Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2017, Blaðsíða 38
38 – Sjómannablaðið Víkingur
fram í fyrir um tuttugu háseta. Það voru
gerðar nokkrar tilraunir til að láta mig
hlaupa eftir kjölsvínum og togklukkum,
en þökk sé Jóni Má tókst mér að komast
hjá hrekkjunum. Svo kom sunnudagur á
sjó og hásetarnir héldu áfram tilraunum
sínum til hrekkjabragða: „Nú kemur
póstbáturinn í dag,“ sögðu þeir og ég hló
að þeim. Svo leið túrinn og það kom
annar sunnudagur og við vorum við það
að fylla skipið, nærri 300 tonn af blönd-
uðum afla, og enn héldu sumir áfram að
tala um póstbátinn. Enn hló ég að þeim
og fór í koju eftir morgunvaktina uppfull
tilhlökkunar að fara í land morguninn
eftir.
Þegar ég vaknaði um kvöldmatarleytið
og fór aftur í borðsal brá mér heldur bet-
ur. Menn voru að lesa ný dagblöð í borð-
salnum og innan um mennina sem lásu
ný blöðin, sat maður sem ég hafði aldrei
séð áður.
Getur verið að póstbáturinn sé til?
hugsaði ég en fékk svo skýringuna á
póstsendingunni. Surprise GK-4 frá
Hafnarfirði var nýkominn á miðin og
maðurinn sem ég sá hafði veikst þar um
borð á útleiðinni og þurfti að komast í
land og undir læknishendur. Um leið og
hann kom yfir til okkar sem áttum að
vera í höfn morguninn eftir, kom bunk-
inn af nýjustu dagblöðunum.
Er þetta bræla?
Allt þetta sumar gekk ljómandi vel. Í
þriðja túr losnaði ég undan þeirri hræði-
legu áþján að kallast hálfdrættingur og
fékk fullan hásetahlut. Iðulega sönglaði í
höfðinu á mér gamalt sjóaralag með text-
anum: Það gefur á bátinn við Grænland,
og vinsælasta lagið í Óskalagaþætti sjó-
manna var Monday Monday með Mamas
and Papas. Alltaf þegar ég heyri það rifj-
ast þetta sumar upp fyrir mér.
Ég vildi fá skýringu á því sem kallast
bræla á sjómannamáli og í hvert sinn
sem einhver skvetta kom inn fyrir lunn-
inguna spurði ég einhvern þeirra reynd-
ari um borð hvort nú væri komin bræla.
„Nei, nei, þetta er bara kaldaskítur,“ var
svarið og við það sat. Svo hvessti og við
lentum í erfiðleikum við að ná inn troll-
inu vegna veðurs þar sem ég var að-
stoðarmaður á afturhlera og enn spurði
ég hvort nú væri komin bræla. „Nei, nei,
þetta er bara kaldaskratti,“ var svarið og
síðan var slóað vegna veðurs.
Enn hef ég ekki fengið fullnægjandi
skýringu á orðinu bræla þrátt fyrir mörg
ár til sjós og allskyns áföll. En rúmlega
hálfri öld eftir mína fyrstu reynslu á sjó
get ég stolt sagt frá því að þótt ýmislegt
hafi gengið á hjá mér á sjómennskuferli
mínum, hefur ekkert skip farist, strandað
eða brunnið undan mér eða mínum á
meðan ég var um borð.
Jón Þorláksson RE-204 fórst átta
árum eftir að ég steig þar mín fyrstu
skref í sjómennskunni og einn maður
fórst með skipinu.
Allt óklárt. Karlarnir standa undir bobbingunum alls óvarðir, nema hvað Gunnar bátsmaður Þorbjörnsson
er með leðurhúfu á höfði sem hefði lítið haft að segja ef maðurinn á gilsinum hefði misst takið á gilsinum.