Strandapósturinn - 01.06.2020, Blaðsíða 54
53
Hugum nú að Grími og lítum á hvað hann hafðist að sér til varnar. Það
er ljóst að hann átti ekki margra kosta völ, eins og að framan er sagt. Það
eina sem hann gat með góðu móti höfðað til var hve stuttur tími væri til
fardaga [ júní 1835], aðeins nokkrir mánuðir þar til honum var gert að
flytja frá Ófeigsfirði. Hann skrifaði því ,,Grímssonunum” á Munaðarnesi,
sem hann hafði leigt jörðina af svo hljóðandi bréf:
‚,Ég undirskrifaður held að þér hafi yfirsést í því að gefa öðrum
fullmakt [umboð] til að byggja mér út [segja mér upp leigunni] á ekki
neitt af þinni eign, sem þar hefi búið 27 ár, og hef goldið eftir jörðina
eftir okkar fyrstu skilmálum; og byggja mér nú út eftir sumarmál
og láta setja mér þunga kosti á hinn partinn. Hvort Guðmundur
eða aðrir gjöra það antek [samþykki] ég ekki að svo komnu, hvorki
kostina né útbygginguna, því ég held það sé ekki eftir lögum. Það
verða aðrir en þið að gjöra úr þessu. Ég uppástend alla jörðina eins
og ég haft hefi með sömu skilmálum nú þetta ár fyrst og þið hafið
verið ánægðir með til þessa, eins og þú lofaðir mér að byggja mér
ekki út við okkar síðustu samninga. Ég vona það besta af þinni hendi.
Þinn vin.
Ófeigsfirði 11. maí 1835.
Grímur Alexíusson
Til: mr. Jóns Grímssonar og mr. Guðmundar Grímssonar á Munaðarnesi.“
Tíminn leið og ekkert virtist geta komið í veg fyrir að Grímur yrði dæmdur
af jörðinni.
Þann 25. maí 1835 var sýslumaðurinn í Strandasýslu kominn norður í
Árneshrepp og hélt Manntalsþing í Árnesi. Það undarlega gerðist að þar
var máli Óla á hendur Grími ekki hreift, sem bendir ótvírætt til að þeir
bændurnir hafi verið búnir að semja um jarðaskiptin sín á milli. Þrjóta þar
með skriflegar heimildir um deilu þeirra bændanna. Það liggur hinsvegar
fyrir að Grímur skrapp um haustið yfir Ófeigsfjarðarheiði og vestur að
Ísafjarðardjúpi. Sú ferð varð örlagarík eins og nú mun koma í ljós.
-------