Strandapósturinn - 01.06.2019, Side 70
69
ótvírætt til að það hafi aðeins verið á færi fárra manna að verða
góður skutlari, því annars hefði þessa starfa ekki verið getið sér-
staklega í manntölum. Líklegt er að staða skutlarans um borð hafi
gengið næst formanninum.
Á 19. öld, eins og á öllum öldum og öllum stöðum þar sem fólk
býr, urðu til óteljandi sögur um hætti og framkomu manna, sem
fylgdu þeim ævina út, en flestar þessar litlu sögur hlutu þau örlög
að falla í gleymsku og týnast eftir að líkmennirnir höfðu lagt sein-
ustu torfuna, en á þessari reglu voru samt undantekningar. Sum-
ar sögur hafa varðveist, einkum af þeim mönnum sem skáru sig
úr á einhvern hátt, ýmist fyrir eigið sérstæði eða menn sem mörk-
uðu mikilvæg spor í sinn samtíma. Einn af þessum mönnum, sem
setti svip á samfélagið og hafði áhrif sem náðu langt út fyrir
sveitarfélagsmörkin og hans samtíma, var Gísli Sigurðsson í Bæ á
Selströnd.
Á næstu síðum verður gerð nokkur grein fyrir Gísla Sigurðs-
syni, hreppstjóra í Bæ á Selströnd, hvernig það vildi til að hann
settist að í Kaldrananeshreppi, ílengdist þar og gerðist áhrifamað-
ur í sveitinni. Gerð verður grein fyrir umsvifum Gísla á sviði jarða-
kaupa og annarra athafna og hvernig það bar til að ein grein af
ætt hans festi rætur á Víðidalsá við sunnanverðan Steingrímsfjörð
og ól þar aldur sinn í ríflega 125 ár.
II
Grímsey á Steingrímsfirði
Grímsey á Steingrímsfirði er stærsta eyjan fyrir Ströndum, og var
til forna eign Skálholtsstóls, en seld 1791 Guðmundi Guðmunds-
syni bónda á Bæ á Selströnd 1746–1832 og hefur hún alla tíð síð-
an verið í eigu Bæjarbænda. Í Jarðabók Árna Magnússonar og
Páls Vídalín er Grímsey metin á 12 hundruð og Bær á Selströnd á
24 hundruð, en árið 1840 eru Bær og Grímsey metin saman 30
hundruð og aftur 1870 er Bær metinn án Grímseyjar á 21 hund-
rað. Í tíundartöflum Kaldrananeshrepps innan Strandasýslu er
Grímsey skráð sameiginlega með Bæ til ársins 1861 en frá árinu
1861 var verðgildi Grímseyjar hvergi skráð í tíundartöflu. Frá ár-
inu 1861 leigja Bæjarmenn eyna til búsetu og fyrstur til að taka sér
þar fasta bólfestu á 19. öld var húsmaðurinn Jón Jónsson. Hvergi
er að sjá nein gögn um hvað leigjendur Grímseyjar hafa greitt í