Morgunblaðið - 19.11.2022, Page 12
The North Face l Hafnartorg Gallery l 546-8181
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. NÓVEMBER 2022
DAGLEGTLÍF12
L
ukkan hefur leyft mér að
kynnast öllum þessum
skáldum á ferðum mínum
með ljóð um heiminn,“ segir
Sigurbjörg Þrastardóttir ljóðskáld
en hún tók sig til og þýddi 40 ljóð
eftir 40 erlend skáld af ólíkum upp-
runa sem hún hefur mætt á ljóðahá-
tíðum um víða veröld þar sem hún
hefur sjálf lesið upp eigin ljóð. Eitt
ljóð eftir sérhvert þessara skálda
er nú komið út í bókinni Krossljóð,
en þar dregur Sigurbjörg líka fram
óbirt ljóð úr eigin fórum sem kallast
á við raddir erlendu vinanna, svo úr
verður ljóðakrosssaumur.
„Mig langaði til að kynna fólki
þessi skáld og ég gat notað heims-
faraldursinnilokun til að hafa
samband við þau öll og fá leyfi til
að þýða ljóð eftir þau og birta við
hliðina á mínum ljóðum, eins konar
ljóðatvennu á hverri opnu. Ég vissi
ekkert að ég væri að safna ljóðum í
þessa bók, það gerðist í raun óvart,
en ég kynntist þessu fólki í ólíkustu
ferðum til margra landa í gegnum
mörg ár og flest þeirra eru núna
góðir vinir mínir. Með hækkandi
aldri og þroska fór ég að átta mig á
hversu mikill fjársjóður er fólginn
í að kynnast fólki og eignast það
að vinum. Þegar ég var yngri tók
ég þessu sem sjálfsögðum hlut, en
nú hef ég áttað mig á ríkidæminu.
Þetta varð enn skýrara þegar ég gat
ekki ferðast í faraldrinum. Þá fór
ég að velta fyrir mér hvers ég hefði
farið á mis ef ég hefði aldrei getað
ferðast og væri öllu þessu fólki
fátækari.“
Við fæðumst ekki með tár
Aldursbil skáldanna sem eiga ljóð
í bókinni er breitt, það yngsta er
fætt 1992 en elsta 1938, og hlutfall
milli karla og kvenna er jafnt.
„Ég valdi að þýða ljóð sem mér
fannst skemmtileg, aðlaðandi og
góð, ljóð sem eiga við okkar tíma.
Ég valdi þau sem töluðu til mín og
ég valdi líka að hafa aðgengileg ljóð
um hversdaginn, svo þeir sem eru
jafnvel ekki vanir að lesa ljóð hefðu
gaman af þeim. Ég býð fólki að fara
í göngutúr í gegnum þetta landa-
kort sem bókin í raun er, í ljósi þess
hversu ólíkum ríkjum skáldin koma
frá. Vonandi tekst mér að kveikja
áhuga einhverra nýrra á ljóðum,“
segir Sigurbjörg og bætir við að
margt óvænt sé hægt að læra af
ljóðum.
„Til dæmis kemur fram í einu
ljóðinu að við fæðumst ekki með tár
og að bláeygt fólk fólk deili forföður
með öllum öðrum bláeygum íbúum
heimsins. Þar kemur líka fram að
sporðdrekar hafa tólf augu.“
Sigurbjörg segist hafa átt sumar
þýðingarnar til í fórum sínum og að
sú elsta sé rúmlega tuttugu ára, en
flestar þýðingarnar hefur hún þó
tekist á við á undanförnum fimm
árum.
„Ég dreg í bókinni fram raddir
sem sumar tilheyra málum sem
við þekkjum ekki mikið, til dæmis
makedónska, frísneska, rúmenska,
króatíska, arabíska og fleiri. Ég
er ekki að þykjast vera fjöltyngd,
ég játa hiklaust að ég tala ekki öll
þessi mál, en ég hef aðgang að þeim
sumum í gegnum mál sem ég tala
og skil. Við þýðingar á öðrum nota
ég hjálparmál, oft fleiri en eitt,“
segir Sigurbjörg sem talar og skil-
ur m.a. ítölsku, þýsku og norrænu
málin sem eru móðurmál sumra
skáldanna í bókinni, þá hafi hún
getað þýtt ljóðin úr frummálinu.
Í ljós komu leynileg líkindi
Þegar Sigurbjörg er spurð að því
hvort það hafi ekki verið snúið að
leita í eigin óbirtum ljóðum til að
finna þau sem tónuðu eða töluðu
með einhverjum hætti við fjörutíu
erlend og afar ólík ljóð, segir hún
það hafa verið mjög lífrænt hvernig
allt lagðist saman.
„Púslið var töfrandi, ég komst inn
í einhvern takt og svona varð þetta.
Ekkert þessara ljóða minna eru í
útgefnum bókum mínum á íslensku,
en fáein hafa birst í tímaritum eða í
öðru samhengi. Ég vildi ekki yrkja
nýtt ljóð við hvert og eitt ljóðanna,
því þá hefði ég orðið undir of
miklum áhrifum frá ljóðum hinna
og kannski farið að stæla eða svara.
Mér fannst það ekki heillandi
aðferð. Mér fannst aftur virkilega
gaman að uppgötva þessi líkindi
með mínum ljóðum sem til voru og
ljóðum þessara ólíku skálda, þetta
voru leynileg líkindi sem ég dró
huluna af. Ég sé núna að það er líka
víðara bergmál innan bókarinnar,
milli ólíkra hluta hennar.“
Vinna gegn glamri peninga
Sigurbjörg ákvað að segja aftast í
bókinni stuttlega frá hverju skáldi,
hvaða ár viðkomandi fæddist, í
hvaða landi, hvert móðurmál þess
sé, hvað það starfar og hefur starf-
að og hvar það býr núna. Þarna
er t.d. skáld sem er geðhjúkrunar-
fræðingur, skáld sem rannsakar
mannsröddina og skáld sem er
blásarakennari.
„Ég vildi með þessum upplýs-
ingum varpa ljósi á hver þeirra
áhugasvið eru, frekar en að telja
upp fjölda skáldverka eða verðlaun,
mér finnst það skipta minna máli
og fólk getur flett því upp. Þetta er
venjulegt fólk og hliðarstarf þeirra
skilar sér stundum inn í ljóðin, til
dæmis hún Alice Oswald sem er
menntaður garðyrkjufræðingur,
hún er sannarlega náttúruskáld, og
Ester Naomi Perquin hefur starfað
sem fangavörður og hún yrkir
um innilokaða menn í ljóði sínu í
bókinni.“
Aftast í bókinni er einnig stuttur
kafli með fyrirsögninni Hið lúmska
lýðveldi, en þar fjallar Sigurbjörg
um hversu miklu máli þýðingar
skipta.
Hún vitnar þar í eitt skáldið í
bókinni, Stephen Watts, sem segir
að bæði þýðingar og ljóð geti unnið
gegn glamri peninga og pólitíkur,
jafnvel grafið undan valdi, það sé
ásamt öðru þeirra hlutverk.
„Mikil mannleg tenging á sér
stað í gegnum ljóðagerð og þýð-
ingar. Það skiptir ekki máli hvað
forsetinn í landinu þínu heitir
eða gerir, ljóðskáldin fylgja sinni
sannfæringu og yrkja um sína
afstöðu, og þau mega það. Þannig
er það í raun lýðræðislegt fyrirbæri
að yrkja. En meðal skálda í bókinni
eru vissulega líka skáld sem ekki
hafa mátt yrkja eða gera það sem
þau vilja í sínum heimalöndum og
þurft að flýja land.“
Sirkus næmleiks bak við eyrað
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ljósmynd/Christian Sinicco
Vinkonur Sigurbjörg með norsku skáldkonunni Ingrid Storholmen á Brutal-ljóðahátíðinni í Zagreb í Króatíu
2007. Ingrid er ein þeirra fjörutíu skáldvina Sigurbjargar sem eiga ljóð í nýju bókinni hennar, Krossljóðum.
„Ég kynntist þessu fólki í ólíkustu ferðum til margra landa í gegnum mörg ár og flest þeirra eru núna góðir vinir mínir. Með hækk-
andi aldri og þroska fór ég að átta mig á hversu mikill fjársjóður er fólginn í að kynnast fólki og eignast það að vinum,“ segir Sigur-
björg Þrastardóttir ljóðskáld en fyrirsögnin, Sirkus næmleiks bak við eyrað, er sótt í lokalínur ljóðs hennar í bókinni Krossljóð.
EIN LJÓÐATVENNAÚR BÓKINNI KROSSLJÓÐ
Ég vakna geðillur, sveittur
og ýlfrandi ámiðnætti
veiklyndi
ég hef lagt mig
svo einlæglega fram
um að skilja ástæður úlfsins
að mér hafa vaxið vígtennur og
hvöss eyru, ég vakna geðillur,
sveittur og ýlfrandi á miðnætti og ég
eltist við hjúkrunarkonurnar,
litlar saklausar rauðhettur
og blóðheitar baráttukonur
fyrir kynheilsunni
sem ég hef tapað,
af þeirra völdum,
við að leggja mig
virkilega
í framkróka
um að skilja
ástæður úlfsins
Tomàs Arias Soler
Í háhýsinu heima
Sveigja í baki
við glugga
úlfhundurinn glóir
hitnar
eins og jólaserían
innar
í íbúðinni, þangað sem hann
snuðrar
meðan hún stendur
berleggjuð
yst
Sigurbjörg Þrastardóttir
Tomàs Arias Soler (1966) er katalónskt skáld og kvæðaþulur. Hann
tilheyrir hinni svonefndu (H)original-kynslóð, kenndri við samnefndan
upplestrarstað í Barcelona, hefur starfað með ýmsum menningarhópum,
skrifað samfélagspistla og kennt ritlist hins erótíska.
Sigurbjörg Þrastardóttir (1973) er ljóðskáld í Reykjavík. Hún hefur
einnig skrifað pistla um menningu og tíðaranda, samið texta fyrir tón-
skáld, sent frá sér skáldsögur, skrifað leikrit og fengist við þýðingar. Hún
skrifar á móðurmáli sínu, íslensku.