Morgunblaðið - 03.11.2022, Page 53
ið þátt í að aðstoða við flutninga.
Hann flutti oft á tímabili og við
grínuðust oft með það að ef hann
flytti ekki a.m.k. árlega væri
eitthvað að. Eins að hann hlyti
að hafa týnt íbúðinni sem hann
átti í einhverjum þessara flutn-
inga þegar hann var kominn
tímabundið á leigumarkaðinn! Í
einum af þessu flutningum gaf
hann okkur eldri bræðrunum,
sem þá vorum 18 og 16 ára, bar
og barstóla sem hann átti. Þessi
bar og barstólarnir voru miklir
glæsigripir úr gegnheilum pali-
sander-viði. Áttum við þennan
bar í tæp 20 ár þegar við skil-
uðum honum aftur til varðveislu
til Jónasar.
Megi minningin um Guðmund
Friðrik lifa.
Innilegar samúðarkveðjur til
Jónasar, Magnúsar Friðriks,
fjölskyldna þeirra og annarra
ástvina.
Torfi, Erlendur og
Pétur Markússynir.
Það er með djúpstæðri sorg
og söknuði sem ég kveð góðan
vin, Guðmund Friðrik Sigurðs-
son.
Ég hef þekkt Guðmund í rúm
36 ár þar sem fyrirtæki hans sá
um bókhald fyrir veitingastað-
inn minn og eftir að ég flutti til
Kanada buðust þau til að halda
því áfram.
Guðmundur var alltaf yndis-
legur maður og umhyggjusamur
gagnvart öllum og svo fullur af
lífsgleði. Ég er svo þakklát fyrir
þær dýrmætu stundir sem ég
átti með Guðmundi og fjölskyldu
hans síðastliðið sumar. Ferðin
með Guðmundi og hans stórfjöl-
skyldu til Færeyja og um Vest-
firði Íslands sem við vorum að
fara í fyrsta skipti er ógleym-
anleg, minninguna um þessa
ferð mun ég geyma sem dýr-
mætan fjársjóð í hjarta mínu.
Guðmundur elskaði golf og sner-
ist líf hans mikið um það. Það er
kannski huggun í því að vita að
hans síðasta stund var á golfvell-
inum, á hans uppáhaldsstað.
Hann reyndi að komast á alla
golfvelli sem hann vissi um. Von-
andi eru góðir golfvellirnir á
himnum.
Guðmundur elskaði og lifði
fyrir fjölskyldu sína, sorgin er
mikil hjá þeim. Ég votta mína
dýpstu samúð til sona hans, Jón-
asar og Magnúsar, barnabarna,
einnig systkina hans og annarra
aðstandenda.
Kæri Guðmundur, þín verður
sárt saknað af okkur öllum.
Hvíl í friði kæri vinur.
Þín vinkona
Anna Peggy
Friðriksdóttir.
Með Guðmundi Friðriki er
genginn góður vinur. Vinskapur
sem varði í áratugi og er því
margs að minnast; ógleymanleg-
ar golfferðir um Bretlandseyjar,
Suður-Evrópu og Flórída, auk
ótal golfhringa á okkar frábæra
Hvaleyrarvelli og víðar um land
allt. Guðmundur Friðrik var svo
sannarlega á heimavelli á Hval-
eyrinni, enda formaður klúbbs-
ins um árabil. Hann var einnig
formaður handknattleiksdeildar
Hauka á sínum tíma og mætti á
leiki þegar tími gafst til. Hann
sat einnig í stjórn GSÍ og HSÍ og
lét að sér kveða á báðum stöðum,
enda ákveðinn og fastur fyrir.
Guðmundur Friðrik missti
sína ástkæru eiginkonu, Krist-
ínu Pálsdóttur, í september
2020 og var missir hans mikill,
hún hafði verið hans stoð og
stytta í lífinu. Hann sóttist eftir
félagsskap okkar vinanna í sorg
sinni og fórum við fjölmargar
gönguferðir um Fjörðinn fagra
sem honum þótti svo vænt um,
enda borinn og barnfæddur
Gaflari.
Hans verður sárt saknað nú á
aðventunni, en á Jómfrúnni höf-
um við vinirnir hist undanfarin
ár til að efla vinskapinn og gera
okkur glaðan dag.
Aðstandendum vottum við
okkar dýpstu samúð.
Blessuð sé minning þín kæri
vinur og hvíl í friði.
Magnús Hjörleifsson,
Guðmundur Haraldsson,
Ingimar Haraldsson.
Kveðja frá Knattspyrnu-
félaginu Haukum
Í dag þegar við kveðjum góð-
an vin og félaga koma fyrstu
kynnin upp í hugann. Það var
fyrir um 50 árum að kynni okkar
hófust er Guðmundur mætti á
handboltaæfingu hjá félaginu.
Ekki fór mikið fyrir afrekum á
handboltavellinum en þeim mun
meir í störfum fyrir félagið.
Hann var kjörinn í stjórn hand-
knattleiksdeildar félagsins 1972
og sat þar nær samfellt til 1985,
þar af formaður í 10 ár og sat þá
jafnframt í aðalstjórn félagsins.
Það voru uppgangstímar í félag-
inu á þessum árum. Íþróttahúsið
við Strandgötu var tekið í notk-
un og öll aðstaða íþróttafólks
breyttist til hins betra. Góður
gangur var í handboltanum, þá
sérstaklega í kvennaboltanum.
Að lokinni setu í stjórnum fé-
lagsins tóku við störf við fjár-
hagsbókhald félagsins sem hann
sinnti af kostgæfni um áratuga
skeið. Eftir stjórnarstörf í
Haukum átti golfið hug hans all-
an. Frá 1992 hafa Haukar haldið
árleg golfmót þar sem Guð-
mundur hefur hefur haldið um
stjórnvölinn og stofnað „Hauka í
holu“, þar sem margir Hauka-
félagar eru félagar. Það var á
golfvelli sem kallið kom skyndi-
lega og hann kvaddi þessa jarð-
vist í örmum félaga sinna.
Nú að leiðarlokum þakkar sá
er þetta ritar langa vináttu og
félagið þakkar góð störf í sína
þágu og sendir fjölskyldu Guð-
mundar innilegar samúðar-
kveðjur. Megi minning um góð-
an dreng lifa.
Fyrir hönd Knattspyrnu-
félagsins Hauka,
Bjarni Hafsteinn
Geirsson.
Við Guðmundur kynntumst
um páskana 1977. Við áttum
sameiginlegan vin, Sverri Her-
mannsson, og þar sem við vorum
ungir ákafamenn vildum við
gera eitthvað eftirminnilegt.
Ákváðum við að fara á skíðum
forna gönguleið yfir Fönn, þús-
und metra háan jökul á milli
Norðfjarðar og Fljótsdalshér-
aðs. Stutt leið en ill og ógreiðfær
og sjaldan farin.
Við Sverrir vorum vanir
skíðamenn en Guðmundur hafði
aldrei stigið á skíði. Gengum við
á skíðum sem leið lá inn í Fanna-
dal. Veðrið var dásamlegt, sól og
stilla, en snjóþungt og nokkuð
kalt. Eftir nestispásu héldum við
áfram í átt að Fönn. Bárum þá
skíðin á bakinu og þar sem
snjórinn var ekki þéttur, þá
sukkum við upp að hné í hverju
skrefi. Við reyndumst illa búnir,
höfðum engin landakort, vorum í
gallabuxum og ókunnugir á
þessum slóðum. Ég hafði þó tek-
ið með mér blýantsyddara með
litlum kompási.
Gangan sóttist seint og í um
700 metra hæð var veðrið farið
að versna. Við vorum alls ekki
vissir um leiðina en héldum
áfram. Að lokum töldum við okk-
ur komna upp á hábunguna, en
sáum þó aðeins örfáa metra frá
okkur. Var nú haldinn fundur
um næstu skref, enda vissum við
af miklum klettum víða. Úr varð
að ganga í engu skyggni í suð-
vestur eftir kompásnum. Loks
hallaði undan fæti. Er við kom-
um niður úr snjókófinu blasti
sæluhúsið á Eskifjarðarheiði við
okkur í 300 m fjarlægð, þreytt-
um og köldum eftir tíu klukku-
stunda göngu. Komið var mikið
frost og máttum við þakka fyrir
að finna sæluhúsið. Við skriðum
í kojurnar og sofnuðum fljótt.
Á páskadagsmorgun vöknuð-
um við í logni og glampandi sól.
Fengum okkur að borða og
drukkum úr síðustu pilsner-
flöskunni. Ferðaútvarp var með
í för til að hlýða á útsendingu frá
tónleikum Pólyfónkórsins á ór-
atoríunni Messias eftir Handel.
Við skíðuðum létt ísi lagða Ey-
vindará við þessa dásamlegu
tónlist og komum til Egilsstaða
um miðjan dag. Okkur var vel
fagnað af tengdafjölskyldu
minni á Eiðum.
Eitthvað gerðist í þessari
frækilegu för sem batt okkur
sterkum vinaböndum. Við Guð-
mundur áttum frábært sam-
starf. Hann sá um bókhald fyrir
mig og mín fyrirtæki alla tíð.
Hann var fagmaður fram í fing-
urgóma, nákvæmur og vand-
virkur.
Ekki er hægt að skilja við
Guðmund án þess að minnast á
golfið. Eftir að hann kynntist
þeirri íþrótt varð ekki aftur snú-
ið. Áttum við margar frábærar
stundir saman í golfinu. Lengi
verður í minnum höfð dásamleg
tíu daga golfferð okkar Guð-
mundar til Orlando í vor er við
dvöldum í góðu yfirlæti á heimili
Jónasar sonar hans.
Guðmundur missti síðari eig-
inkonu sína Kristínu Pálsdóttur
fyrir tveimur árum. Saknaði
hann hennar mjög. Þau undu sér
vel saman á golfvellinum, en hún
var í fremstu röð hér á landi á
sínum yngri árum.
Þegar við Ólöf kvöddum Guð-
mund rétt fyrir golfferð til
Spánar í haust var bjart yfir
honum og hann fullur eftirvænt-
ingar. Við kvöddumst með faðm-
lagi og ætluðum að hittast strax
er hann kæmi heim. Elsku vinur,
farðu vel, takk fyrir allt.
Við Ólöf sendum Jónasi,
Magnúsi, systkinum Guðmund-
ar og fjölskyldum þeirra okkar
innilegustu samúðarkveðjur.
Örn Óskarsson.
Kveðja frá Golf-Haukum
Með Guðmundi Friðriki er
genginn gegnheill og traustur
félagi sem naut sín hvergi betur
en í góðra vina hópi. Við félagar
og vinir í Golf-Haukum nutum
forystu hans og leiðsagnar,
hvort heldur var innan eða utan
vallar og þar fór foringi sem
kunni vel til verka. Hann var
skeleggur, ráðagóður, ákveðinn
og fylginn sér, en umfram allt
jákvæður, hvetjandi og gleði-
gjafi á góðri stund.
Guðmundur Friðrik var í for-
ystusveit handknattleiksdeildar
Hauka á áttunda áratug síðustu
aldar þegar félagið var að vakna
á ný til stórra afreka, bæði í
meistaraflokkum karla og
kvenna. Metnaður og framsýni
Guðmundar skipti þar miklu.
Hann sat í stjórn HSÍ, tók síðar
við formennsku hjá Golfklúbbn-
um Keili á miklum uppbygging-
artímum og átti einnig sæti í
stjórn Golfsambands Íslands um
árabil.
Guðmundur Friðrik lagði
mikið upp úr því að halda góðum
tengslum við félaga sína úr
handknattleiksdeildinni og aðra
forystumenn úr stjórnarstarfinu
hjá Haukum. Hann hafði for-
göngu um árlegt golfmót Hauka
og stofnaði síðan fyrir rúmum
áratug golfhópinn Golf-Hauka.
Sú öfluga sveit var honum kær-
kominn félagsskapur sem hann
stýrði af miklum eldmóð.
Það er ekki ofsögum sagt að
Guðmundur Friðrik naut þess
svo eftir var tekið að vera með
Golf-Haukum og sínu nánasta
fólki á golfvellinum. Hann var
vinamargur, félagslyndur og
vinsæll maður. Hann var fyrir-
mynd hins háttvísa keppnis-
manns, einbeittur en líka kapp-
samur og vildi sjá árangur og
framfarir hjá bæði sjálfum sér
og sínum félögum.
Nú er skarð fyrir skildi þegar
foringinn er farinn. Kvaddi á
grænum velli með kylfu í hendi.
Fyrirvaralaust var ferðinni heit-
ið á aðrar lendur þar sem hans
bíða ástvinir og góðir félagar.
Við sem stöndum eftir vitum að
minning Guðmundar Friðriks í
okkar hjörtum verður best
heiðruð með því að halda merki
Golf-Hauka áfram hátt á lofti.
Innilegar samúðarkveðjur til
fjölskyldu, vandamanna og vina.
Blessuð sé minning Guðmundar
Friðriks Sigurðssonar.
Lúðvík Geirsson.
Við Guðmundur Friðrik
kynntumst ungir menn á ensku-
námskeiði í Brighton sumarið
1964. Þar var góður hópur ung-
menna frá Íslandi. Bítlarnir að
verða frægir í heimalandinu og
mikið að gerast. Maður segir
helst ekki frá því að hafa látið
tónleika með þeim í Brighton
fram hjá sér fara, ekki tíu skild-
inga virði. Við Guðmundur end-
urnýjuðum kynnin sumarið 1967
en þá var hann orðinn aðalbók-
ari hjá Flugfélagi Íslands í
Kaupmannahöfn og ég almenn-
ur sumarstarfsmaður. Hann
leigði herbergi hjá íslenskum
hjónum og ég var svo heppinn að
fá þar leigt herbergi líka. Sam-
skipti okkar þetta sumar voru
því náin bæði í vinnu og frítíma.
Í lok sumars stóð starfsmönnum
flugfélaga til boða að fara í ferð-
ir og við vorum þrjú hjá Flug-
félaginu, sem ákváðum að skella
okkur í vikuferð til Beirut í Líb-
anon. Þetta var nokkrum mán-
uðum eftir sex daga stríðið svo-
nefnda og ferðamenn fáir á ferli.
Við bjuggum þarna við strönd-
ina en vorum einnig dugleg að
skoða okkur um. Á aðaltorginu
kom auga á okkur teppasali
nokkur, sem fór með okkur í
verslun sína og síðar á tollsvæði
við höfnina. Þar voru teppi frá
Íran dregin fram fyrir okkur í
tugatali. Eftir töluvert andóf
vorum við Guðmundur farnir að
trúa því að okkur vantaði teppi
og keyptum sitt teppið hvor á
það góðum kjörum að mati
teppasalans að hann taldi sig
eiga rétt á að fá íslensku konuna,
svona í sölulaun. En það varð nú
ekki. Eftir þetta sumar urðum
við vinir til hinstu stundar.
Guðmundur var mikið snyrti-
menni og alltaf vel klæddur svo
eftir var tekið. Hann keypti
helst ekki skyrtu nema hún hefði
eitthvað alveg sérstakt við sig.
Hann var mjög sterkur fé-
lagslega enda léttlyndur og já-
kvæður og átti auðvelt með hin
mannlegu samskipti. Þessir eig-
inleikar leiddu hann til forystu í
stórum félagasamtökum. Fyrir
mig sá hann um bókhald og
framtöl árum saman.
Á góðri stundu kom fyrir að
við tækjum lagið. Ég man hvað
hann var hrifinn af laginu við
texta Davíðs Stefánssonar, Þú
komst í hlaðið á hvítum hesti.
Þar segir einnig: Ég heyri
álengdar hófadyninn, ég horfi
langt á eftir þér, og bjart er allt-
af um besta vininn og blítt er
nafn hans á vörum mér. Síðast-
liðið vor hittumst við á tónleik-
um Bocelli í Kópavogi. Eins og
jafnan tók hann þétt utan um
vini sína. Það varð honum mikið
áfall að missa Kristínu og voru
síðustu misserin honum erfið.
Hann hafði þó mikinn stuðning
frá vinum og sínum nánustu. Og
golfið var honum alltaf dýrmætt.
Far vel vinur. Innilegar samúð-
arkveðjur sendi ég sonum,
barnabörnum, systkinum og
öðrum vandamönnum.
Gestur Þorgeirsson.
Fréttin að Guðmundur Frið-
rik skólabróðir okkar og vinur
hefði orðið bráðkvaddur í fríi á
Spáni kom illa við okkur vini og
skólabræður hans. Hann sem
var svo vel á sig kominn og glað-
ur að fara með vinum sínum í
golf til Spánar. Hann er fimmti
félaginn úr þessum litla vinahópi
sem kveður þessa jarðvist. Við
vorum 16 skólabræður úr Versl-
unarskólanum sem höfðum
bundist góðum vinaböndum og
fórum að hittast reglulega. Síð-
an þá höfum við hist einu sinni í
mánuði yfir vetrartímann og
gerum enn. Við tókum upp á því
að kalla þennan vinahóp „Versló
’66“. Þegar árin liðu fór stór
hluti hópsins að leika golf sam-
an, fara í ferðalög innanlands og
utan ásamt mökum okkar og þar
þróaðist einnig góð vinátta. Eft-
ir því sem árin liðu jókst með
hópnum einlægni og kærleikur
og alltaf var Guðmundur samur
við sig eða hrókur alls fagnaðar.
Guðmundur Friðrik eins og
hann vildi alltaf láta kalla sig var
félagsmálamaður í þá veru að
hann hafði mikinn áhuga á
íþróttum, einkanlega handbolta
þar sem hann var mikill Hauka-
maður og var um árabil for-
maður handknattleiksdeildar
Hauka. Golfið var samt hans að-
aláhugamál þegar árin liðu.
Hann var m.a. formaður Golf-
klúbbsins Keilis um tíma. Þá
sátum við þrír félagarnir úr
hópnum saman í stjórn Golfsam-
bands íslands, þeir Jón Ásgeir
forseti GSÍ, Eggert Ágúst gjald-
keri og Guðmundur Friðrik for-
maður mótanefndar en hann
hafði mikla þekkingu á golf-
íþróttinni og mótahaldi. Okkur
eru minnisstæðar ferðir til út-
landa, til Tyrklands, Danmerk-
ur, Englands, Skotlands, Lúx-
emborgar og Ítalíu, að
ógleymdri siglingu um Miðjarð-
arhafið fyrir nokkrum árum.
Guðmundur Friðrik giftist
ungur Bryndísi Torfadóttur en
þau slitu síðan samvistir. Hann
kvæntist síðar Kristínu Páls-
dóttur, fyrrverandi Íslands-
meistara í golfi, og var golfið
þeirra sameiginlega áhugamál.
Hann eignaðist tvo syni, þá Jón-
as Hagan og Magnús Friðrik.
Við félagarnir munum sakna
hans mikið eins og er með þá fé-
laga okkar sem horfnir eru á
braut. Við höfum nú misst góðan
félaga og samferðamann sem
alltaf var einlægur og hreinskil-
inn og hafði góða kímnigáfu. Við
þökkum honum vináttu og sam-
fylgd í 60 ár. Við sendum fjöl-
skyldu Guðmundar Friðriks
okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Fyrir hönd félaga úr Versló
’66,
Eggert Ágúst Sverrisson,
Jón Ásgeir Eyjólfsson.
Á þessu hausti voru liðin sex-
tíu ár frá því að rúmlega hundr-
að unglingar gengu upp tröpp-
urnar í gamla skólahúsi
Verslunarskóla Íslands við
Grundarstíg til að hefja þar
framhaldsnám.
Þarna skipaðist saman í bekki
ungt fólk úr öllum áttum og
ólíkrar gerðar, einhverjir með
markmið fyrir lífshlaupið en
fleiri þó óráðnir og leitandi. Í
þessum skara var Guðmundur
Friðrik Sigurðsson.
Í þröngu anddyrinu gamla
skólahússins hékk skólabjallan
og innrömmuð áminningin úr
Hávamálum um að vits er þörf
þeim er víða ratar.
Þessi dagur er enn minnis-
stæður. Hann markaði á svo
margan hátt nýtt upphaf og líka
upphaf nýrra vinabanda.
Margir reyndu að ná sæti sem
aftast í skólastofunni. Guðmund-
ur Friðrik vakti hins vegar at-
hygli mína af því að hann gekk
rakleitt að borðinu framan við
kennarapúltið.
Guðmundur var gæddur góð-
um námshæfileikum og náði
góðum árangri í náminu. En
ástæðan fyrir því að hann kaus
fremsta sætið var skert heyrn
hans fremur en kapp um
fremsta sætið í einkunnaröðinni.
Þennan dag hófust kynni okk-
ar. Þó að annar sæti aftast og
hinn fremst þennan fyrsta vetur í
skólanum var þarna sáð til þess
sem síðar varð að traustri vin-
áttu.
Við vorum sextán skólabræð-
ur úr þessum árgangi, sem hóf-
um að koma saman aftur þegar
nokkuð var liðið frá námslokum.
Þannig höfum við um langan
tíma haldið hópinn í félagsskap,
hist reglulega, borðað saman,
ferðast saman og spilað golf
saman heima og erlendis.
Af vísi þeirra kynna, sem
stofnað var til þennan haustdag
fyrir sextíu árum, hefur sem
sagt vaxið sterkur stofn bræðra-
lags og fjölskyldutengsla. Vin-
áttan hefur orðið okkur því
meira virði sem hún hefur staðið
lengur.
Guðmundur Friðrik var jafn-
an hrókur alls fagnaðar í þessum
hópi. En umfram allt hafði hann
næma tilfinningu fyrir þeim
böndum um vinarþel og trúnað,
sem haldið hafa hópnum saman.
Nú hefur Guðmundur Friðrik
kvatt skjótt og óvænt. Við stönd-
um andspænis köldu tómi. Það
verður aðeins fyllt með þeirri
hlýju velvild og þeim góðu minn-
ingum, sem hann skilur eftir í
okkar litla félagsskap.
Guðmundur Friðrik var um
árabil einn af forystumönnum
golfíþróttarinnar á Íslandi.
Hann steig svo síðustu skrefin á
golfvelli. Örlög hans voru þau að
hníga á efsta degi til þeirrar
moldar, sem hann unni.
Á kveðjustund, þegar Guð-
mundur Friðrik er borinn síð-
asta spölinn, deila margir sam-
ferðamenn eftirsjá með
fjölskyldu hans, sem syrgir mik-
inn dánumann.
Þorsteinn Pálsson.
Kveðja frá Rótarýklúbbi
Hafnarfjarðar
Í dag kveðjum við góðan fé-
laga í Rótarýklúbbi Hafnar-
fjarðar. Guðmundur Friðrik var
félagi í klúbbnum okkar allt frá
29. nóvember 1979 en hann gekk
fyrst í Rótarýhreyfinguna ári
áður og þá í Rótarýklúbb Húsa-
víkur. Guðmundur var mjög öfl-
ugur í Rótarý og gegndi hann
mörgum störfum fyrir klúbbinn
þau ár sem hann var félagi.
Hann var forseti starfsárið
1998-1999 og gegndi áður störf-
um ritara og gjaldkera. Í for-
setatíð Guðmundar Friðriks var
m.a. farið í minnisstæða ferð til
Færeyja í maí 1999 og er sú ferð
alloft rifjuð upp af félögum. Guð-
mundur Friðrik var formaður
golfnefndar klúbbsins í fjölmörg
ár og sat í golfnefnd umdæm-
isins og kom þannig að skipu-
lagningu golfmóta Rótarýklúbb-
anna á Íslandi. Átti það vel við
enda var hann mikill golfari og
voru þau Kristín Pálsdóttir, eig-
inkona hans heitin, afar sigursæl
á golfmótum og unnu til margra
verðlauna. Þau hjón tóku fyrst
félaga þátt í Norðurlandamóti
Rótarý í golfi sem haldið var í
Svíþjóð árið 1997. Kristín hlaut
þá verðlaun fyrir besta skor í
hópi maka. Þá var Guðmundur
Friðrik annar af tveimur endur-
skoðendum fyrir klúbbinn til
margra ára.
Guðmundur Friðrik var
sæmdur Paul Harris-orðu Rót-
arý árið 2001 og síðar safír Paul
Harris í virðingarskyni fyrir
ómetanleg störf í þágu klúbbs-
ins. Þá var hann gerður að heið-
ursfélaga á 75 ára afmælishátíð
klúbbsins 16. október 2021.
Guðmundur Friðrik var góður
félagi sem sinnti starfinu af heil-
um hug og var mjög virkur.
Hann var einstaklega góður og
skemmtilegur félagi sem alltaf
tók virkan þátt í samræðum.
Hann var sterkur og eftirminni-
legur persónuleiki sem alltaf var
hreinn og beinn og sagði það
sem honum bjó í brjósti. Hann
var góður maður sem vildi öllum
vel og minning um góðan Rót-
arýfélaga mun lifa í hjörtum
okkar allra.
Við sendum innilegar samúð-
arkveðjur til fjölskyldu og að-
standenda hans.
Kolbrún Benediktsdóttir,
forseti Rótarýklúbbs
Hafnarfjarðar.
MINNINGAR 53
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. NÓVEMBER 2022