Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.05.2021, Page 8

Neytendablaðið - 01.05.2021, Page 8
8 Neytendablaðið // Maí 2021 síns liðs rétt eins og um hefðbundna söluskoðun væri að ræða. Kaupandi og hinn sérfróði gætu svo tekið spjall síðar og farið yfir málin. Færi svo að þeim yfirsæist báðum ákveðinn galli, sem hinn sérfróði hefði þó í ljósi þekkingar sinnar mátt verða var við, kæmi það kaupanda ekki í koll. Ástandsskýrslur Í ljósi þess hversu mikið er í húfi við fasteignakaup er merkilegt hversu lítið er um ástandsskoðanir. Slík skoðun getur leitt í ljós annmarka og galla á eigninni sem geta skipt sköpum fyrir kaupanda sem gerir þá kauptilboð upplýstur um allt það sem kann að hafa áhrif á verðmat eignarinnar. Slíkt er í raun einnig til hagsbóta fyrir seljendur sem eiga þá ekki á hættu að kaupandi haldi eftir greiðslu og að málið endi fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði og áhættu fyrir báða aðila. Aukin umræða hefur verið um mikilvægi ástandsskoðana og hefur þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson í fimmgang lagt fram þingmál sem kveður á um að ástandsskýrslur fylgi söluyf- irliti allra fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar. Björn Leví segist aðspurður finna fyrir almennum stuðningi við málið. Ástands- skýrslur myndu tryggja að allir sem koma að fasteignaviðskiptum – seljandi, kaupandi og fasteignasali – séu upplýstir um ástand húsnæðis, en í því er fólgin mikilvæg neytendavernd. Ástands- skýrslur auki þannig fyrirsjáanleika í fasteignaviðskiptum og minnki líkur á ágreiningi sem jafnvel endar fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði fyrir alla aðila. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að á árunum 2010–2017 hafi 102 mál sem varða galla að einhverju leyti farið fyrir héraðsdóm og að 15 slík mál hafi farið fyrir Hæstarétt. Í ályktuninni er einnig lagt til að ástandsskoðun sé framkvæmd af óháðum fagaðilum og að framkvæmd matsaðferða verði samræmd. Fasteignasalar fylgjandi ástandsskoðun Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir í samtali við Neytendablaðið að félagið sé jákvætt fyrir því að ástandsskoðanir verði lögfestar. Mikilvægt sé þó að ákveðin umgjörð sé í kringum verklagið. „Í dag eru öðru hverju unnar ástandsskoðanir en engar reglur eru til um framkvæmdina, svo sem hverjir megi framkvæma slíkar skoðanir og hvað ástands- skoðun eigi að innihalda ólíkt því sem þekkist t.d. í Noregi.“ Kostnaðurinn við ástandsskoðun vex mörgum í augum en Grétar segir að það mætti hugsa sér að seljandi leggi út fyrir ástandsskoðun og sá sem síðan kaupir eignina greiði helming verðsins enda gagnast skoðunin báðum. Kostnaður við slíka skoðun sé líka óverulegur sem hlutfall af fasteignaverði og geti sparað háar upphæðir því fari mál fyrir dómstóla fer kostnaður við málarekstur jafnvel umfram þær upphæðir sem deilt er um. Þá nefnir Grétar að dómsmál geti reynt mikið á fólk og haft ríkar afleiðingar. Því reyni fasteignasalar iðulega að miðla málum og halda sáttafundi með kaupanda og seljanda. Hvað varðar aðgæsluskyldu kaupanda segir Grétar að hún sé mjög rík en það sama gildi um upplýsingaskyldu seljenda. Um þetta snúist oft dómsmálin. „Ljóst er að galli þarf að vera mjög mikill þannig að hann sé viðurkenndur sem galli eða um 7–10 % af kaupverði eigna nema auðvitað að seljandi leyni göllum með sviksamlegum hætti. Þetta kallar á mjög ríka aðgæsluskyldu og síðan má velta því upp hvort þarna sé gallaþröskuldurinn orðinn of hár. Norðmenn breyttu þessu hjá sér fyrir nokkru og færðu gallaþröskuldinn frá því sem við þekkjum niður í 200.000 íslenskar krónur. Vissulega gæti það þýtt að verið sé að þrátta um smámál. Þess má þó geta að um leið var regluverk um ástandsskoðun hert mjög í Noregi og þar er vart seld eign í dag án ástandsskýrslu.“ Þrjú dómsmál vegna sömu eignar Í máli sem fór fyrir Hæstarétt árið 2016 var forsagan sú að fólk sem keypti fasteign af fyrirtæki árið 2000 hélt eft- ir hluta kaupverðs vegna ýmissa annmarka, m.a. gólfhalla. Fyrirtækið fór í mál við eigendurna og fór fram á greiðslu eftirstöðva og lauk því máli með réttarsátt. Fólkið bjó í eigninni í um áratug áður en það seldi öðrum. Sá sem keypti tók ekki eftir neinu athugaverðu og seldi eignina enn öðrum ári síðar. Sá varð aftur á móti var við hallann og hélt eftir hluta kaupverðs. Mál var höfðað til greiðslu eftirstöðva en var þeirri kröfu hafnað þar sem kaupandi hafði ekki verið upplýstur um hallann. Sá sem ekki varð hallans var (eigandi nr. 3) fór því í skaðabótamál gegn upphaflegum kaupendum og fór fram á bætur sem Hæstiréttur féllst á.  Þannig fóru þrjú mál fyrir dómstóla vegna sömu eignar á rúmum áratug og allir eigendurnir á þessum tíma drógust inn í dómsmál vegna gallans; fyrirtækið sem seldi, fyrsti kaupandi, annar kaupandi og þriðji kaupandi. Ætla má að ef ástandsskýrsla hefði fylgt kaupum hverju sinni hefði hringavitleysa sem þessi ekki átt sér stað. Ábyrgð fasteignasala Fasteignasali ber ríka ábyrgð á að upplýsingar í söluyfirliti séu réttar og þegar kemur að ástandi fasteignar ber honum að kynna sér það af eigin raun. Séu upplýsingar í söluyfirliti rangar eða ófullnægjandi getur það leitt til bótaábyrgðar fasteignasala. Skylda fasteignasala til upplýsingagjafar leysir seljanda þó ekki undan þeirri upplýsingaskyldu sem á honum hvílir.

x

Neytendablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.