Neytendablaðið - 01.05.2021, Blaðsíða 13
Neytendablaðið // Maí 2021 13
Kraftur fjöldans
fyrir dóm
- þátttaka þín er bráðnauðsynleg
Það sem í fljótu bragði kunna að virðast léttvægir hagsmunir
margra lúta gjarnan í lægra haldi fyrir miklum hagsmunum fárra.
Og hinn óskipulagði almenningur er oft og tíðum hlunnfarinn
án þess að geta rönd við reist. Neytendasamtökin eru líklega ein-
hver kraftmesti vettvangur sem völ er á til þess að sporna gegn
yfirburðastöðu valdhafa, sérhagsmunahópa og stórfyrirtækja.
Það er mikilvægur þáttur í starfsemi Neytendasamtakanna að
geta farið með fordæmisgefandi mál fyrir dómstóla. Neytenda-
samtökin hafa í gegnum tíðina af og til rekið mál fyrir dómstól-
um sem varðað hafa hagsmuni stórra hópa. Einnig eru dæmi
þess að samtökunum hafi verið stefnt.
Á fyrsta starfsári samtakanna, árið 1953, vöruðu samtökin við
þvottaefninu Hvile-Vask því rannsókn samtakanna leiddi í ljós
að efnið innihélt óhæfilega mikið af bleikiefni. Innflytjandinn
stefndi samtökunum fyrir atvinnuróg og hafði sigur fyrir sjó- og
verslunardómi. Neytendasamtökin áfrýjuðu dómnum til Hæsta-
réttar sem sneri dómnum við og sýknaði Neytendasamtökin.
Árið 1959 kærðu samtökin Osta- og smjörsöluna fyrir slælegar
merkingar og fyrir að selja smjör undir heitinu „gæðasmjör“.
Var Osta- og smjörsalan sakfelld fyrir gæðasmjörsnafngiftina,
en sýknuð af kærunni um að merkingar með upplýsingum um
framleiðanda og framleiðslustað skorti, enda engin lög eða reglur
til um slíkt á þeim tíma. Í kjölfarið setti þó ráðherra reglur af
þessu tagi.
Sama ár stefndu Neytendasamtökin heildverslun fyrir villandi
upplýsingar um peysuskyrtu sem sögð var ítölsk en var í raun
framleidd á Íslandi og úr íslenskri ull. Var heildsalanum gert að
greiða sekt. Segja má að tilveran hafi snúist frá þeim tíma, því nú
er fremur gagnrýnt að innfluttar vörur séu seldar sem íslenskar,
til dæmis „íslensku“ lopapeysurnar sem framleiddar eru í Asíu.
Ekki má gleyma ólöglegu samráði olíufélaganna sem hófst
árið 1993 og stóð til ársins 2001. Neytendasamtökin stóðu að
prófmáli sem vannst bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Í
framhaldinu sóttu Neytendasamtökin bætur fyrir þá neytendur
sem sýnt gátu fram á tjón sitt.
Enn á ný ganga Neytendasamtökin fram fyrir skjöldu og stefna
nú bönkunum eins og greint er frá á bls. 4-5. Samtökin hafa í
rúmt ár átt í viðræðum við þá um skilmála og framkvæmd lána
með breytilegum vöxtum, sem samtökin telja að standist ekki
lög. Ekki hefur umleitunin skilað árangri og því er nauðsynlegt
að láta dómstóla skera úr um ágreininginn. Neytendasamtökin
telja að í málinu birtist rótgróin misnotkun aðstöðumunar og yf-
irburðastöðu fyrirtækja gagnvart neytendum, sem er einmitt það
sem réttarbótum í neytendamálum hefur verið ætlað að bæta úr
í gegnum árin. Fyrirtæki sem búa yfir yfirburða fjárhagsstöðu og
þekkingu gera neytendum að samþykkja einhliða og ósanngjarna
skilmála og neytendur sem einstaklingar eru ekki í aðstöðu til að
bera hönd fyrir höfuð sér.
Það er grundvallaratriði að samtök neytenda hafi styrk til að
sækja mál fyrir dómstólum og geti tekið til varna þegar svo ber
undir. Sundraðir hagsmunir eru léttvægir, en sameinaðir eru þeir
kraftmikið hreyfiafl sem knýr fram jákvæðar breytingar, eins og
dæmin sanna.
Það er ákaflega mikilvægt að við sýnum samstöðu með því að
taka þátt í að sækja rétt okkar og knýja þannig fram breytingar
sem gagnast öllum neytendum. Því hvet ég þig, kæri neytandi,
til að taka þátt í að breyta lánaumhverfinu og skrá þig til leiks á
vaxtamalid.is.
Breki Karlsson
Frá formanni