Strandapósturinn - 01.06.2020, Page 66
65
endurtekin. Oftast var eitrað þrisvar sinnum á hverju vori. Í norðan- og
norðaustanátt rak dauðan fugl inn með landi en hrafn og svartbakur átu
hann og hurfu því hræin fljótt af fjörunum. Eitrunin hafði jákvæð áhrif á
varpið og fældi vargfuglinn frá en um 1960 var öll eitrun bönnuð.
Um 20. maí var varpið í hámarki. Þá var komið með 8 kúffullar fötur
af eggjum í land. Hver fata rúmaði 60 egg eða meira og hafa þá um 500
egg verið tekin, þegar varpið stóð sem hæst. Allt að 2500 egg munu hafa
verið tekin ár hvert á þessum árum en laust fyrir 1960 var allri eggjatöku
hætt. Nýorpin egg eru mött en þegar fuglinn hefur legið á þeim í nokkra
daga og þau byrja að stropa, kemur gljái á þau og er því auðvelt að sjá,
hvort þau eru nýorpin eða ekki. Því var mjög fátítt að stropuð egg kæmu í
land. Æðareggin voru borðuð soðin og tók suðan 7 – 8 mínútur. Sérstakt
bragð er af þeim og voru þau ekki notuð í kökubakstur. Áður fyrr voru þau
geymd í ösku og líka soðin og sett í sýru en geymsluþol þeirra var lítið.
Þessi geymsluaðferð var löngu aflögð fyrir mína tíð. Eitt æðaregg vegur
um 110 grömm.
Dúntekja
Eggjatöku lauk í maílok en þá var byrjað að taka dún, smávisk úr hverju
hreiðri, þar sem kominn var mikill dúnn. Sá dúnn var betri og hreinni en
hinn, sem tekinn var úr útleiddum hreiðrum og var honum haldið sér. Í
dúntekjuna fóru átta manns, farið var á fjögurra manna fari. Lent var í
Kvörninni, ef vindur stóð af norðri og austri en í sunnan- og vestanáttum
var lent við Snoppuna. Gengið var af Snoppunni og norður Austurbakk-
ann og að Skvömp. Þegar þangað var komið, tók fólk sér smáhvíld og hélt
síðan áfram um Lundahól suður Kjöl og Vesturbakka og lauk göngunni
við bátinn. Þá var skipt liði: þrír fóru í Þernuhólma en fimm í Litlueyju og
á landleið var gengið um Dyrhólma. Farið var í 6 eða 7 göngur á hverju
sumri á þriðjudögum og föstudögum. Á þessum árum voru veðurspár
ótryggar og önn bænda mikil, þannig að lítið tóm gafst til að hlusta á þær.
Væri útlit fyrir rigningu, þegar komið var fram á mánudags- eða fimmtu-
dagskvöld, kom fyrir að farið var þá um kvöldið í dúntekjuna. Þá var oft
komið langt fram yfir miðnætti, þegar komið var í land. Við dúntekjuna var
reynt að skilja sem mest eftir af grasi og hroða, sem var í dúninum og eins
að rífa í sundur kökur en alltaf var þó rusl eftir í honum sem kom í land.