Skólavarðan - 2021, Blaðsíða 52
52 SKÓLAVARÐAN HAUST 2021
KENNARINN / Mælistikan
Skólavarðan mælir með
Kvár, kynlíf
og kventónskáld
Afþreying og stundargaman er mikilvægt að loknum löngum vinnudegi. Hér eru fáeinar
hugmyndir um dund og almenna dægrastyttingu.
Kventónskáld í karlaveldi
Útvarpsþáttaröð + systurþættir á RÚV
Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur
hefur gert tíu afar áhugaverða þætti um
kventónskáld sem fæddar voru á 19. öld.
Þessar konur nutu ekki sömu tækifæra
og karlar til að mennta sig í tónsmíðum.
Meðal tónskálda sem fjallað er um eru Clara
Schumann, Fanny Mendelssohn og Emilie
Mayer. Þá er vert að benda á systurþættina
Þögnin rofin þar sem leikin er tónlist
tónskáldanna. Þetta er gott útvarp!
Sex Education
Gamandrama á Netflix
Bresk þáttaröð sem hefur slegið í gegn um
víða veröld - og ekkert rangt við það því Sex
Education eru afar vel skrifaðir og vel leiknir
þættir. Í þáttunum er tekist á við viðkvæm
umræðuefni, svo sem fóstureyðingar,
kynvitund og drusluskömm. Framsetningin
er skemmtileg, áhugaverð og fræðandi. Þá
spillir stórleikur Gillian Anderson ekki fyrir
– hún hefur sjaldan eða aldrei verið betri.
Seinfeld
180 þættir á Netflix
Seinfeld er nú aðgengilegur á Netflix og
verður ekki annað sagt en þáttaröðin, sem
var fyrst í loftinu 1989-1998, eldist með
eindæmum vel. Það er auðvelt að detta
hvar sem er inn í þáttaröðina enda Seinfeld
einstakur fyrir þær sakir að persónurnar,
Jerry, Elaine, George og Kramer, þroskast
ekkert, læra ekki af mistökum sínum og
verða ekki betri manneskjur. „No hugging,
no learning,“ er enda viðkvæðið í Seinfeld.
Kvár
Heimildamynda-
saga eftir Elísabetu
Rún
Afar áhugaverð
myndasaga eftir
teiknarann og
myndasöguhöfundinn
Elísabetu Rún. Kvár
fjallar um kynseg-
inleika og byggir á viðtölum við sex kvár
sem segja frá reynslu sinni; það eru Regn
Sólmundur, Embla, Alda Villiljós, Viima,
Hrafnsunna og Mars. Kvár er nýyrði sem
táknar manneskju án tillits til kyns. Bókin
er merkileg fyrir þær sakir að hún er fyrsta
íslenska bókin sem fjallar um þetta efni og
auk þess fyrsta íslenska heimildamynda-
sagan.
Delluferðin
Sigrún Pálsdóttir – Forlagið
Delluferðin er fjórða
bók höfundar og
fjallar um unga konu
í kringum aldamótin
1900. Æðsti embætt-
ismaður konungs á
Íslandi boðaði til sam-
drykkju með nokkrum
félögum sínum seint
um vetur árið 1897.
Efni fundarins var
landflótta stúlka, Sig-
urlína Brandsdóttir,
og íslenskur forngripur sem þá hafði nýlega
komist í eigu Metropolitan-safnsins í New
York. Það tekur við spennandi atburðarás
og ekki skemmir fyrir fallegur stíll og texti
höfundar. Þess má geta að höfundur hlaut
Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins
2021 fyrir Delluferðina.
Malid.is
Verkfæri fyrir alla sem
nota íslenskt mál
Á málið.is er
ókeypis og
auðveldur
aðgangur að
ýmsum þeim
gagnasöfnum
um íslenskt
mál sem
Árnastofnun
hefur yfir
að ráða, um
beygingar, stafsetningu, merkingu, notkun,
orðasambönd og uppruna orða svo eitthvað
sé nefnt. Vefgáttin hefur notið gríðarlegra
vinsælda og notkun hennar fer enn hratt
vaxandi. Í tilefni fimm ára afmælis Máls-
ins verður vefgáttin uppfærð og gerð enn
aðgengilegri, auk þess sem nýtt efni bætist
við, m.a. Blöndalsorðabók, Nýyrðavefurinn
og nokkrar íslensk-norrænar orðabækur.
Einnig verður hægt að nálgast hugmyndir
að nýtingu vefgáttarinnar í verkefnum í
íslenskukennslu. Algjörlega ómissandi vefur
fyrir alla kennara landsins!