Mosfellingur - 23.08.2022, Blaðsíða 36
- Mosfellingurinn Þórir Gunnarsson36
Myndir: Ruth Örnólfsdóttir og úr einkasafni.
Þórir Gunnarsson myndlistarmaður,
einnig þekktur sem Listapúkinn,
er löngu orðin landsþekktur fyrir
skemmtilegar og líflegar myndir sem
hann málar. Hann er afkastamikill og
byrjar alla morgna á því að mála, hverfur
inn í verkið og dregur fram kjarna þeirra
sem hann málar hverju sinni.
Þórir var útnefndur bæjarlistamaður
Mosfellsbæjar í Listasal Mosfellsbæjar
árið 2021 en þessa dagana stendur yfir
sýning í salnum á verkum Þóris sem
spegla oftar en ekki fegurð hversdags-
leikans.
Þórir er fæddur á Fæðingarheimilinu í
Reykjavík 13. apríl 1978. Foreldrar hans
eru þau Vilborg Þorgeirsdóttir og Gunnar
Þórisson húsasmíðameistari. Þórir á einn
bróður, Þormar Vigni f. 1973, en hann lést
árið 2020.
Þetta var eins og lítið þorp
„Ég er Mosfellingur í húð og hár og
er mjög stoltur af því að vera það. Ég bjó
fyrstu níu ár ævi minnar í Mosfellssveit en
svo hef ég búið í Mosfellsbæ eftir það. Hér
er æðislegt að eiga heima, náttúran, góður
félagsskapur og hér þekkja allir alla.
Arnartangi var mitt hverfi, þetta var eins
og lítið þorp, það var svo mikið af krökkum.
Við Davíð, Hrafn, Játvarður og Bjarni lékum
okkur mikið saman, það voru alltaf leikir,
allan liðlangan daginn,” segir Þórir og brosir
er ég spyr hann út í æskuárin.
„Kassabíllinn minn sem afi Dói á Selfossi
og Þormar bróðir minn smíðuðu kemur
sterkt fram í æskuminningunum enda var
hann mikið notaður, ekki síst af krökkunum
í hverfinu.“
Leið vel í skólanum
„Ég gekk í Öskjuhlíðarskóla alla mína
skólagöngu og þar leið mér vel, sérstaklega
í myndlist hjá Elsu Guðmundsdóttur en
annars voru allir kennararnir frábærir.
Í skólanum fékk ég hvatningu til að
stunda íþróttir, ég byrjaði í sundi hjá Ösp-
inni sem leiddi síðan yfir í frjálsar íþróttir.
Ég keppti í mörg ár fyrir Öspina, bæði hér
heima og erlendis á alþjóðamót-
um fatlaðra.
Ég færði mig yfir í Ármann til
Stefáns Jóhannssonar þjálfara
en þar kynntist ég Árna Georgs-
syni sem var formaður frjálsíþróttardeildar
Ármanns á þessum tíma, einstaklega góður
félagi og vinur. Hjá Ármanni var ég í nokkur
ár en ég endaði frjálsíþróttaferil minn hjá
Hlyni C. Guðmundssyni í Aftureldingu, en
hlaup hef ég æft alla tíð og geri enn.“
Ekki mikið í boði til frekari náms
Eftir skólaskyldu var ekki mikið í boði
fyrir Þóri til frekari náms en hann var þrjár
annir í Iðnskólanum í Reykjavík hjá Fjölni
Ásbjörnssyni. Eftir það fékk hann sumar-
vinnu hjá vélsmiðju Sveins í Flugumýri.
Í kringum aldamótin byrjaði Þórir að
vinna á Reykjalundi í plastiðnaðarfram-
leiðslunni en RP var leiðandi í umbúða-
framleiðslu á vörum úr plasti
um langt skeið, þar starfaði
hann fram að hruni. Eftir það
fékk hann starf á Múlalundi,
Þóri líkaði mjög vel á báðum þessum
stöðum.
Allt sniðið eftir mínum þörfum
„Myndlistin hefur alla tíð skipt mig miklu
máli,“ segir Þórir og sýnir mér myndirnar
sínar. „Ég hef alltaf haft þörf fyrir að mála
og hef gert mikið af því í gegnum tíðina.
Ég mála aðallega með vatnslitum og
er alltaf að sjá eitthvað í umhverfinu sem
fangar athyglina. Stundum tek ég mynda-
vélina mína með mér og þá er ég kominn
með viðfangsefni þegar ég er kominn heim.
Ég tek myndir af byggingum, dýrum og af
mannlífinu, allt eftir því hvað hugurinn
fangar hverju sinni.
Það var eins og hvalreki fyrir mig og
kraftur er ég byrjaði á námskeiði í Mynd-
listaskólanum í Reykjavík. Þar var ég á
nokkrum námskeiðum, allt sniðið eftir
mínum þörfum og í framhaldi stundaði ég
nám við skólann í eitt ár.“
Telur sig eiga erindi í námið
Þórir hefur tvisvar sótt um nám í Lista-
háskóla Íslands en hefur ekki fengið inn-
göngu. Hann er sár og telur fötlun sína vera
ástæðu þess að hann fái ekki inni. Þórir
ætlar ekki að gefast upp og ætlar að sækja
um í þriðja sinn.
Inntökuskilyrði í myndlistarnám við
Listaháskólann miðast við að umsækj-
endur hafi lokið stúdentsprófi eða sam-
bærilegu námi. Skólanum er þó heimilt
að veita umsækjendum inngöngu hafi þeir
þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi
undirbúningur. Þórir er ekki með stúd-
entspróf en telur sig hafa bæði reynsluna
og þekkinguna sem þurfi til námsins þar
sem hann hefur starfað sem listamaður í
áraraðir.
Berst fyrir réttindum fatlaðra
„Ég bjóst alveg við því að komast ekki inn
í Listaháskólann, ég held að skólinn treysti
sér ekki til að taka á móti okkur. Þetta er
svo ósanngjarnt, það þarf að gera sérstaka
námsbraut fyrir fatlaða svo við fáum líka
tækifæri til framhaldsnáms. Samkvæmt
lögum eigum við rétt á því með viðeigandi
stuðningi.
Ég mun hvetja fleiri og fleiri fatlaða til
að sækja um, við gefumst aldrei upp, það
þarf að breyta þessu,“ segir Þórir alvarlegur
á svip.
Sýning Listapúkans
Þórir hefur haldið fjölda sýninga síð-
astliðin tíu ár, hann er hugmyndaríkur
og ötull í list sinni, verk hans eru litrík og
spegla oftar en ekki fegurð hversdagsleik-
ans. Hann er einnig þekktur fyrir fallegar
portrettmyndir.
Síðastliðið ár hefur verið Þóri viðburða-
og lærdómsríkt, hann var útnefndur
bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021
í Listasal Mosfellsbæjar. Nú stendur yfir
sýning í salnum á verkum hans sem ber
nafnið Sýning Listapúkans og verður opin
til 2. september. Þórir býður upp á litríka
og fjörlega sýningu sem skipt er upp í fjóra
þætti sem allir tengjast þó. Þetta eru dýra-
myndir, mannlýsingar og umhverfi, myndir
frá Prag og nýjar myndir.
Hljóp fyrir Ljónshjarta
Þórir hefur frá unga aldri haft gaman af
því að hlaupa, hann hljóp 10 km í Reykja-
víkurmaraþoninu 20. ágúst fyrir Ljóns-
hjarta, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem
hefur misst maka og börn þeirra, en Þórir
missti bróður sinn árið 2020.
„Það gefur mér mjög mikið að hlaupa,
það er svo gott að hreyfa sig því þá líður
mér svo vel á eftir. Ég hleyp oft bara einn en
stundum hleyp ég með vinum mínum og
það finnst mér gaman, félagsskapurinn er
nefnilega alltaf góður,“ segir Þórir og brosir
er við kveðjumst.
Þetta er svo ósanngjarnt,
það þarf að gera sérstaka
námsbraut fyrir fatlaða svo
við fáum líka tækifæri til fram-
haldsnáms.
Þórir ásamt foreldrum sínum Gunnari og Vilborgu.
MOSFELLINGURINN
Eftir Ruth Örnólfsdóttur
ruth@mosfellingur.is
Við þurfum að fá tækifæri
HIN HLIÐIN
Uppáhaldssjónvarpsþáttur?
Íþróttir og Nágrannar.
Hvar lætur þú klippa þig? Hárlínunni.
Draumaborgin? Prag.
Hvað finnst þér skemmtilegast að
gera? Að dansa, mála, hlaupa og hitta
fólk.
Besti drykkurinn? Vatn.
Ef þú mættir taka með þér leynigest
í matarboð, hver yrði fyrir valinu?
Þrándur Roth.
Fallegasti staður í Mosfellsbæ? Varmá.
Hver myndi leika þig í bíómynd?
Steindi jr.
Þórir Gunnarsson myndlistarmaður og bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2021 berst fyrir réttindum fatlaðra
múrbrjóturinn
bræðurnir þormar vignir og þórir
á fermingardaginn
listapúkinn