Bændablaðið - 07.10.2021, Page 27
Bændablaðið | Fimmtudagur 7. október 2021 27
hefur hingað til séð við öllum okkar
tilraunum. Hefur tekið sér stöðu sem
eins konar „varðkind“ og sefur nú
fyrir utan gluggann hjá okkur.
Annars hef ég nýtt sumarið í
atferlisrannsóknir. Helstu niður-
stöður eru þær að sauðfé sé almennt
mjög greint en taugaveiklun hái því.
Taugaboðin virðast berast með svip-
uðum hætti og í Brynjari Níelssyni,
segir Fanney hlæjandi og heldur
áfram að skýra út nafnið á Hörpu.
„Já, Harpa, eða Rökkurharpa
eins og hún heitir fullu nafni, er
nefnd eftir vinum okkar í Hólum,
systkinunum Rökkva Hljómi og
Hörpu Rún. Rökkurharpa er nefni-
lega undan hrúti frá Rökkva, sem er
af hinu fræga Sokkukyni.
Með okkur Hörpu tókst vin-
skapur eftir að ég fékk ljóðabókina
hennar, Eddu, í jólagjöf. Ég sá það
fljótt að ég þyrfti að kynnast henni
ef ég gæti. Þetta leiddi ýmislegt
af sér, svo sem yfirlestur hennar á
mínu handriti og öfugt. Við stefn-
um nefnilega báðar á sund í jóla-
bókaflóðinu núna, ég með bókina
mína „Fríríkið“ og hún með sína,
„Kynslóð“. Báðar sögur eru skrif-
aðar af konum í sveit um fólk í sveit
sem ég held að sé ágætis viðbót við
sagna- og rithöfundaflóruna. Svo
skellum við bara á okkur kútunum
og vonum að við drukknum ekki.“
Fríríkið er ný bók
– Þú ert að fara að gefa út þína fyrstu
bók, „Fríríkið“, en hvað kemur til og
hvers konar bók verður þetta?
„Við Ragnar Aðalsteinsson
sátum oft saman og ræddum sam-
eiginleg áhugamál. Þar voru þjóð-
lendumálin gjarnan efst á baugi en
stundum réttarheimspeki. Ég hafði
nefnilega verið upptekin af einni
ákveðinni kenningu; kenningu rétt-
arheimspekingsins John Rawls um
„fávísisfeldinn“, en hann er þeim
töfrum gæddur að undir honum
missir einstaklingurinn sjálfsvitund-
ina. Hann hefur þar með enga vit-
neskju um kyn sitt, kynferði, aldur,
stétt, stöðu eða nokkuð annað sem
snýr að honum persónulega. Hann
hefur aðeins þekkingu á virkni,
þörfum og grunnuppbyggingu sam-
félagsins og sú þekking gerir honum
kleift að leysa verkefnið; að semja
grunnlög samfélagsins.
Þeim sem liggja undir fávísis-
feldinum er ekki aðeins ómögulegt
að taka sjálfsmiðaða ákvörðun
heldur eru þeir jafnframt neyddir
til að ígrunda stöðu allra hugsan-
legra samfélagsþegna. Því enginn
veit hver þessara samfélagsþegna
þeir eru raunverulega sjálfir, þegar
komið er undan feldinum,“ segir
Fanney.
Sveitasamfélagið
Í þessu samhengi segir Fanney að
fávísisfeldurinn hafi einn galla.
Þessi töfrafeldur sé óraunhæft fyr-
irbæri og verður því aldrei lagður
yfir raunverulegt samfélag manna.
Af þeirri staðreynd varð hún upp-
tekin og trúði einlæglega að í hug-
myndinni um fávísisfeldinn fælist
grunnur réttláts samfélags, aukinnar
siðferðisvitundar og samkenndar.
Var einhver leið að færa fávísis-
feldinn nær samfélagi manna?
Eða, það sem enn betra yrði, hinum
ómótuðu og upprennandi samfé-
lagsþegnum?
„Þetta fræ varð að sögu. Sögu sem
ég taldi að gæti átt greiðari leið að
sálum framtíðarinnar en kenningar
réttarheimspekinnar. Og svo varð til
heill heimur, sem óx jafnt og þétt
þar til ég lagði inn héraðsdómslög-
mannsréttindin mín, fór í reisu og lét
svo á það reyna hvort ég gæti skrifað.
Fríríkið er forleikur að sögunni um
Dreim, heiminn sem spannar fjórar
bækur sem hverfast um í eftirfar-
andi röð: Samfélagið – Náungann
– Náttúruna – Sjálfið.
Í Fríríkinu birtist sveitasamfélagið
sem umlék æsku mína, frelsið, fjörið
og samstaðan, ásamt skrautlegustu
sérvitringum eldhúskróksins heima
í hinni uppátækjasömu Öllömmu.
Í Fríríkinu hennar Öllömmu er allt
óvenjulegt venjulegt og leiðinlegt
skemmtilegt en þar verður einu
aldrei hnikað; baráttuviljanum til
að vernda hin raunverulegu verð-
mæti, samfélagið í Fósturdal. Enda
deginum ljósara að það sem er
ókeypis er hvergi hægt að kaupa,“
segir rithöfundurinn þegar hún lýsir
stuttlega bók sinni og út á hvað hún
mun ganga.
Lífsstílsstarf að vera rithöfundur
– Fanney er næst spurð að því hvort
hún gangi með rithöfundinn í mag-
anum?
„Það er nú það, ég taldi mig nú
bara loksins hafa fætt þennan rithöf-
und og þótti alveg nóg um að ganga
með hann í maganum í rúman ára-
tug. Þetta var orðin lengsta meðganga
sögunnar og hann sjálfsagt orðinn
þreyttur og illa morkinn, en hann
kom fyrir rest. Mér leiðist að gera
hlutina hálfpartinn. Ég var lögmað-
ur og nú mun ég reyna að gera mitt
besta til að vera rithöfundur. Þetta er
kannski fremur fáránleg fjárhagsleg
ákvörðun. En þá er nú gott að hafa
svona lífsstílsbúskap til að styðja
við þetta lífsstílsstarf að vera rit-
höfundur,“ segir hún og hlær.
Fylgir bókinni eftir
– Fanney segist með sínum
veika samfélagsmiðlamætti reyna að
fylgja bókinni eftir.
„Annars er ég nú svo heppin
að hinir frábæru útgefendur hjá
Bókabeitunni vildu gefa hana út. Svo
Bókabeitan sér um að koma henni í
bókabúðir sem og öðrum vönduðum
bókum af þeim bænum. Hver veit
svo hvað gerist. Kannski ég aki um
sveitir landsins og hrelli bændur með
einhverri söluræðu á miðjum mat-
málstíma. Eitthvað verð ég að gera til
að reyna að vera annað en vinnukona
hjá honum Steinþóri mínum.
Annars hefur þetta nú aldrei snúist
um peningaskammirnar heldur frem-
ur um að fá að deila því með öðrum
sem maður telur að geti bætt og
glatt. Eftir að hafa komist á bragðið
þá sé ég hversu stórkostlega glaða
það gerir mig að skrifa. Og á móti,
afspyrnu geðvonda og leiðinlega að
gera það ekki.“
Megum ekki hverfa
inn í rafheima
– Að lokum er Fanney spurð hvernig
hún sjái næstu árin hjá þeim Steinþóri
á Fjarkastokki og hvernig þau ætli að
þróa sig áfram í sveitinni?
„Ætli við þróumst ekki bara áfram
eins og aðrir mannapar, á hvaða leið
veit enginn. Kannski það vaxi á
okkur aukaskanki til að halda sím-
anum fyrir framan andlitin okkar. Ef
svo fer þá vona ég að við berum gæfu
til að skipta honum út fyrir góða bók.
Annars tel ég mikilvægast að
við hverfum ekki alveg inn í raf-
heima og glötum þannig næmninni
í samskiptum. Það skiptir ekki öllu
hvort þessi samskipti eru við menn
eða önnur dýr. Raunar held ég að
samskiptin við dýrin séu oft hreinni
og beinni og minni okkur enn betur
á hvaðan við komum, hvar rætur
okkar liggja.
Að temja hest er dans sem krefst
leikni og sú sama leikni og sami dans
á við í samskiptum við mannapa. Það
er mikilvægt að tapa ekki taktinum,
þurfa ekki stöðugt að telja, þá förum
við að stíga á tærnar hvert á öðru,“
segir Fanney sem er sátt og sæl í
sveitinni með Steinþóri sínum og
dýrunum þeirra. /MHH
Hér má sjá bæinn Fjarkastokk þar sem þau Steinþór og Fanney Hrund búa með sínar skepnur og sjálfþurftarbúskap.
Fanney og flottur fíll í Afríkuferð þeirra hjóna.
Mynd / Einkasafn
Steinþór og kengúrukarlinn, sekúndu áður en leikar hófust
um hylli Fanneyjar. Mynd / Einkasafn
SMIÐJUVEGI 44-46
sími 414-2700
sala@idnvelar.is
www.idnvelar.is
allt fyrir haustið....
trésmíðavélar, bílalyftur, loftpressur, bílavörur, verkfæri, dælur, súluborvélar, lyftibúnaður, rennibekkir, bandsagir
rakatæki, sogbúnaður, legupressur, slönguhjól, 3d prentarar, sagarblöð, járnsmíðavélar, suðuborð, handverkfæri
Dælur og tilbúin dælusett
Vetrarhanskar
Verkfæratöskur
Svona lítur bókarkápa nýju bókar-
innar hjá Fanneyju Hrund út en hún
segir að bókin sé einmitt tileinkuð
æskustöðvum sínum.