Skólavarðan - 2021, Side 30

Skólavarðan - 2021, Side 30
30 SKÓLAVARÐAN HAUST 2021 VIÐTAL / Pétur Þorsteinsson með sagnagleði og tómu blaðri. Sat frammi á gangi það sem eftir var af tímanum og nagaði mig í handarbökin. Nemendur mínir í Grímsey kenndu mér meira en ég þeim. Þrátt fyrir reynsluna í Gríms- ey voru hugmyndir mínar um skólastarf enn að mestu ómótaðar, enda leit ég á mig sem bónda en ekki kennara. Kenndi samt tvo vetur á Raufarhöfn og þrjá í Lundi til að eiga fyrir salti í grautinn og líkaði það stórvel, en búskapurinn var fjarskalega óarðbært basl. Vorið 1977 ákvað ég samt að leggja kennsluna á hilluna og reyna þess í stað að sinna búinu sem þá var orðið ansi stórt. Svo kom harða vorið 1979 og ég varð heylaus með næstum 700 ær á fóðrum og flestar tvílembdar. Það var hroðaleg lífsreynsla að standa því sem næst í sporum Bjarts heitins í Sumarhúsum. Um haustið bauð oddvitinn mér skólastjórastöðuna við Núpasveitarskóla, sem ég þáði með þökkum, enda búskapurinn hruninn og draumurinn um hinn frjálsa bónda dauður. Sumarið 1980 skráði ég mig í réttindanám við Kennaraháskólann og á mér dundu endalausir kúrsar um sálfræði af öllum mögulegum og ómögulegum gerðum, sem mér fundust hver annarri voðalegri og rottusálfræðin verst. Hana hataði ég af lífs og sálar kröftum og sat um að skrópa úr fyrirlestrum en grúska þess í stað á bókasafninu hjá Kristínu Indriðadóttur á meðan verstu sálfræðihryðjurnar gengu yfir. Í einni slíkri heimsókn á bókasafnið fann ég pappakassa með ljósritum úr ýmsum áttum. Ein greinin var eftir Björn Bergsson og fjallaði um John Holt og kenningar hans. Það varð sprenging í hausnum á mér – loksins hafði ég rekist á kenninga- smið sem sagði mér eitthvað af viti um nám og kennslu. Ég tók leigubíl vestur í Bóksölu stúdenta og pantaði allar bækur eftir John Holt sem fáanlegar voru á prenti. Þann dag varð ég ástríðu- maður um uppeldismál en lagði réttindanámið jafnframt á hilluna. Fannst það hrein tímasóun með heiminn fullan af almennilegum bókum um uppeldi og heimspeki. Afskólunarmennirnir voru bestir enda þorðu þeir að ráðast á kerfið sjálft og fáránleika þess. Lauk réttindanáminu tíu árum síðar að kröfu Jónasar Pálssonar og fleiri góðra vina í KHÍ. Ég var með öðrum orðum réttindalaus fyrstu tuttugu árin sem ég kenndi og stýrði skólum. Mér líkaði vel að vera boðinn upp árlega og að sveitarfélagið gæti losnað við mig ef því svo sýndist.“  X Einhverjir eftirminnilegir samferðamenn? „Ég er slíkur gæfumaður að hafa kynnst fólki af öllum stigum þjóðfélagsins – frá íbúunum í kjallaranum, sem fæstir vilja þekkja, auk fólksins á þremur miðhæðum og þurrklofti samfélagsins. Ég gæti nefnt fáeina krimma og róna sem ég met umfram aðra menn, en sleppi því þeirra vegna. Þeir vilja sumir síður láta bendla sig við skólastjóra. Gamalt fólk í Núpasveit sagði mér sögur og ævintýri í rökkrinu áður en kveikt var á tíu línu lamp- anum. Ég lék mér barnið á gólfinu á meðan pabbi las nítjándu aldar skáldin upphátt sér til unaðsbótar. Mamma kenndi mér umburðar- lyndi og réttlætiskennd. Séra Páll á Skinnastöðum kenndi mér að tala við börn með því að tala við mig eins og vitiborið eintak en ekki óvita. Angantýr Einarsson er ógleymanlegur íslenskukennari, Bragi Kristjónsson kenndi mér í landsprófi að bera aldrei virðingu fyrir nokkrum manni vegna stólsins sem hann situr á, en eingöngu vegna góðra verka. Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur, kenndi mér að forðast leikinn „köttur og mús“ í kennslu og að mikilvægara væri að skilja einn hlut vel en marga illa. Samstarfs- fólk mitt á öllum æfiskeiðum og nemendur umfram alla aðra. Verkamenn, sjómenn, bændur, smiðir. Sturla Kristjánsson fræðslustjóri, Kristján Ármanns- son kaupfélagsstjóri og oddviti, Örn Ingi Gíslason fjöllistamaður, Sif Vígþórsdóttir, Ingvar Sigur- geirsson, Rúnar Sigþórsson, Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Magnhildur Björnsdóttir skólarit- ari á Hallormsstað, Guðrún S. Kristjánsdóttir samkennari minn á Kópaskeri. Listinn er ótæmandi. Samferðamenn eru háskólar mínir og ég er gæfumaður að hafa notið samfylgdar þeirra um lengri og skemmri tíma.“  X Koma einhver eftirminnileg viðfangsefni upp í hugann? „Fyrstu ár Grunnskólans á Kópaskeri eru vafalaust bestu og eftirminnilegustu ár æfi minnar, enda tókumst við þá í alvöru á við spurninguna um tilgang skóla- starfs. Anna Helgadóttir, Helga Björnsdóttir og Iðunn Antonsdótt- ir voru burðarásar í því ævintýri. Ekkert var sjálfgefið og skólinn var óskrifað blað. Við vorum þó sammála um að leita fyrirmynda í opna skólanum breska. Haustið 1982 var nýtt skólahús vígt á Kópaskeri; glæsileg bygging, teiknuð af dr. Magga Jónssyni. Strax var ákveðið að kaupa nýjan búnað; húsgögn, kennslutæki, allt. Mikilvægasta ákvörðunin var þó að skilja allar hefðir og steinbörn eftir í gamla skólahúsinu og flytja ekkert inn í nýja skólann nema það sem nauðsynlegt reyndist eða gagnlegt. Fyrsti veturinn, 1982 til 1983, var eftirminnilegur, enda stóð í okkur að smíða stýrikerfi sem þjónaði nýrri hugsun og nýjum aðferðum. Um miðjan vetur fórum við öll í vísindaferð til Reykjavíkur til að kynnast starfi opinna skóla. Við heimsóttum Fossvogsskóla, Vesturbæjarskóla, Æfingaskóla KHÍ og fleiri. Alls staðar urðum við vitni að frábæru skólastarfi og allir tóku okkur eins og hvítum hestum. Engu að síður yfirgáfum við borgina með hugann þrútinn af spurningum og efasemdum. Best er að ég tali eingöngu fyrir sjálfan mig, en mér fannst of áberandi að þrátt fyrir framúrskarandi kennslu var sumt af því sem ég upplifði einungis betri og mannúðlegri aðferð til að koma sama gamla grautnum ofaní nemendur. Mér fundust líka sum stýrikerfin of skrifræðis- kennd, nákvæm og íþyngjandi fyrir nemendur og kennara. Um sumarið var ég mánuð í London og heimsótti skóla, sumt voru fínir skólar í góðum borgarhverfum en aðrir fátæklegir alþýðuskólar í miðborginni. Hver og einn hafði kosti til að bera sem ég hafði ekki áður upplifað. Ég nefni tvö dæmi. Prior Weston er hverfisskóli, undir bæjarvegg Barbican Center, og skólastjórinn, Mr. Henry Pluckrose, var heimsþekktur skólamaður og skrifaði þrjúhund- ruð bækur. Það voru tvö verkefni í gangi í skólanum þegar mig bar að garði. Annars vegar þemavinna um risaeðlur. Á tröllauknu borði voru bækur um risaeðlur í hrúgum og bingjum, allt frá plastbókum sem ætlaðar voru til notkunar í baðkerjum og upp í grjóthörð fræðirit. Nemendur á öllum aldri, frá fimm ára til ellefu ára, gengu í hauginn og völdu sér lesefni við sitt hæfi. Eldri nemendur aðstoðuðu þá yngri, sem hugs- anlega höfðu valið bækur með of snúnum texta. Ég man ekki eftir því að kennarar væru áberandi og þeir voru ekki að kenna – þeir voru ráðgjafar og aðstoðarfólk. Hvorki voru borð né stólar í stofunni, hvað þá skólatafla, en púðar, mottur og dýnur meðfram öllum veggjum. Starfið var nám en ekki kennsla. Eftir að skóla Ég var svo stál- heppinn að sleppa að mestu við barnaskóla og hafði þess í stað tíma til að lesa Lestrarfé- lag Núpsveitunga upp til agna, auk bókasafns heimil- isins.

x

Skólavarðan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.