Strandapósturinn - 01.06.2020, Blaðsíða 68
67
tínd úr honum heystrá, fjaðrir og annað rusl. Besti dúnþurrkur er, þegar
á er sunnan andvari og hlýtt en sólarlaust. Í sólskini upplitast dúnninn, ef
honum er ekki snúið stöðugt, og þá féll hann í verði. Við þurrkunina náðist
mikið af ruslinu úr honum en alltaf var þó töluvert eftir.
Að þurrkun lokinni var dúninum skipt á milli bænda. Skiptin fóru
þannig fram að losað var úr mörgum pokum í stóra hrúgu og henni síðan
skipt í fjórar hrúgur. Þegar því lauk, var kastað á, sem kallað var. Það fór
þannig fram að hver aðili valdi sér einhvern smáhlut, spýtu eða eitthvað
álíka og var krakki fenginn til þess að kasta þessum hlut, einum á hverja
hrúgu. Átti sá, sem hlutinn hafði valið, þá hrúguna, sem hann lenti á. Að
þessu loknu tók hver sinn hlut heim. Ef tími gafst, var dúnninn þurrkaður
og hristur aftur og alltaf náðist rusl úr honum.
Hreinsun á dún fór í mínu ungdæmi alltaf fram að hausti. Við hana
þurfti dúngrind og hræl. Dúngrindin var trérammi 1 metri á lengd og 80
cm á hæð. Á báða enda voru boruð göt með tveggja cm bili, í þau var
þrætt snæri og það strengt eins og kostur var. Hrællinn var gerður úr
hörðum viði. Hann var um 30 cm á lengd og 10 cm breiður. Gat var gert
á hann þannig að smeygja mátti báðum höndum í það, hliðar og endar
voru rúnnaðir í mjúka egg. Hrællinn var ekki mikið notaður. Hann reif
dúninn og gerði hann lausari en vissulega flýtti hann hreinsuninni. Við
hitunina var notuð olíueldavél, tveggja hólfa. Járnplata var sett yfir eld-
hólfin og dúnninn hitaður á henni. Honum varð að snúa stöðugt til að
hann brenndist ekki. Við hitun urðu öll strá og þang stökk og molnuðu
þegar dúninum var strokið um strengi grindarinnar. Það tók sama tíma
að hita dúninn eins og að hreinsa hann. Að lokinni hreinsun var dúnninn
fjaðratíndur og þá var hann söluhæfur.
Smávegis af dún var selt til einstaklinga, þá venjulega eitt kíló en það
er hæfilegt í góða sæng. Mest af honum var selt í kaupfélagið. Verð sem
fékkst fyrir hann var mjög misjafnt frá ári til árs, frá því að vera mjög gott
til þess að hann seldist ekki. Um miðja 20. öld setti Samband Íslenskra
Samvinnufélaga á stofn dúnhreinsistöð og þá var heimahreinsun hætt.
Fornar heimildir um dún eru fátæklegar. Í Gróttusöng segir „sofi hann á
dúni“ og í Guðmundarsögu Arasonar er getið dúnklæða, þegar Aron Hjör-
leifsson kom að Svínafelli á flótta eftir Grímseyjarför Sighvats og Sturlu
1222 (Biskupasögur I bls. 537). Í Sturlungu er getið dúnklæða eftir Flugu-