Strandapósturinn - 01.06.2020, Blaðsíða 129
128
ferja okkur aftur upp á hótel. Um kvöldið kom rútan og sótti okkur og ekið
var í um 20 mínútur þangað sem í boði var kvöldverður og þjóðdansasýn-
ing. Fjögur ungmenni dönsuðu og sungu á milli rétta og eftir matinn. Þau
fengu okkur til að taka þátt, standa upp, mynda hring og syngja. Nokkrir
úr hópnum voru svo lánsamir að vera boðið upp í dans.
Það tók allan fimmtudaginn 19. september að aka á milli Krakár og
Berlínar um 600 km leið. Lagt var af stað kl. 9:00 og komið til Berlínar
kl. 18:00. Við vorum komin með tvo bílstjóra því rútan átti að fara aftur
til baka um kvöldið. Stansað var tvisvar á leiðinni, fyrst í hádeginu í um
40 mínútur og aftur um kl. 14:30 en það stopp varð lengra en til stóð.
Aðeins eitt kvennasalerni og hæg afgreiðsla í veitingasölunni hafði áhrif á
tímann. Emil hafði verið frekar þögull í upphafi en tók nú að rekja söguna
um sundrung og sameiningu í Evrópu í gegnum tíðina og svo kom Jónas
aðeins við sögu eins og oftar. Loks lauk þessari löngu ökuferð og komið var
á Hótel Crowne Plaza þar sem gista átti tvær síðustu nætur ferðarinnar.
Föstudaginn 20. september ætluðum við að skoða Berlín. Á nýjum stað
er alltaf byrjað á skoðunarferð um borgina og að þessu sinni átti henni að
ljúka með gönguferð um gamla bæinn, Mitte. Við mættum stundvíslega,
komin með nýjan bílstjóra, pólskan Tómaz, sem rataði ekki í Berlín að
sögn Emils. Byrjað var í nágrenninu, þar voru skoðaðar gamlar kirkjurústir,
rústir kirkju sem var sprengd 1943, en látin standa óbreytt eftir stríð og ný
byggð við hliðina. Reyndar eru tvær byggingar sitt til hvorrar hliðar, sem
nefndar eru púðurdósin og varaliturinn, er önnur lág og digur en hin há
og mjó. Þegar Tómaz og Emil voru búnir að koma sér saman um stefnuna
var haldið að Brandenborgarhliðinu. Þar var farið úr rútunni og fengum
við að skoða okkur um í hálftíma. Meðal annars var farið að minnisreit um
Helförina, sem opnaður var 10. maí 2005 til minningar um þær milljónir
Gyðinga sem myrtar voru í Evrópu. Minnisvarðinn samanstendur af 2711
steinsteypustöplum og er ansi magnaður. Þegar stíga átti upp í rútuna var
hún á bak og burt og búið að loka götunni. Það hafði alveg gleymst að
þennan dag voru skiplögð ein stærstu mótmæli sögunnar sem um fjórar
milljónir manna í 185 löndum tóku þátt í og kröfðust aðgerða vegna loft-
lagsbreytinga. Setti þetta mark sitt á ferð okkar þennan dag. Loks tókst að
finna rútuna og ringlaðan bílstjórann, sem gerði sitt besta til að ráða fram
úr þessu. Við gátum því haldið að múrnum og skoðuðum þar minnismerki