Strandapósturinn - 01.06.2019, Page 90
89
haldið sig frá brekkunni og ekki viljað bíta grasið þar. Nálægt
miðri 20. öld var nýr ábúandi á Brúará að reisa fjárhús rétt neðan
við álfabyggðina og risti hann torf úr blettinum. Eins voru steinar
teknir úr klettaveggnum. Nóttina eftir varð fólkið á bænum vart
við hávaða og þegar út var komið morguninn eftir var það sem
búið var að hlaða af fjárhúsunum hrunið. Trúin á álagablettinn
reyndist þá svo sterk að torfinu og grjótinu var skilað í brekkuna
og klettana, eins og mögulegt var, áður en tekið var aftur til við
framkvæmdir við fjárhúsin og efnið þá sótt annað.
Fyrirmælin sem fylgja álagablettum og þær samskiptareglur
sem á að virða geta verið mjög nákvæmar. Um álagablettinn Bolla
sem er uppi í hlíðinni framan við Brunngil í Bitru er sagt að ekki
megi slá þar grasið eða rista torf. Þar mátti heldur ekki vera með
háreysti og ekki tína ber til að fara með heim, en það var í lagi að
tína upp í sig. Þar mátti heldur ekki beita kúnum, nema á sunnu-
dögum og var sú regla ávallt í heiðri höfð.
Fornmenn og gull
Á Ströndum er talsvert af sögum um álög sem hvíla á haugum,
dysjum og leiðum fornmanna og kvenna og af fjársjóðum sem
faldir eiga að vera í þeim. Slík álög eru jafnan tvenns konar, ann-
að hvort verður sá sem reynir að grafa upp fjársjóðinn vitstola eða
þá að næsta kirkja eða bær virðist standa í ljósum logum.
Undir Ennishöfða, utan við Broddadalsá í Kollafirði, er t.d. dys
eða leiði fornkappans Brodda, við samnefnda kletta. Sögur segja
að þar sé Broddi gamli grafinn með gullinu sínu og gersemum.
Munnmæli segja að stórhættulegt sé að reyna að nálgast fjársjóð-
inn og nánast dæmt til að mistakast. Förumaðurinn Tómas víð-
förli átti þó að hafa reynt að grafa eftir fjársjóðnum á seinni hluta
19. aldar og mistekist og segir sagan að hann hafi aldrei orðið
samur eftir það. Í munnmælunum kemur fram að hugsanlega
geti óspjölluð meyja sem situr þögul á gröfinni heila haustnótt
með óskírt ungbarn með sér náð fjársjóðnum, ef hún láti ekki
glepjast af neinum þeim furðum sem fyrir bera þá nótt.