Strandapósturinn - 01.06.2019, Page 12
11
nefndarmenn tóku til starfa á árinu. Þær eru: Marta Guðrún Jó-
hannesdóttir, Svanhildur Guðmundsdóttir, Guðrún Valgerður
Haraldsdóttir og Birna Hugrún Bjarnardóttir.
Jóna Ingibjörg framkvæmdastjóri útgáfunnar hefur verið mjög
dugleg að koma blaðinu í lausasölu og séð til þess að blaðið er
sýnilegt í þeim verslunum sem það hefur verið til sölu í. Ritnefnd
lagði til að endurútgefa nokkra árganga sem voru uppseldir og
samþykkti stjórn Átthagafélagsins það. Þar með eru til fleiri söfn
með öllum eintökunum frá upphafi fyrir þá sem vilja eignast
Strandapósturinn í heild. Viljum við þakka ritnefnd og fram-
kvæmdastjóra ritnefndar þeirra störf.
Félaga fjöldinn er svipaður ár frá ári, alltaf bætast við nýir
félagar en aðrir hverfa á braut eins og gengur en auðvitað viljum
við að yngra fólk sæki í félagsskapinn og setji mark sitt á félagið.
Ein breyting varð í stjórn, Margrét Sveinbjörnsdóttir lét af
störfum gjaldkera og við því starfi tók Sigríður Hrólfsdóttir og var
Margréti á aðalfundinum þakkað fyrir sitt mikla vinnuframlag
sem gjaldkeri en hún er meðstjórnandi áfram. Þá varð breyting í
skemmtinefnd, Guðríður Pálsdóttir hætti en hún hefur verið í
stjórn í mörg ár og eru henni þökkuð öll þau miklu störf sem hún
hefur sinnt fyrir félagið, í hennar stað var kosin Sigríður Margrét
Jónsdóttir.
Strandasel var vel nýtt í sumar og mæltist vel fyrir að laga hús-
búnað og varmadælan gefur góða raun, sumarið var nú ekki beint
sólríkt. Húsnefndin hefur staðið sig vel í að halda húsinu við en í
húsnefnd eru Sigurbjörn Finnbogason formaður, Ingunn Sig-
urðardóttir og Sæmundur Gunnarsson.
Þess skal getið að öll vinna í stjórn og nefndum er unnin í sjálf-
boðavinnu og engin laun greidd. Það er mikil vinna sem liggur í
þessu starfi og aldrei nóg þakkað að það séu félagar sem hafa
hugsjón fyrir félagið.
Kór Átthagafélags Strandamanna hélt nokkra tónleika en farið
er yfir starf kórsins annars staðar í heftinu.
Loks viljum við þakka öllu því frábæra fólki sem leggur fram
vinnu og krafta til að efla starfsemi félagsins og gæða það því lífi
sem raun ber vitni.
Jón Ó. Vilhjálmsson
formaður