Strandapósturinn - 01.06.2020, Page 72
71
kom, var sátunum raðað í hestakerru og þær fluttar upp á Fjárhústún,
leystar þar í sundur og heyinu dreift til þerris. Þá var róið út sömu leið og
næsti farmur sóttur. Oft gerði norðan innlögn er leið á daginn. Þá varð að
hætta flutningum og bíða næsta logndags og varð sú bið stundum löng,
oft ein vika eða lengur. Á þessum árum munu um 600 sátur hafa fengist
úr Eyjunni og hólmunum. Eyjaheyið er mjög gott fóður en var eingöngu
gefið kindum. Það þurfti mikinn þurrk og tók langan tíma að þurrka það.
Eyjaheyskapurinn var mikilvægur þáttur í heyöflun Broddanesbænda og
á fyrri öldum, þegar tún voru lítil og illa ræktuð, var hann stærsti þáttur
í heyöflun bænda þar. Í Dyrhólma var heyjað og þar fengust allt að 80
sátur, þegar best lét en í þurrkatíð brann gras þar sumsstaðar og rýrði
það heyfenginn. Róið var með hólmaheyið yfir í Fúluvík. Eyjaheyskapur
lagðist af um 1960. Þá fullnægðu tún allri fóðurþörf bænda. Eftir að sláttur
hætti í eyjunni, hefur hún tekið stakkaskiptum. Þar sem áður var slétt og
greiðfært, er nú þýft og þakið sinuflókum og þúfnastykki sem áður voru
ógreiðfær, eru nú nærri ófær. Víða er orðið gróðurlítið í lautum milli þúfna.
Erfitt er orðið að finna þar æðarhreiður og verður eitthvað af dúni þar eftir
á hverju ári.
Kofnatekja
Eftir sumarmál kom lundinn að varpstöðvum sínum. Hann byrjaði fljótlega
að setjast upp og hreinsa holur sínar og hófst varpið oftast um 10. maí en
það fór þó eitthvað eftir veðurfari. Væri tíðin köld og vot, gat dregist um
viku að hann settist upp. Oftast verpir lundinn einu eggi en stundum koma
tvö egg og veltir hann þá öðru þeirra út úr holunni. Í kulda og bleytutíð
misfórst alltaf eitthvað af varpinu og 1949 þegar snjóaði fram um 10. júní
misfórst mestur hluti þess. Árið eftir var hins vegar ágætis varp. Á síðustu
öld fór varpið vaxandi og 1942 fengust úr því um 20.000 kofur en eftir
það minnkaði sókn í kofuna og var kofnatekju að mestu hætt á 7. áratug
aldarinnar.
Verkfæri við kofnatekjuna var rofjárn. Það var járnstöng, um metri á
lengd, 3 cm í þvermál og annar endi þess barinn í egg. Einnig var stundum
notað kofnaprik. Það var úr tré, 30 cm langt, oft með smá járnplötu á end-
anum. Kofnatekjan hófst snemma í ágúst. Þá voru flestar kofurnar farnar
úr hýinu, voru alstroknar sem kallað var. Aðrar voru með smá hý á stéli og