll mjög
sérstakan stað í mínu hjarta. Þau gera
mig betri og leyfa mér virkilega að sýna
mínar bestu hliðar.“ Hópurinn er Oddnýju
mjög mikilvægur enda er samstaðan,
stuðningurinn og þessi tilfinning um að
tilheyra, eitthvað sem skiptir höfuðmáli.
Dragið og samfélagið/fordómar
Það var ákveðið ferli fyrir Oddnýju að
sleppa tökum á eigin fordómum fyrir því
að vera kona í drottningardragi, en þegar
hún hafi svo ákveðið að þetta væri í lagi
hafi frelsistilfinningin aukist til muna. „Um
leið og ég fór „all in“ og hélt bara áfram,
leyfði engum að segja mér annað, vegna
þess að á þessum tíma hafði sjálfur RuPaul
sagt að konur ættu ekki að vera í dragi,
þá fór réttlætiskenndin mín í botn og ég
talaði á móti þessum ummælum í öðru
show-inu mínu.“
Oddný segir að fordómarnir séu því miður
víðs vegar og fólk í dragi, hvort sem um
ræðir konur, karla, kvár og/eða trans, mæti
fordómum í samfélaginu. Sjálf hefur hún
misst af tækifærum, sýningum, viðtölum
og fleiru sem henni hefur boðist þegar
hún er Lola „en þegar kom að því sáu þau
auðvitað að ég er stelpa svo það var tekið
til baka“. Oddný hefur þó ekki látið þetta
stoppa sig, heldur haldið ótrauð áfram og
skapað sér sín eigin tækifæri.
Hvað er það við dragið?
Það getur verið erfitt, sérstaklega fyrir
hinsegin fólk og fólk sem tilheyrir
jaðarhópum, að finna öryggi í sjálfum sér.
Oddný þekkir þetta sjálf og hefur t.a.m.
átt erfitt með að tala fyrir framan aðra.
Dragið gefur henni frelsi til að takast á við
þann veruleika.
„Ég er með rosalegan félagskvíða og hef
ekki meikað nokkurs konar framkomu,
en þegar kemur að dragi þá er ég ekki
Lola og Lola er ekki ég, og ég get aftengt
allan minn ótta í henni. Af því Lola er ekki
hrædd við neitt.“
Oddný segir að þegar hún kemur
fram sem Lola skilji hún sjálfa sig og
daglegt amstur eftir heima, grámygla
hversdagsins er hvergi nærri í
dragsenunni.
„En auðvitað er ég ennþá ég og er
náttúrulega viðstödd, en Lola veitir
áhyggjulaust frelsi.“ Frelsið er Oddnýju
mikilvægt, frelsi til að vera hún sjálf, til að
vera Lola og til að vera frjáls hvernig sem
það lítur út.
„Lola hjálpaði mér að komast yfir
samfélagslega pressu um hvernig maður
eigi að líta út, mér fór að standa mun
meira á sama um hvað fólki fyndist um
mig og mitt útlit. Nú veit ég að kvenleiki
minn er ekki endurspeglaður af útlitinu
mínu.“
Drottningardragið veitir Oddnýju
ákveðið kynleysi sem hún hefur mikla
ánægju af.
„Besti parturinn af dragi er að það veit
enginn hver ég er, það veit enginn hvort
ég sé kona eða ekki. Ég elska þegar ég
er í dragi og vinir mínir ganga framhjá
mér af því þau þekkja mig ekki. Halda
allt eins að ég sé strákur og strákarnir
geta allt eins verið stelpur, eða bæði.
Dragið fer yfir þennan þröskuld. Okkur
er alveg sama um kyn, við erum allt
hitt. Þú getur skilgreint þig hvernig
sem þú vilt en samt verið í dragi af því
drag er gjörningur, laus við kyn. Þetta
er búningur sem þú setur upp og tekur
niður óháð því hvernig þú skilgreinir
þig.“
Að lokum segist Oddný spennt fyrir
framhaldinu í dragsenunni á Íslandi.
„Ég vil sjá ennþá meiri fjölbreytni, ég
vil sjá fleiri koma inn og prófa, brjóta
reglurnar og gera þetta að sínu eigin. Ég
vil sjá þessa stóru og fallegu fjölskyldu
stækka.“
34