Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2017, Page 24
hreinleikann að alltaf var sofið í öllum herklæðum því að klárir
urðu menn að vera ef kallað yrði í bátana. Annað var ekki í
boði en að standa sína plikt ef menn vildu halda skipsrúmi.
Enginn kæliklefi og því síður frystir voru um borð í bátnum
og eina kælingin sem matnum stóð til boða var dvöl uppi á
stýrishúsi. Mjólkin kom úr dósum, þykk og vond. Drykkjarvatn
var af skornum skammti og þar að auki tæpast drykkjarhæft.
Vatn til þvotta var ekki á dagskrá vegna þess hversu lítið það
var. Klósett var ekkert um borð en yfirbyggður kamar á skut.
Væri á hann sest varð að hafa allan vara á í brælum svo að það
sem úr búknum datt kæmi ekki sömu leið til baka. Með öðrum
orðum varð að sæta lagi og láta skotið ríða af á réttu róli.
Vökvalosun líkamans reyndist öllu léttari og áhyggjuminni.
Þeir sem káetan hýsti létu sér nægja að brölta upp í brú,
skjóta spjótinu á milli stafs og hurðar og hleypa bununni niður
á brúarvænginn. Stafnbúar dröttuðust upp í lúkarskappann þar
sem þeir léttu á þrýstingi blöðrunnar. Oft gerðist lyktin svo
stæk á þessum losunarstöðum að undan því var ekki vikist að
úða þá hreinsiefnum og spúla síðan hressilega með sjó yfir
svæðin.
Fataþvottur var ekki á dagskrá að öðru leyti en því að þegar
vinnugallinn stóð undir sjálfur sér vegna óhreininda þá var hann
dreginn á eftir bátnum þar til mesti skíturinn var á braut. Allan
vara þurfti þó að hafa á þessari þvottaaðferð því væru gallarnir
dregnir of lengi skilaði aðeins slitur þeirra sér um borð.
Fjandans belgvettlingarnir
Næstu tvö sumur var ég í sama skiprúmi og tókst þá öllu betur
til með sjóveikina. Gleypti ég sjóveikitöflur tvo til þrjá fyrstu
dagana og slapp þá við þennan kvilla nema í verstu brælum.
Draga má þá ályktun af þessu pilluáti að trúi maður á að það
bjargi málum þá er sjóveikin ekki síður andlegur en líkamlegur
kvilli.
Eftir eina síldarvertíðina á Verði fór ég á Von TH-5 sem var
að fara á ufsaveiðar með nót vestur á Skagafjörð. Vertíð þessi
stóð aðeins í viku en þá rifum við nótina í hengla og var þar
með látið gott heita. Mér er það minnisstæðast frá þessari viku
að sjóveikin lét mig afskiptalausan enda renniblíða allan tíman
og frábær matur um borð. Afrakstur þessarar viku var 400 mál
af upsa og nokkur hundruð kíló af þorski sem kippt var inn
fyrir borðstokkinn með færum.
Vorið 1956 fór ég á línubátinn Dröfn EA frá Hrísey og var að
mestu laus við sjóveikina. Mér fannst ég í raun sleppa nokkuð
vel frá þessari vorvertíð í Hrísey minnugur þess að út fyrir
Hrólfssker komst ég ekki fyrsta sumarið mitt á Verði TH áður
en maginn mótmælti.
Fiskiríið á Dröfn EA er enn í fersku minni en ekki fékkst
bein úr sjó þrátt fyrir góðar gæftir. Fór þar saman fiskleysi og
lélegur línubúnaður en línan var svo fúin að leikur einn var að
slíta hana á milli sín. Þessi fjandans lína var með önglum sem
höfðu óþolandi ást á nýju belgvettlingum mínum. Sátu fjandans
krækjurnar fastar hver um aðra þvera í totum vettlinganna
þannig að ég var alltaf með hálfan stokkinn í fanginu. Skips-
félagarnir, þaulvanir menn með vel þæfða belgvettlinga, björg-
uðu mér fyrir horn og varð reyndin sú að ég lærði aldrei þessi
handtök.
Þar sem enga kauptryggingu var að hafa hjá útgerðinni kom
ég gjörsamlega jafn auralaus heim og þegar af stað var lagt.
Þetta var í raun fjandi bagalegt þar sem hugmyndin var að nota
afkomu vertíðarinnar í kaup á trúlofunarhringjum. Með láni frá
föður mínum bjargaðist þetta þó fyrir horn en eftir á að hyggja
tel ég þetta lán enn ógreitt.
Hundblautir í sparifötunum
Árið 1960 réði ég mig til síldveiða á Sæborgu BA-25, sem var
66 tonna stálbátur og var hugmyndin sú að afla sér meiri tekna
en vinna í landi færði mér og gekk það eftir.
Farið var á síldveiðar undir stjórn hins mikla aflamanns
Finnboga Magnússonar og ekki brást honum bogalistin frekar
en fyrri daginn. Eitthvað var ég tæpur fyrir sjóveikinni fyrstu
dagana en án þess þó að verulegur bagi væri að.
Vertíðin byrjaði þó ekki gæfulega því að í fyrsta kastinu
hrundi snurpugálginn nánast í frumeindir sínar. Ástæðan var
breyting á gálganum sem unnin var samtímis hækkun á lunn-
ingu árið áður. Ekki var um annað að ræða en að snurpa
nótina saman þó að gálginn væri á braut og dróst vírinn því yfir
lunninguna. Þessi meðferð á vírnum reyndist honum ofviða og
varð hann ónothæfur eftir meðferðina. Nýr kostaði vírinn kr.
10.000,- og þótti mikið.
Ekki var um annað að ræða en sigla inn á Siglufjörð með
galtóman bátinn og fá smíðaðan nýjan gálga. Smiðirnir stóðu
vel að verki og björguðu málum á skömmum tíma. Karlinum
fannst þó ekkert gangan og var það að vonum því að inn Siglu-
fjörðinn rann hver báturinn af öðrum drekkhlaðinn af síld.
Margt bar við yfir sumarið en minnisstæðastur er mér þó túr
sem við gerðum 60 mílur austur af landinu. Þar var báturinn
fylltur af síld og vatnaði þá upp fyrir miðja skansklæðningu.
Þegar restinni af kastinu var hvolft úr pokanum hafði einn há-
setinn stór orð um aumingjaskap skipstjórans að kippa þessum
slatta ekki inn fyrir lunninguna. Heimstímið var í fangið og
gekk sjór yfir bátinn að framan sem hann átti erfitt með að losa
sig við og komu gusur annað slagið niður í lúkar. Þegar skip-
stjórinn fyrirskipaði að létta bátinn að framan með því að moka
síldinni úr fremstu stíunum fyrir borð þá voru margir háfar á
lofti hjá þeim hásetanum sem hlaða vildi meira.
Árið 1961 tók Finnbogi Magnússon við hinu fræga skipi
Helga Helgasyni VE-343 og þar fékk ég pláss. Ekki man ég til
að sjóveikin hafi verið mér til mikilla ama á Helga en svo
sannarlega var hún undirliggjandi. Vertíðin byrjaði þó ekki vel
því við sigldum inn í hörku brælu út af Norðurlandi. Ég hafði
valið mér svefnstað í efri koju fremst í lúkarnum vegna þess
hve mjó hún var og líkleg til að halda vel að sofandi manni.
Rétt reyndist að kojan hélt vel að manni en þar sem ég hafði
ekki áður verið á svona stóru skipi þá tók ég ekki fallhæðina
með í reikninginn þegar skipið hjó á báru. Í raun fannst mér ég
vera í frjálsu falli löngu áður en skipi stöðvaðist í næsta öldu-
dal. Fallhæðin hefði nokkuð örugglega vanist en þegar dekk-
lekinn kom svo einnig til skjalanna þá fannst mér nóg komið
og flutti mig í lákoju aftast í lúkarnum.
Sæborg BA-25 var 66 tonna stálbátur.
24 – Sjómannablaðið Víkingur