Strandapósturinn - 01.06.2020, Blaðsíða 57
56
Biður þá einhver Guð að hjálpa sér og spyr, hvort Óli sé ekki kominn enn.
Býst þá Jón að leita hans, eins og fyrr er sagt, en mætir húsbónda sínum í
bæjardyrunum. Óli var mjög þrekaður og illa útleikinn, en ekki vildi hann
segja, hvað sig hafði tafið. Næsta dag lætur hann flytja sig út á Kúvíkur til
Jóns Salomonsens faktors, vinar síns. Tekur Óli þar þunga sótt og fótar-
mein og lá lengi vetrar. Varð hann þó loks heill, en á fæti hans var jafnan
sár er aldrei gréri. Varð þetta sár banamein hans.
En ekki leið á löngu, áður en menn urðu þess varir, að bera tók á reim-
leikum í Reykjarfirði. Fóru menn nú að sjá strák á stjái, í mórauðum fötum,
með hattkúf á haus, og fylgdi hann Óla eða ættingjum hans. Gerði draugsi
ýmsar smá glettur. Hefir hann alltaf þótt meinlítill, en hrekkjóttur og alls
ekki ótuktarlegur í sér. Er hann frekar vinsæll þar vestra, eftir því sem
draugar geta verið.
Grímur fluttist til Seljaness, sem er næsti bær við Ófeigsfjörð, en Óli
til Ófeigsfjarðar um vorið. Vegnaði Óla þar vel, og bjó hann þar og var vel
metinn og gildur bóndi. Í fyrstu var fátt með þeim Grími, eins og eðlilegt
var, en er fram liðu stundir, urðu þeir aldavinir, enda var margt vel um
þá báða. En eftir því, sem vinátta þeirra varð meiri, fór draugsi að gerast
Grími fylgispakari. Þau urðu ævilok Gríms, að hann varð bráðkvaddur á
hestbaki milli Seljaness og Ófeigsfjarðar. Þóttust þeir, er með honum voru,
sjá drauginn skjótast að honum og taka um háls hans, en svo brá við, að
Grímur féll af baki og var þegar örendur.
Mörgum árum eftir að Óli fékk sendinguna, var hann staddur vestur á
Ísafirði og var að höndla í einhverri búð þar. En inni í búðinni var staddur
Eyjólfur prestur. Vindur hann sér að Óla og spyr hann að heiti. Segir Óli
þegar deili á sér. Þá snéri Eyjólfur sér undan og mælti lágt, en þó svo að
margir heyrðu: ‚,Ekki skal mig kynja”. Mun honum hafa litist maðurinn
vasklegur.
Fyrst var draugur þessi kallaður Reykjarfjarðar-Móri, þá Ófeigsfjarðar-
Móri, síðan Seljaness-Móri, eftir að hann tók að fylgja Grími, og loks Ing-
ólfsfjarðar-Móri, því að í Ingólfsfirði búa enn afkomendur Óla, og á draugsi
helst athvarf þar. Hefir hann gengið undir öllum þessum nöfnum allt til
þessa.
Móri er nú tekinn að dofna, en þó verður hans vart einstaka sinnum
ennþá. Eins og áður var sagt, hefir hann verið furðanlega vel liðinn vestra;