Strandapósturinn - 01.06.2019, Qupperneq 83
82
Það er fróðlegt að kynna sér hvernig hjónin á Víðidalsá, Gísli
og Sigríður, mættu nýrri öld. Það sést á ýmsum gjörðum þeirra að
þau átta sig á því að sjálfsþurftarbúskapurinn er á hverfanda hveli
og að nýir atvinnuhættir og samfélagsgerð er í mótun, með
óstöðvandi fólksflótta úr sveitunum, svo bændur yrðu á næstu
árum og áratugum að bregðast við með nýjum aðferðum og
annars konar hugsunarhætti en áður hafði dugað.
Í framhaldinu ákveða þau að Páll sonur þeirra skuli í fyllingu
tímans erfa jörðina með öllum gögnum og gæðum og samtímis
ákveða þau að kosta Jón son sinn til verslunarnáms í Danmörku.
Sú gjörð, að senda Jón til náms í stað þess að finna honum jörð til
að búa á, vitnar um framtíðarsýn. Þau vita að verslunarmenntun
er góð undirstöðumenntun og gæti fært viðkomandi hvort
tveggja, góða lífsafkomu og samfélagslega virðingu.25 Þau ætla
Jóni syni sínum meira en að gerast einfaldur verslunarmaður, því
eftir Danmerkurdvölina kosta þau hann til frekara náms til
Bandaríkjanna, landsins þar sem allt var að gerast um þessar
mundir í tækni, vísindum og viðskiptum.
Þau voru metnaðarfull hjónin á Víðidalsá, ekki síður en afinn,
Gísli ríki Sigurðsson frá Bæ á Selströnd.
„En eigi má sköpum renna“ segir máltækið, því Jón féll frá í
Ameríku 1905/1906 og komst aldrei heim til að hefja merki ætt-
arinnar á nýjum og mikilvægum vettvangi viðskiptalífsins, eins og
honum var ætlað. Páll, sonur Gísla og Sigríðar, reis aftur á móti
25 Það er frekar líklegt að þau hafi hugsað sér Hólmavík sem framtíðarstarfsvettvang
fyrir Jón, en einmitt um þessar mundir var Hólmavík að verða til og búið að leggja
grunninn að verðandi kaupfélagi Steingrímsfjarðar. Sjá hér á eftir: https://is.
wikipedia.org/wiki/H%C3%B3lmav%C3%ADk; Áður en Hólmavíkurþorp varð
til var um tíma þurrabúðarlóð í vestanverðri Hólmavíkinni, austan undir Höfðan-
um. Árið 1883 fluttu Sigurður snikkari og kirkjusmiður Sigurðsson og Guðrún
Jónsdóttir frá Felli í Kollafirði að Kálfanesi og bjuggu þar eitt ár. Síðan fluttu þau
niður í víkina og byggðu sér nýjan bæ töluvert utar. Sonur þeirra er skáldið Stefán
frá Hvítadal og er hann talinn fyrsti maðurinn sem fæddur er á Hólmavík. Þann 3.
janúar 1890 varð Hólmavík löggiltur verslunarstaður, en frá miðri 19. öld hafði
verið verslað um borð í skipum kaupmanna sem sigldu á Skeljavík. Þeirra á meðal
var kaupmaðurinn R. P. Riis sem byggði svo verslun á Hólmavík árið 1897, en árið
áður hafði verið byggður þar annar verslunarskúr. Verslunarfélag Steingrímsfjarð-
ar, sem var forveri Kaupfélags Steingrímsfjarðar, var svo stofnað 29. desember
1898. Um aldamótin 1900 voru byggðar fyrstu bryggjur á Hólmavík, tvær trébryggj-
ur sem hétu eftir eigendunum, Riisbryggja og Kaupfélagsbryggja. Þorpið byggðist
síðan upp í kringum útgerð, þjónustufyrirtæki og verslun.