Skessuhorn - 12.01.2022, Blaðsíða 12
MIÐVIKUDAGUR 12. JANÚAR 202212
Þorsteinn Narfason hefur verið
ráðinn framkvæmdastjóri hjá Heil-
brigðiseftirliti Vesturlands. Þor-
steinn tók fyrst við starfinu í sept-
ember 2020 eftir að Helgi Helga-
son hætti störfum en fékk fastráðn-
ingu nú um áramótin. Þorsteinn
er líffræðingur að mennt auk þess
sem hann hefur lokið meistara-
námi í umhverfisfræði frá Háskóla
Íslands. Hann býr á Álftanesi og á
fjögur börn auk stjúpdóttur. „Svo
er ég hestamaður,“ segir Þorsteinn
þegar blaðamaður Skessuhorns
settist niður með honum í liðinni
viku. „Það skemmtilega við þenn-
an vinnustað er að hér erum við öll
hestamenn,“ heldur hann áfram.
En hjá Heilbrigðiseftirliti Vestur-
lands starfa auk Þorsteins þau Ása
Hólmarsdóttir líffræðingur og Árni
Gunnarsson næringarfræðingur.
Starfað við heilbrigðis-
eftirlit í 30 ár
Þorsteinn ólst upp í Reykjavík en
fór í sveit sem unglingur og leið
alltaf vel í sveitinni. „Þetta var góð-
ur tími í lífinu og mér þótti alltaf
gaman að vinna og þegar búið var
að sinna öllum þessum hefðbundnu
störfum fann ég mér eitthvað annað
að gera, til dæmis að laga girðingar
eða skera niður njóla sem ég henti
upp á kerru, það var nú svona til
að fá að taka í traktorinn lengur,“
segir Þorsteinn og hlær. „Sveita-
maðurinn hefur alltaf blundað í
mér og því er rosalega gott að vera
kominn hingað á Vesturland, að-
eins nær sveitinni,“ bætir hann
við. Þorsteinn hefur starfað fyr-
ir heilbrigðiseftirlit í 30 ár á þessu
ári en hann byrjaði hjá Heilbrigð-
iseftirliti Reykjavíkur eftir útskrift
úr háskóla. Þar vann hann í nokk-
ur ár áður en hann flutti sig yfir
til Heilbrigðis eftirlits Kjósarsvæð-
is þar sem hann var umhverfisfull-
trúi í eitt ár áður en hann sótti um
stöðu framkvæmdastjóra sem losn-
aði. „Ég fékk það starf og byrjaði
því mjög ungur að starfa sem fram-
kvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits,“
segir Þorsteinn. Hann vann í tæp
25 ár sem framkvæmdastjóri á Kjós-
arsvæðinu eða þar til ljóst var að
stofnunin yrði lögð niður og sam-
einuð öðrum svæðum. „Mosfells-
bær og Seltjarnarnes sameinuðust
Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar,
Garðabæjar og Kópavogs í byrjun
þessa árs en Kjósarhreppur færð-
ist undir Heilbrigðiseftirlit Vestur-
lands svo ég fæ að hafa eftirlit með
honum áfram,“ segir Þorsteinn.
Hlutverk
heilbrigðiseftirlits
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands
þjónar ellefu sveitarfélögum og
spannar eftirlitssvæðið allt Vestur-
land, frá Gilsfirði og að mörkum
Reykjavíkur. En hvað gerir heil-
brigðiseftirlitið? „Starf heilbrigð-
isfulltrúa sem slíkt er í grunninn
að sinna þeim verkefnum sem Al-
þingi setur fyrir. Heilbrigðisnefnd
Vesturlands fer með hið form-
lega vald en starfsmenn eftirlits-
ins vinna í umboði hennar. Ver-
kefnin okkar verða svo til í lög-
um, reglugerðum og samþykktum
sveitarfélaga. Heilbrigðisfulltrú-
ar rýna einnig skipulagsuppdrætti
og veita umsagnir til lögreglu og
sýslumanns um leyfi sem þessir að-
ilar veita. Þá reynum við að fylgjast
með nýrri löggjöf í smíðum og gef-
um okkar álit þegar við á. Í grund-
vallaratriðum á heilbrigðiseftirlitið
að sinna verkefnum samkvæmt fjór-
um lagabálkum; lögum um holl-
ustuhætti og mengunarvarnir, lög-
um um matvæli, lögum um veitinga
og gististaði og lögum um tóbaks-
varnir. Svo er heilbrigðiseftirlitinu
úthlutað verkefnum í öðrum lög-
um eins og lögum um meðhöndl-
un úrgangs. Þetta er fjölbreytt svið
en til dæmis höfum við eftirlit með
framleiðslu, dreifingu, flutningi
og merkingu matvæla og fylgju-
mst með að öryggi sé fullnægt þar
sem almenningur sækir þjónustu.
Það er t.d. gert með því að hafa eft-
irlit með öryggi leiktækja á leikvöll-
um, með því að skoða m.a. heil-
næmi baðvatns á sundstöðum og í
skólahúsnæði er m.a. kannað hvort
húsnæði sé öruggt fyrir börn. Þá má
nefna að almenningur getur leit-
að til heilbrigðiseftirlits ef það telur
sig búa við heilsuspillandi aðstæður.
Til viðbótar þessu höfum við eft-
irlit með vatnsbólum sem þjóna að
lágmarki 20 húsum, eða 50 manns.
Þegar vatnsból eru tekin út veit-
um við rekstaraðilum upplýsingar
um hvað betur megi fara í byggingu
þeirra. Það sem oftast spillir vatns-
bólum er að yfirborðsvatn kemst í
vatnsbólið,“ útskýrir Þorsteinn.
„Við fylgjumst líka með meng-
andi starfsemi eins og verksmiðjum
og verkstæðum auk þess sem við
höfum eftirlit með stöðum þar sem
starfsemi er blönduð, þ.e. að hluta
til mengandi, eins og á sjúkrahús-
um. Þar þarf að tryggja að farið
sé með öll efni og úrgang eins og
lög og reglur gera ráð fyrir. Heil-
brigðiseftirlitið getur haft aðkomu
vegna slæmrar umgengni á lóðum,
svo sem ef fjarlægja þarf bílhræ og
gera þarf kröfu um bætta umgengni
á lóðum. Til viðbótar við formlegt
eftirlit þá hafa heilbrigðisfulltrú-
ar skyldur um að fræða almenning
og rekstaraðila á sínu sviði,“ útskýr-
ir Þorsteinn og bætir við að fyrst
og fremst sé hlutverk Heilbrigðis-
eftirlitsins að vera með fyrirbyggj-
andi eftirlit til að bæta lýðheilsu og
að umhverfi sé ekki spillt. „Fólk
heldur oft að okkar starf tengist
heilbrigðiskerfinu og að við séum
með eftirlit með heilsu fólks en það
er rangt. Við höfum það hlutverk að
huga að heilsu umhverfisins svo það
ógni ekki heilsu almennings.“
Þjónustustofnun
Spurður hvernig venjulegur vinnu-
dagur framkvæmdastjóra Heil-
brigðiseftirlits Vesturlands er hlær
Þorsteinn og segir ekkert vera sem
heitir venjulegur vinnudagur hjá
honum. „Þeir eru bara allir allskon-
ar og maður veit oft ekkert hvernig
dagurinn verður þegar maður mæt-
ir til vinnu á morgnana. Stundum er
maður með eitthvað plan en fær svo
símtal sem breytir því öllu,“ svarar
Þorsteinn. „Ég kem í raun að allri
starfsemi Heilbrigðiseftirlits Vest-
urlands auk þess sem ég hef yfir-
umsjón með öllu hér á skrifstof-
unni. Skemmtilegast þykir mér að
fara út og hitta fólkið og sjá hvernig
hlutirnir eru á hverjum stað, stjórn-
sýslan getur hins vegar tekið mik-
inn tíma og því fer ég sjaldnar út
en ég myndi kjósa. Hjá stofnuninni
eru nú þrír starfsmenn sem að mati
Þorsteins er of lítið miðað við um-
fang eftirlitssvæðisins en hann seg-
ir að leyfi sé komið fyrir því að ráða
inn fjórða starfsmanninn á miðju
ári. „Við erum með yfir þúsund eft-
irlitsskylda staði á mjög stóru svæði.
Það fer mikill tími í akstur og til
dæmis þegar farið er í eftirlit á Snæ-
fellsnes eða Dalabyggð eru vinnu-
dagarnir ansi langir,“ segir Þor-
steinn. „Það jákvæða er að flestir
vilja fá eftirlit og vilja hafa hlutina
í lagi.“
Spurður um viðhorf til eftirlits-
ins hjá fyrirtækjum segir Þorsteinn
að í langflestum tilfellum sé heil-
brigðisfulltrúum mjög vel tekið í
eftirliti. Heilbrigðiseftirlitið veitir
fyrirtækjum sem það hefur eftirlit
með starfsleyfi þar sem ramminn er
settur um hvaða reglum fyrirtæk-
ið á að fylgja. „Okkar hlutverk er
að leiðbeina rekstaraðilum hvern-
ig hlutirnir eiga að vera samkvæmt
starfsleyfinu en þeir sem reka fyr-
irtækin og stofnanirnar vilja hafa
hlutina í lagi og taka því leiðbein-
ingum okkar vel. Við erum að veita
lögbundna þjónustu og viljum að-
stoða og gefa ráð.
Vill láta kanna loftgæði
og mengunarástand
vatna
Heilbrigðiseftirlitið hefur fyrst og
fremst það hlutverk að vinna að
bættum lífsgæðum almennings þó
svo að vinnan fari að stærstum hluta
fram hjá rekstaraðilum. Það er gert
með því að setja kröfur um meng-
unarvarnabúnað, svo sem með því
að minnka mengun og gera um-
hverfið heilnæmara og öruggara.
„Það er ákveðinn fjöldi fólks sem
deyr árlega úr loftmengun á Íslandi,
sem mörgum þykir skrýtið þegar
umræðan er frekar í þá veru að loft-
ið hér á landi sé almennt hreint.
Þar sem loftgæði eru mæld kem-
ur samt í ljós að loftmengun mælist
yfir heilsufarsmörkum fyrir tiltek-
in efni suma daga.“ segir Þorsteinn.
„Loftmengun er ekki mæld af Heil-
brigðiseftirliti Vesturlands svo þar
eru eflaust sóknarfæri. Gott væri
líka að geta fylgst betur með meng-
un vatna, þ.m.t. strandlengjunni
sem er meðal lögbundinna verkefna
sem heilbrigðiseftirlit á að sinna.
Á Kjósarsvæðinu vorum við komin
vel á veg með kortlagningu á meng-
unarástandi vatna og strandlengj-
unnar þar sem skólpi var dælt í sjó
og ýmsar úrbætur hafa verið gerð-
ar þar. Áhersla mætti vera meiri á
þennan þátt.
Leggst vel í hann
Þorsteinn segir starfið leggjast mjög
vel í hann og að móttökurnar hafi
verið góðar á Vesturlandi. „Mér
hefur alltaf verið vel tekið og ég hef
mjög áhugasamt og hæft starfsfólk
með mér. Ég sé fram á bjartari tíma
framundan í samfélaginu og hlakka
bara til að fara víðar og hitta fólk,“
segir Þorsteinn. Spurður hvort far-
aldurinn hafi haft mikil áhrif á starf
heilbrigðiseftirlitsins segir hann svo
ekki vera. „Við höfum lögbundnum
skyldum að gegna og erum í sam-
bandi við embætti sóttvarnalæknis
þegar við á. Við gætum okkar vel og
hugum að persónulegum sóttvörn-
um auk þess sem við erum vel bólu-
sett,“ segir Þorsteinn Narfason.
„Við höldum því okkar striki þó það
sé heimsfaraldur. “ arg
Heilbrigðiseftirlitið er fyrir fólkið
Rætt við Þorsteinn Narfason framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands
Þorsteinn Narfason framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.