Morgunblaðið - 03.11.2022, Blaðsíða 64
MENNING64
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. NÓVEMBER 2022
Þetta er saga okkar í Pussy Riot
og hún er farin að teygja sig langt
aftur, ein 11 ár. Því fer fjarri að við
höfum verið einu aktivistarnir í
Rússlandi á þessum tíma, margir
þekkja sögur fjölda annarra lista-
manna og andófsfólks eins og
Alexeis Navalnís og samstarfsfólks
hans en stjórnvöld í Rússlandi
hatast við allt sem er öðruvísi en
þau vilja nákvæmlega hafa það og
berja á öllum sem gagnrýna þau.“
Maria „Masha“ Alyokhina sýnir
mér uppkastið að umfangsmikilli
sýningu sem verður opnuð í Kling
& Bang í Marshall-húsinu 24. þessa
mánaðar og verður fyrsta yfirlits-
sýningin sem nokkru sinni hefur
verið sett upp með gjörningum
og uppákomum hennar og sam-
starfsfólksins í hinum umtalaða
rússneska gjörninga- og andófshópi
Pussy Riot. Daginn eftir opnun
sýningarinnar treður Pussy Riot
síðan upp á sviði Þjóðleikhússins
með tónleikaviðburð sem þau
ferðast þessa mánuðina með um
Evrópu, til stuðnings barnaspítala
í Úkraínu, landinu sem stjórnvöld í
heimalandi þeirra herja nú á.
Þegar her Rússa réðst inn í Úkra-
ínu batt Ragnar Kjartansson mynd-
listarmaður strax enda á viðamikla
sýningu á list sinni sem hafði verið
sett upp í hinni nýju GES-2 lista-
miðstöð í Moskvu. Og skömmu síð-
ar var greint frá því í The New York
Times að Ragnar hefði aðstoðað
Möshu Alyokhinu, forsprakka Pus-
sy Riot, við að komast úr landi. Nú
erum við hér í vinnustofu Ragnars,
sem Alyokhina hefur lagt undir sig
og með aðstoð myndlistarfólksins
Ragnars og Ingibjargar Sigurjóns-
dóttur, eiginkonu hans, fært upp á
veggina hundruð mynda sem sýna
gjörninga Pussy Riot allt frá byrjun
og viðbrögð yfirvalda við þeim.
Masha Alyokhina er 34 ára göm-
ul, lágvaxin og fíngerð, en algjör
nagli. Það fer ekki á milli mála.
Enda hefur hún ekki gefið neitt eftir
þótt hún hafi tvisvar sinnum verið
dæmd til fangavistar í refsiný-
lendu, hafi nokkrum sinnum farið
í hungurverkfall og síendurtekið
verið hneppt í varðhald. Hún hefur
skrifað um baráttuna umtalaða
og athyglisverða bók, Riot Days,
sem fékk frábæra dóma í fjölmiðl-
um víða um lönd. Hún segir að á
síðustu árum hafi þau félagarnir
í Pussy Riot verið ítrekað, í boði
rússneskra stjórnvalda, hneppt í
það sem hún kallar „hringekjuna“.
Fyrir minni brot má mest dæma
fólk í Rússlandi í 15 daga varðhald
en þau hafa verið dæmd í slíkt aftur
og aftur; þegar þau koma út eftir 15
daga bíða lögreglumenn eftir þeim
og þeim er stungið strax inn aftur.
Alyokhina segir að eftir því
sem Pútín hafi hert tökin á stjórn
landsins hafi harkan gagnvart
andófi einnig aukist. „Við erum að
tjá skoðanir sem eru andstæðar við
stefnu stjórnvalda og þau leggja
ansi mikið á sig til að þagga niður
í andófi,“ segir hún glottandi og
sýnir mér myndir á einum veggnum
af fjölda ómerktra bifreiða með
lögreglumönnum sem hafa reynt að
fylgja þeim í Pussy Riot eftir.
„Á sýningunni verða þessar
myndir allar og sagan sögð. Líka
myndbönd af uppákomum okkar af
ýmsu tagi og sum þeirra eru mjög
fyndin,“ segir hún. Pussy Riot vakti
fyrst verulega athygli árið 2012 með
pönkgjörningi í Dómkirkju Krists
frelsara í Moskvu, sem kirkjunnar
menn í Rússlandi voru æfir yfir. Þá
var stuðningi kirkjunnar við Pútín
mótmælt. Hópurinn hefur til að
mynda einnig verið með uppákom-
ur til að vekja athygli á kröfum
hinsegin fólks sem beitt er harð-
ræði í landinu, sem lið í feminískri
baráttu, en ekki síst í andófi gegn
Pútín. Þau hafa til að mynda verið
með gjörninga á Rauða torginu og í
Sochi þegar vetrarólympíuleikarnir
voru haldnir en þar börðu kósakkar
þau með svipum.
Þráir að sjá breytingar
„Þetta er orðinn meira en ára-
tugur,“ segir Alyokhina þegar hún
lítur yfir söguna sem myndirnar á
veggjunum segja. „Hvers vegna við
höfum staðið í þessu?“ Hún hlær
að spurningunni. „Hvers vegna
ekki!? Vegna þess að ég óska þess
að landið mitt sé öðruvísi en það er,
að því sé ekki stjórnað af þessum
vitleysingum sem sitja í Kreml
núna, heldur af góðu alvörufólki.
Í landinu er fjöldi fólks sem er
hugrakkt og heiðarlegt. Stjórnvöld
hafa, með áróðursvél sinni, hertekið
orðið föðurlandsvinur og nota það
bara yfir þá sem skreyta sig með
nýnasistamerkinu Z en í Rússlandi
er vitaskuld fjöldinn allur af öðru-
vísi fólki. Ég þrái að sjá ástandið
breytast.“
Og nú hafa Alyokhina og margir
félagar hennar yfirgefið Rússland
og ferðast um Evrópu með tónleika
til styrktar Ohmatdyt-barnaspítal-
anum í Úkraínu en þar eru með-
höndluð börn sem hafa verið illa
leikin í innrás Rússa.
„Ég sé enga aðra leið til að leggja
mitt af mörkum en að styðja við
fórnarlömb Rússa í Úkraínu, segir
hún. „Í mörg ár höfum við lent í öllu
því sem má sjá hér á myndunum;
síendurteknu ofbeldi, það hefur
verið eitrað fyrir sumum okkar og
svo hafa verið pólitísk morð, eins
og þegar Boris Nemtsov var myrtur
í miðborg Moskvu árið 2015; við
höfum tekið þátt í fjölda mótmæla-
funda, en þar til á þessu ári höfðum
við aldrei lent í því að vakna við
þá hræðilegu tilfinningu að landið
okkar væri helsta ruddaríki jarðar,
hið nýja nasistaríki. Sem ræðst
á annað ríki. Það er hræðileg ný
lífsreynsla. Ég þekki marga Rússa
sem eru nú í fangelsi, aðra sem ná
að aðstoða þá með lítt áberandi
hætti og svo eru líka margir Rússar
nú utan heimalandsins að safna fé
fyrir Úkraínu, vinna sem bloggarar
eða fréttamenn og allt hefur það
áhrif. En áhrifin virðast samt lítil
þegar maður sér fréttir af enn einni
drónaárás Rússa á borgir í Úkraínu
– svona er kerfið þeirra, það er
skapað til að láta okkur finnast við
vera lítil og ómerkileg, en það er allt
blekking.“
Úr einræði í alræði
Masha Alyokhina gagnrýnir fjöl-
miðla og stjórnmálamenn á Vestur-
löndum fyrir að hafa ekki veitt
stjórn Pútíns meira aðhald og sett
á raunverulegar viðskiptaþving-
anir þegar stjórnvöld gengu sífellt
lengra, með innlimun Krímskagans
og eitrað var fyrir pólitískum and-
stæðingum þeirra og þeir myrtir.
„Það er mikilvægt að gera eignir
þessara manna á Vesturlöndum
upptækar. Ef bankareikningar
þeirra eru frystir og glæsihúsin
þeirra og skemmtisnekkjur gerð
upptæk, þá finnst fólki sem er
í fangelsi í Rússlandi að það sé
einhver von. Þeir reyna að brjóta
niður andstöðu heima fyrir með því
að fangelsa fólk, að láta því finnast
það vera eitt og gagnslaust. En
alþjóðasamfélagið þarf að berjast
saman gegn Pútín og hans mönnum
og það er gert með því að stöðva
fjárstreymi til þeirra; án peninga
mun kerfið þeirra liðast sundur.
Það er engin hugmyndafræði að
baki þessari stjórn, þetta snýst bara
um peninga og að halda sér þeirra
vegna á valdastólum til eilífðar-
nóns. Þetta Rússland er feik.“
Alþekkt er að einræðisstjórnvöld
hatast við frjálsa og óháða lista-
menn. Hver vegna eru listamenn
svo ógnandi í augum valdhafanna?
„Listamenn geta gefið aðra mynd
af því hvernig heimurinn getur
orðið og verið,“ svarar Alyokhina og
segir skáldsöguna 1984 eftir George
Orwell klassískt dæmi um það.
„Heimur Rússlands í dag er
„orwellískur“. Við upphaf stríðsins
tók náungi í lítilli rússneskri borg
sig til og keypti hundrað eintök af
1984, setti þau á borð á gangstétt
og tók að gefa vegfarendum eintök.
Hann var handtekinn fyrir að gera
lítið úr rússneska hernum!“ Hún
hlær og hristir höfuðið yfir fárán-
leikanum. „Á borðinu var engin
auglýsing, enginn texti, hann var
bara að gefa klassískt bókmennta-
verk.
Listin spyr oft óþægilegra spurn-
inga. Þær vilja stjórnvöld alls ekki
heyra. Það fyrsta sem Pútín gerði
þegar hann komst til valda var að
murka lífið úr frjálsri fjölmiðlun.
Síðan hefur hann með hverju skref-
inu á fætur öðru breytt stjórn sinni
úr einræði í alræði.“
Masha Alyokhnina segist gjarnan
vilja geta snúið aftur heim til
heimalandsins og Moskvu en nú
verði hún að leggja sitt af mörk-
um í baráttunni, segja frá reynslu
þeirra í Pussy Riot og krefjast þess
með eins háværum hætti og hún
getur að stífar viðskiptaþvinganir
verði settar á rússnesk stjórnvöld.
„Í Rússlandi væri heldur enginn
möguleiki á að safna fé fyrir Úkra-
ínu eins og við gerum nú, það væri
eins og að safna fyrir eigin fanga-
vist!“
Rússland „orwellískt“ í dag
Pussy Riot-hópurinn hefur ferðast
um Evrópu með tónleikaviðburði
síðan í maí. Alyokhina segir að
í Þjóðleikhúsinu 25. nóvember
næstkomandi verði fjórir meðlimir
Pussy Riot-hópsins mest á sviðinu.
„Þau tóku öll þátt með einum eða
öðrum hætti í þeim gjörningum
sem má sjá hér á veggjunum,“ segir
hún. Og þau hafa líka dúsað með
henni í varðhaldi á síðustu árum og
einn í refsinýlendu. „Við hittumst
aftur þar þegar ég var eitt skiptið í
hungurverkfalli og dreymdi látlaust
um pítsur! En síðasta hungurverk-
fallið sem ég fór í var mun auð-
veldara fyrir mig og það kom á
óvart. Mig dreymdi bara um pítsu
fyrstu þrjá dagana en gat svo farið
að hugsa um annað.
Við skulum ekki segja að ég sé
orðin atvinnumaður í hungurverk-
föllum þótt ég hafi farið í fjögur,
því ég veit um fólk sem hefur
farið í fleiri en tuttugu slík mót-
mælasvelti.“
Alyokhina skýrir viðburðinn í
Þjóðleikhúsinu betur og kallar hann
stefnuskrá – manifesto. „Og í raun
ákall á uppþot. Viðburðurinn hefur
sögulega framvindu og er blanda af
hinu talaða orði, tónlist, myndlist
sem brugðið er upp, og svo verður
nokkuð óvænt sem ég ætla ekki að
eyðileggja með því að segja frá.
Ingibjörg Sigurjónsdóttir bætir
hér við að ólíkt tónleikum Pussy
Riot, sem þau hafa nú haldið víða,
þá verði sýningin í Kling & Bang
einstök. Það verði fyrsta yfirlitssýn-
ingin með öllum aðgerðum hópsins
í Rússlandi. „Ég tel það vera mjög
merkilegan viðburð þar sem fjöldi
atburða verður settur í samhengi og
hægt verður að sjá þróun þessara
mála í Rússlandi og til að mynda
hvernig nú er tekið á mótmælum af
miklu meiri hörku en fyrir áratug.“
Ragnar grípur orðið og segir:
„Eins og sjá má hér á veggjunum þá
hefur Pussy Riot verið að skapa frá-
bær listaverk á þessum tíma; í öllu
þessu brjálæði og andófi og uppá-
komum hafa orðið til sannkallaðir
demantar. Það er mjög spennandi
að geta sýnt þetta allt.“
„Já, það er frábært að sjá koma
saman flotta listsköpun og gríðar-
lega áhugaverðan pólitískan aktív-
isma,“ segir Ingibjörg.
Hendurnar og hyggjuvitið
Þegar Alyokhina er að lokum
spurð að því hvernig þau félagarn-
ir í Pussy Riot hafi getað haldið
endalaust áfram að kljást við grimm
valdaöflin í heimalandinu, þá glottir
hún og svarar að það sé ekki svo
erfitt. „Maður getur haft ákveðna
hæfileika sem gera mann ekki
gagnslausan, og svo er alltaf frekar
skemmtilegt þegar okkur hefur
tekist að gera eitthvað áhrifaríkt og
þeir ná manni ekki.“ Hún hlær.
„Þeir hafa svo marga starfsmenn,
tól og tæki, en við höfum bara
hendur okkar, hyggjuvit og hjarta.
Það er einstök tilfinning. Og þegar
vel hefur tekist til einu sinni þá vill
maður endilega halda áfram.
Sjáðu,“ segir hún og bendir á
ljósmyndirnar sem sýna bíla og
fólk sem hefur veitt þeim eftirför.
„Þarna er fullt af bílum og fullt af
fólki og allir á launum hjá skatt-
greiðendum. Þetta er kerfið og það
vinnur gegn okkur alla daga.“
„Það er mikið lagt á sig við að
fylgjast með nokkrum gjörninga-
listamönnum,“ segir Ragnar og
skellihlær.
„Já, og þegar okkur tekst að gera
þá að fíflum þá er það auðvitað
svalt,“ svarar Masha Alyokhina.
„En þetta er svo sannarlega
kafkaískur veruleiki.“
lFyrsta sýning sem sett hefur verið uppumgjörninga rússneska hópsinsPussyRiot verður
opnuð íKling&Bang síðar ímánuðinumlTónleikarPussyRiot í Þjóðleikhúsinu 25. nóvember
Listin spyr óþægilegra spurninga
Morgunblaðið/Einar Falur
Saga andófs „Þetta er svo sannarlega kafkaískur veruleiki,“ segir Maria „Masha“ Alyokhina, forsprakki Pussy
Riot, um hörkuleg viðbrögð rússneskra stjórnvalda við gjörningum hópsins. Sú saga er sögð hér í myndum.
VIÐTAL
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
PönkbæninMasha Alyokhina og stallsystur hennar í Pussy Riot í
umtöluðum gjörningi sínum í dómkirkju í Moskvu árið 2012.