Skessuhorn - 01.09.2021, Blaðsíða 14
MiðVikUdAgUR 1. SEptEMbER 202114
bændur í Mófellsstaðakoti í Skorra-
dal, hjónin Jón Eiríkur Einarsson
og Fjóla benediktsson, hafa mjólk-
að kýrnar sínar í síðasta skipti og
eru hætt mjólkurframleiðslu. kvót-
inn fer á markað, hluti kúnna var
seldur til lífs. Mjólkurframleiðsla er
því ekki stunduð lengur í Skorradal,
en búin sem þar áður lögðu niður
mjólkurframleiðslu voru á grund
og Mófellsstöðum.
Í Mófellsstaðakoti er ágætt 12
kúa básafjós sem fram til þessa hef-
ur verið fullt og ríflegur mjólkur-
kvóti fyrir þann fjölda. „Við ákváð-
um að selja til lífs þær kýr sem við
hefðum gjarnan viljað hafa áfram
sjálf og fóru þær vestur í kolbeins-
staðarhrepp. Aðrar sendum við yfir
móðuna miklu,“ segir Jón bóndi í
samtali við Skessuhorn. Hann seg-
ir að áfram verði nautaeldi í áföstu
kálfafjósi en fjósinu verður fundið
nýtt hlutverk. Haldið verður áfram
með sauðféð en þau eiga um tvö
hundruð fjár.
Veltu þessu lengi
fyrir sér
Aðspurður hvort það hafi ekki
komið til greina að byggja nýtt fjós,
fremur en að hætta mjólkurfram-
leiðslu, segir Jón að þau hafi reikn-
að dæmið fram og til baka, en þetta
hafi orðið niðurstaðan. „Við ætluð-
um vissulega að byggja, datt meira
að segja í hug að byggja ferðaþjón-
ustutengt fjós þar sem gestir gætu
komið í heimsókn og fylgst með
mjöltum. En svo eftir mikla yfir-
legu, útreikninga og rekstraráætl-
anir, en ekki síst tilboð í fjósbygg-
ingu, þá varð ofan á að láta hér
staðar numið í mjólkurframleiðslu
fremur en að hefja kostnaðarsama
uppbyggingu og stofna til skulda.
Okkar niðurstaða var að kostn-
aður væri of mikill við fjósbygg-
ingu og vildum því hætta á þess-
um tímapunkti fremur en að bíða í
kannski áratug,“ segir Jón og bætir
við að Fjóla sé kennaramenntuð og
starfi hjá skólaþjónustunni í borg-
arbyggð og við grunnskóla borg-
arfjarðar. Sjálfur búist hann við að
komast frekar í nýja vinnu á þessum
aldri, en eftir kannski tíu ár eða svo.
„Ætli ég fari ekki að kíkja í kringum
mig eftir að ég verð búinn að ljúka
smalamennsku, bera skítinn á tún-
in og sinna öðrum verkum hausts-
ins,“ segir Jón. Hann bætir við að
núgildandi mjólkursöluleyfi fyr-
ir básafjósið sé til 2028 en líklega
eftir rúman áratug megi búast við
að básafjós verði ekki leyfð lengur.
Jón segir að ónýttur mjólkurkvóti
á búinu fari á markað 1. septem-
ber en nýttur kvóti þessa árs fari á
markað síðar í haust.
Verða viðbrigði
Aðspurður um hvort það verði ekki
viðbrigði að þurfa ekki að vakna
til mjalta alla morgna svarar Jón í
gamansömum tón; „Líklega vakn-
ar maður nú samt,“ en bætir svo
við; „Jú, það verða kannski dálítil
viðbrigði fyrir mig. Alveg frá unga
aldri hef ég verið bundinn í fjósi.
Móðir mín var ein að reka búið og
það kom aldrei annað til greina en
að hjálpa henni eins og kostur var.
Samhliða því reyndi maður þó að
ná sér í menntun. Ég fór á bænda-
skólann á Hvanneyri en var aldrei á
heimavistinni þar, keyrði á milli og
sinnti mjöltum kvölds og morgna
samhliða námi. Þannig hef ég í
raun frá unga aldri verið að mjólka
kýr kvölds og morgna. Viðbrigðin
verða því kannski meiri hjá mér en
öðrum sem tekið hafa við búi síðar
á lífsleiðinni.“
Nágranni Mófellsstaðakotshjóna,
kristín Jónsdóttir á Hálsum, var að
beiðni Skessuhorns í einum af síð-
ustu kvöldmjöltunum á bænum.
Fangaði stemninguna þegar þau
Fjóla og Jón mjólkuðu bestu kýrnar
sínar, sem þegar þetta fer á prent,
verða fluttar í önnur fjós. Síðustu
kýrnar í dalnum.
mm/ Ljósm. Kristín Jónsdóttir
Síðustu kýrnar í dalnum
Fjóla og Jón að ljúka mjöltum.
Jón að tengja tækin við rörmjalta-
kerfið.
Fjóla þrífur og gerir klárt fyrir mjaltir.
Fjóla er líkt og Jón maður hennar
alin upp á kúabúi; Vestra-Reyni við
Akrafjall.
Bestu kýrnar hafa hvergi nærri lokið hlutverki sínu, flytjast bara í næsta sveitar-
félag.
Heimalningarnir fá klapp og einnig mjólkina sína.Kíkt á mjólkurhússgluggann.