Morgunblaðið - 02.09.2021, Síða 56

Morgunblaðið - 02.09.2021, Síða 56
56 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. SEPTEMBER 2021 VIÐTAL Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Tjarnarbíó er hús þar sem sjálf- stæðar sviðslistir eiga aðsetur. Reynsla okkar úr kófinu hefur verið að verkefni detta inn og út og því er sveigjanleiki lykillinn. Af þeim sökum munum við hvorki gefa út formlegan bækling fyrir leikárið né vera með kortasölu. Við munum vera opið hús sem hýsir þá viðburði sem þarf að hýsa,“ segir Friðrik Friðriksson, fram- kvæmdastjóri Tjarnarbíós, um komandi starfsár. Aðspurður seg- ist hann engu að síður geta gefið innsýn í nokkur þeirra verkefna sem þegar er búið að bóka inn í húsið í vetur. „Sýningar eru hafn- ar á samtímaóperunni og verð- launasýningunni Ekkert er sorg- legra en manneskjan eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson í leik- stjórn Adolfs Smára Unnarssonar sem frumsýnd var í vor við miklar samkomutakmarkanir. Sýningar hefjast brátt á sirkussýningunni Allra veðra von eftir sviðslistahóp- inn Hringleik. Auk þess verður hér sýndur söngleikurinn Fimm ár eftir Jason Robert Brown í leik- stjórn Völu Kristínar Eiríksdóttur sem sýndur var í Hörpu síðasta vor.“ Dansinn dunar þetta haustið Fyrsta frumsýningin á nýrri sýningu verður annað kvöld á VHS krefst virðingar frá uppi- standshópnum VHS,“ segir Frið- rik, en hópinn skipa Vigdís Haf- liðadóttir, Vilhelm Neto, Hákon Örn Helgason og Stefán Ingvar Vigfússon. „Í október frumsýnum við Neind Thing – In the Garden of Everyt- hing eftir Ingu Huld Hákonardóttur sem ekki náðist að frumsýna í vor vegna kófsins. Hér er um að ræða verk sem Inga Huld semur í samvinnu við sviðs- listakonurnar Salvöru Gullbrá Þór- arinsdóttur og Védísi Kjart- ansdóttur og trommarann Ægi Sindra Bjarnason. Í verkinu er leitast við að umbreyta ástandi óreiðu og ömurleika í rými til að tengjast, dreyma, íhuga, dansa og leika. Sólóverkið Rof eftir Sveinbjörgu Þórhallsdóttur verður síðan frum- sýnt á Reykjavík Dance Festival í nóvember. Verkið verður fyrsti afrakstur dansrannsóknar sem höfundur vinnur að sem felst í því að þróa nýja aðferð í kóreógrafíu,“ segir Friðrik. Dansari verksins er Halla Þórðardóttir, tónlist semur Valgeir Sigurðsson og sjónræna umgjörð hannar Eva Signý Berger. Líkt og síðustu ár verður á aðventunni boðið upp á Jólaævintýri Þorra og Þuru úr smiðju Agnesar Wild og Sigrúnar Harðardóttur sem Sara Martí Guðmundsdóttir leikstýrir. Þetta er hugljúf saga sem minnir okkur á að kærleikurinn er sterkasta afl- ið í heiminum,“ segir Friðrik. Ljóðrænt, beinskeytt og hrátt „Í desember verður frumsýndur einleikurinn Það sem er eftir danska verðlaunaleikskáldið Peter Asmussen í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar, en María Ellingsen leikur í verkinu,“ segir Friðrik og rifjar upp að María hafi áður leikið í verkinu Enginn hittir einhvern eftir sama leikskáld í Norræna húsinu 2016. „Einleiknum má lýsa sem fallegu, miskunnarlausu og hráu verki. Það fjallar um ást, svik og eftirsjá, múrinn á milli fólk og biðina eftir því að lífið geti hafist. Þetta er verk þar sem ekkert ger- ist og allt gerist.“ Fyrsta frumsýning á nýju ári er uppfærsla sviðslistahópsins Fimbulveturs á Blóðugu kanínunni eftir Elísabetu Kristínu Jökuls- dóttur í leikstjórn Guðmundar Inga Þorvaldssonar. „Þetta mun vera ævintýra-sviðsverk um áfallastreituröskun ætlað fyrir sex leikara. Hér er á ferðinni ljóðrænt, beinskeytt og súrrealískt verk. Fíflið nefnist nýr og persónu- legur einleikur eftir Karl Ágúst Úlfsson í leikstjórn Ágústu Skúla- dóttur sem frumsýndur verður í febrúar í tilefni af 40 ára leik- afmæli höfundar. Í verkinu fer Karl Ágúst yfir feril sinn þar sem hann líkir sjálfum sér við hirðfífl eins og þau birtast í verkum Shakespeares og víðar og veltir fyrir sér því hlutverki sem hann hefur gegnt á ferli sínum sem höf- undur og flytjandi þjóðfélags- ádeilu, sem oft hefur komið við kaunin á valdhöfum í samfélaginu. Með metnaðinn að vopni Hetja nefnist grímuleikur í leik- stjórn Ágústu Skúladóttur sem leikhópurinn Skýjasmiðjan frum- sýnir í apríl. „Leikhópinn skipa Orri Huginn Ágústsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Aldís Davíðsdóttir, sem hannar heil- grímur sem notaðar eru í sýning- unni,“ segir Friðrik og rifjar upp að sami hópur hafi sett upp Hjartaspaða 2012 við góðar við- tökur. „Hetja fjallar um unglækni sem mætir fyrsta dag sinn til vinnu á spítala með miklar vænt- ingar og metnaðinn að vopni. Lífið á spítalanum reynist hins vegar flóknara en nokkur gat búist við,“ segir Friðrik og tekur fram að hér sé á ferðinni rannsóknarverkefni sem leikhópurinn vinni í sam- sköpun. „Í vor verður frumsýnt Verk 2.0 eftir Steinunni Ketilsdóttur. Þar er um að ræða þriðja verkið í röð verka sem spretta upp af rann- sóknarverkefninu Expressions, sem Steinunn leiðir í samstarfi við hóp lista- og fræðimanna. Dans- arar eru Lovísa Ósk Gunnars- dóttir, Snædís Lilja Ingadóttir og Védís Kjartansdóttir með tónlist eftir Áskel Harðarson.“ Af öðrum verkefnum starfsárs- ins nefnir Friðrik að sviðslistahóp- urinn Sómi þjóðar sé með tvö verkefni í vinnslu um áleitin sam- félagsmál sem sennilega verða frumsýnd í haust. „Svo má nefna að í október mun Þór Breiðfjörð vera með opna kynningu á söng- leik sem hann er með í smíðum. Við munum að vanda einnig hýsa að hluta eða í heild sviðslistahá- tíðir eins og UNGI sem samtökin ASSITEJ standa fyrir, Reykjavík Dance Festival og Lókal auk þess sem við hýsum vinnustofu fyrir Spindrift,“ segir Friðrik og tekur fram að í kortunum séu líka spennandi verkefni úr smiðju Rún- ars Guðbrandssonar, sem of snemmt sé að segja frá, og Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur sem senni- lega frestist til haustsins 2022 vegna anna hennar. Komin yfir erfiðasta hjallann „Við finnum það hjá gestum okkar að þeir líta á Tjarnarbíó sem spennandi viðburðahús þar sem hægt er að sækja áhugaverð- ar sýningar. Eins og venjulega verðum við með mjög fjölbreyttar sýningar, s.s. barnasýningar, sirk- ussýningar, danssýningar, leiksýn- ingar og uppistand,“ segir Friðrik og tekur fram að lærdómurinn af kófinu sé að enginn þori að gera langtímaspár. Spurður hvernig Tjarnarbíó hafi staðið af sér kófið fjárhagslega segir Friðrik að þar á bæ hafi ver- ið brugðist við með samdrætti, uppsögnum og niðurskurði. „Reykjavíkurborg, sem er helsti styrktaraðili þessa húss, kom okk- ur til bjargar með fimm milljóna króna viðbótarframlagi. Ég tel því að við séum komin yfir erfiðasta hjallann,“ segir Friðrik og gagn- rýnir að íslenska ríkið hafi ekki staðið sig gagnvart sjálfstæðum leikhópum. „Tjarnarbíó, líkt og sjálfstæðir leikhópar, er rekið sem menningarstarfsemi sem ber tak- markaða skattskyldu. Lög og reglugerðir um tekjufallsstyrki og lokunarstyrki gerðu slíkum félögum kleift að sækja í slíka styrki í byrjun þegar ljóst var að loka þyrfti öllu vegna samkomu- takmarkana og -banns. Stuttu síðar var regluverkinu breytt á þá leið að slíkir styrkir stóðu menn- ingarfélögum ekki lengur til boða heldur aðeins fyrirtækjum sem bera ótakmarkaða skattskyldu. Þar með höfðu rekstraraðilar í menningarstarfsemi engin úrræði þegar þeim var gert að loka að kröfu stjórnvalda,“ segir Friðrik og rifjar upp að í ræðu á þingi í apríl 2020 hafi fjármálaráðherra sagt að ekki væri nema eðlilegt að öllum þeim sem gert væri að loka að kröfu stjórnvalda væri bættur sá skaði. Starfsfólk staðið með húsinu „Ef við hefðum getað nýtt okkur lokunarstyrki og hlutabótaleiðina hefðum við ekki þurft að segja upp starfsfólki hússins með tilheyrandi hættu á spekileka, því Tjarnarbíó er ekki neitt án starfsfólksins. Sem betur fer hefur starfsfólkið staðið með húsinu, en það þýðir í raun að það hefur tekið á sig fjár- hagshöggið fyrir húsið,“ segir Friðrik og undirstrikar að ríkið hafi ekki staðið sig gagnvart sjálf- stæðum leikhópum. Friðrik rifjar upp að ríkið hafi sett auka 90 milljónir í Sviðs- listasjóð sumarið 2020. „En sú styrkveiting gagnaðist aðeins nýj- um verkum. Þá þegar var ljóst að það væri ekki pláss fyrir þau verk- efni í þeim sýningarrýmum sem fyrir eru og er sá vandi óleystur. Einnig er gagnrýnivert að ekkert hafi verið brugðist við vanda þeirra sem voru með sýningar í framleiðslu þegar kófið skall á,“ segir Friðrik og nefnir sem dæmi að ítrekað hafi þurft að fresta frumsýningu á Verki 2.0 eftir Steinunni frá vori 2020. „Þessi sýning hefur lent sérstaklega illa í kófinu vegna samkomutakmarkana með tilheyrandi kostnaði við að æfa verkið ítrekað upp án þess að geta sýnt,“ segir Friðrik og tekur fram að dæmin séu fleiri. Nefnir hann í því samhengi erfiða stöðu Leikhópsins Lottu sem neyðist annað árið í röð til að fresta upp- færslu á Rauðhettu, enda starf- semi hópsins að mestu rekin án styrkja. Skapandi greinar framtíðin „Sjálfstæðir sviðslistahópar eiga enga digra sjóði til að sækja í til að mæta svona áfalli,“ segir Frið- rik, sem hefur ásamt Orra Hugin Ágústssyni, formanni Sjálfstæðu leikhúsanna, veitt umsagnir um ýmis þau úrræði stjórnvalda sem kynnt hafa verið til handa atvinnu- lífinu án þess að tillit hafi verið tekið til ábendinga þeirra. „Það sem ég óttast mest í fram- haldinu er að menningin í heild lendi undir niðurskurðarhníf hjá ríkinu þegar ríkið er búið að grípa alla atvinnustarfsemina í landinu. Ég óttast að litið verði svo á að menningin sé einhver fita sem megi skera af. Það má ekki verða enda eru skapandi greinar framtíð hverrar þjóðar, því þar leynast framtíðartækifærin,“ segir Friðrik og bendir á að hann og fleiri hafi lengi bent á að sjálfstæðar sviðs- listir fá aðeins brot af þeirri köku sem veitt er til sviðslista í landinu. „Að meðaltali renna 8% af opin- beru fé, bæði frá ríki og sveitar- félögum, til sjálfstæðra sviðslista á sama tíma og 95% þeirra verka sem sýnd eru hjá sjálfstæðu sen- unni eru ný verk. Við erum yfir- leitt að fást við óþekktar stærðir og nýsköpun, en ekki vinsæla söngleiki, klassísk verk eða epísk- ar bókmenntir sem draga að áhorfendur. Auk þess sem við höf- um ekki fjárhagslegt bolmagn til að auglýsa og draga þannig að gesti í stórum stíl,“ segir Friðrik og bendir á að sjálfstæða sviðs- listasenan rúmi spennandi form- tilraunir. „Auðvitað viljum við hafa sterkt og gott Þjóðleikhús og Borgarleik- hús, en það þarf líka að hlúa að sjálfstæðu senunni og huga að því að jafna tækifærin í greininni,“ segir Friðrik og tekur fram að í aðdraganda alþingiskosninga vilji listafólk setja menningarmálin á dagskrá. „Ég veit að Bandalag íslenska listamanna var að gefa út podkast með fulltrúum stjórn- málaflokkanna. Þann 11. sept- ember munum við kalla að borðinu fulltrúa allra flokkanna til að leggja fyrir þá spurningar um stefnu flokkanna þegar kemur að menningunni. Sumir flokkar hafa þegar birt menningaráætlun sína meðan enn skortir svör hjá öðrum flokkum. Þetta langar okkur til að draga fram og eiga samtal um.“ Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Stuðningur „Sjálfstæðir sviðslistahópar eiga enga digra sjóði til að sækja í til að mæta svona áfalli,“ segir Friðrik Friðriksson framkvæmdastjóri. „Spennandi viðburðahús“ - Tjarnarbíó viðburðahús þar sem hægt er að sækja áhugaverðar sýningar - Boðið upp á barna- sýningar, sirkus, dans, leiksýningar og uppistand - Styðja þarf betur við sjálfstæða sviðslistahópa

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.