Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.10.2022, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.10.2022, Blaðsíða 10
10 ERLENT MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16.10.2022 Íranskar konur í byltingarhug Undanfarinn mánuð hefur íranskt samfélag nötrað eftir að ung kona, sem var gripin á götu úti vegna þess að hár hennar stóð undan slæðu, lést í varðhaldi. Við völd eru harðlínu- menn sem vilja kæfa allt andóf, en mótmælendur með konur í broddi fylkingar hafa sýnt aðdáunarvert óttaleysi gagnvart kúgunarvaldi klerkanna. Karl Blöndal kbl@mbl.is E kkert lát hefur verið á mótmælum í Íran í næstum því mánuð eftir að ung kona, Mahsa Amini, lét lífið vegna útreiðar sem hún fékk hjá siðgæðislögreglu landsins um miðjan september. Stjórnvöld í landinu hafa brugðist við af hörku. Talið er að ekki færri en 108 manns hafi látið lífið, þar á meðal öryggis- verðir, og ekki er vitað hvað margir eru særðir, en þeir gætu skipt þúsundum. Konur hafa verið í fararbroddi í aðgerðunum og láta ekki deigan síga þrátt fyrir að þær leggi sig í bráða hættu. Amini var í heimsókn í Teheran þegar siðgæðisverðirnir handtóku hana. Hún var 22 ára gamall Kúrdi frá bænum Seqiz í Kúrdistan. Hún hafði sveipað um sig híjab, höfuðklút, sem konum ber skylda að bera í Íran til að hylja hár sitt og háls, og var að koma upp úr neðan- jarðarlestinni ásamt yngri bróður sínum þegar siðgæðislögreglan stoppaði hana fyrir „óviðeig- andi klæðaburð“. Samkvæmt frásögnum sást í hár hennar. Farið var með hana í „endur- menntunarstöð“ þar sem konum er kennt hvernig eigi að fara eftir reglum klerkaveldisins um klæðaburð. Bróður hennar var sagt að hún yrði látin laus síðar um kvöldið. Þremur dögum síðar, hinn 16. september, var tilkynnt að hún væri heiladauð. Stjórnvöld héldu því í fyrstu fram að hún hefði fengið hjartaslag. Síðan birtu þau myndskeið þar sem hún sést falla í yfirlið og hníga á gólfið í varðhaldinu. „Hvaða rétt hafa þeir?“ Fjölskylda hennar heldur því fram að hún hafi látist af áverkum á höfði eftir barsmíðar lögreglu. „Mehsa var ekki hjartveik. Ástæður slyssins eru deginum ljósari,“ sagði frændi hennar við íranska vefmiðilinn Asriran á meðan Amini lá fyrir dauðanum. „Hvað gerist þegar þeir grípa stúlkur og setja þær inn í bíl með slíku offorsi og ógn? Hvaða rétt hafa þeir? Þeir vita ekkert um íslam, eða mannúð.“ Eftir þetta hafa konur tekið af sér höfuðklút- inn og boðið öryggissveitum byrginn í mestu mótmælum undanfarinna þriggja ára. Ungar konur eru áberandi meðal mótmælenda, há- skólanemar og jafnvel ungar stúlkur. Þær hafa svipt sig höfuðklútnum, híjab, á almannafæri. Þær hafa kveikt í klútunum á almannafæri og stappað á myndum af æðstu leiðtogum lands- ins, núverandi og fyrrverandi. Þær hafa einnig klippt af sér hárið í táknrænni aðgerð, sem er til marks um sorg og á rætur í Shahnameh, þúsund ára gömlum persneskum ljóðabálki. Þar skerða konur hár sitt til að mótmæla óréttlæti. Öryggissveitir magna upp reiði Yfirvöld hafa ítrekað beitt vopnum til að kveða niður mótmælin. Nú síðast á miðvikudag mátti heyra skothvelli rjúfa hróp mótmælenda í borgunum Isfahan og Karaj í myndskeið- um sem norsk mannréttindasamtök birtu. Á myndskeiði, sem fréttastofan AFP vottaði að væri ósvikið, mátti heyra ungar konur – í fréttaskeytinu sagði að þær væru stúdentar – hrópa „Niður með einræðisherrann“ á meðan þær gengu eftir götu í Teheran. Viðbrögð stjórnvalda eiga sinn þátt í því að mótmælunum linnir ekki. Fleiri stúlkur og konur hafa látið lífið eftir að mótmælin hófust. Síðast heyrðist frá Nika Shakarami, ungum listnema, 20. september. Þá hringdi hún í vin sinn og sagði að öryggissveitir væru á hælunum á sér úti á götu. Tíu dögum síðar var fjölskylda hennar boðuð að sækja lík hennar í Teheran. Höfuð hennar virtist bera merki um barsmíðar. Stjórnvöld sögðu að hún hefði látist eftir fall ofan af húsþaki. Hún var grafin á laun til þess að útför hennar yrði ekki kveikja að mótmæl- um. Shakarami hefði orðið 17 ára daginn sem hún var jörðuð. Fimm dögum eftir andlát Amini tók Hadis Najafi, kona á þrítugsaldri, upp myndskilaboð í miðjum mótmælum og birti á félagsvefnum TikTok: „Ég vona að eftir nokkur ár þegar ég lít aftur verði ég hamingjusöm og allt hafi breyst til hins betra,“ mun hún hafa sagt. Nokkrum klukkstundum síðar var hún skotin í höfuðið. „Ég hef alltaf velt því fyrir mér hvers vegna ég hafi þurft að fæðast í Íran,“ sagði Sarina Esmailzadeh í myndskeiðsbloggi fyrir stuttu. Samkvæmt fréttum var hún barin til dauða í mótmælum í Karaj. Stjórnvöld halda fram að hún hafi stokkið fram af húsþaki. Esmailzadeh var aðeins 16 ára gömul. Jarðarfarir hafa oft verið vettvangur póli- tískra aðgerða í Íran. Hjá sjítum – sem eru í meirihluta í Íran – er vaninn að heiðra þann látna að nýju 40 dögum eftir andlátið. Við þær aðstæður sem nú eru má búast við heitum tilfinningum við slíkar minningarathafnir um þá sem hafa fallið í mótmælunum og getur þá verið stutt í að út brjótist mótmæli. Enga væga dóma Það er til marks um að stjórnvöld hyggjast ekki gefa eftir að á fimmtudag var greint frá því að dómsmálayfirvöld í Íran hefðu gefið út fyrirskipanir til dómara um að fella ekki væga dóma yfir þeim sem kæmi í ljós að hefðu verið forsprakkar mótmælanna. „Óverðskulduð samúð og vægir dómar yfir [forkólfunum] eru óréttlæti gagnvart þjóðinni,“ var haft eftir Gholamhossein Mohseni Ejei, yfirmanni dómsmála í landinu. „Um leið ætti að íhuga einhver stig vægðar yfir þeim, sem síður eru sekir.“ Til marks um það hvað mótmælendur gætu átt í vændum er dómur, sem féll á þriðju- dag yfir Mostafa Tajzadeh, einum leiðtoga bar- áttunnar fyrir umbótum í landinu. Hann dæmd- ur í fimm ára fangelsi fyrir launráð gegn öryggi ríkisins og birtingu lyga og áróðurs gegn ríkinu. Hann neitaði að grípa til varna í málinu eftir að honum var neitað um að ráðfæra sig einslega við lögmann sinn. Tajzadeh er 65 ára og er haldið í einangrun. Hann var ráðherra í forsetatíð Mohammads Khatamis, sem var umbótasinni og reyndi að koma á þíðu í samskiptum við Vesturlönd á árunum 1997 til 2005. Hann hefur þegar setið í fangelsi í sjö ár. Hann hugðist bjóða sig fram til forseta í forsetakosningunum í fyrra, en út- varðaráðið, sem vottar frambjóðendur, hafnaði framboði hans. Dóttir forseta í fangelsi 27. september var Faezeh Hashemi handtekin í Teheran fyrir að hvetja borgarbúa til að taka þátt í mótmælunum. Hashemi stendur á sex- tugu og er fyrrverandi þingmaður og berst fyrir auknum réttindum kvenna í Íran. Hún er líka dóttir Akbars Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseta Írans, sem lést 2017. Faezeh hefur átt meira brautargengi að fagna í Íran en um þessar mundir. Hún gaf á tíunda áratugnum út tímaritið Zan þar sem því var haldið fram að aldagamlar túlkanir á Kóraninum væru rangar. Karlkyns fræðimenn hefðu haldið á loft margþáttuðum misskilningi á Kóraninum til að færa rök að yfirráðum karla í samfélagi múslima. Faezeh var í eina tíð þjálfari í blaki og var gerð að forseta einingarráðs kvenna í íþróttum. Hún skipulagði Ólympíuleika íslamskra kvenna í Teheran árið 1993 þar sem kepptu 700 konur frá 11 löndum. 1995 sagði hún í viðtali að víðast hvar í hinum íslamska heimi ættu „konur við menningarlegan vanda að stríða. Það er litið á þær sem varning og eru þær neyddar til að halda sig innan veggja heimilisins. En fyrir íranskar konur hafa gildin breyst.“ Það er spurning hvernig hún myndi orða þetta núna. Íslamska byltingin í Íran 1979 markaði þáttaskil. Keisarinn hafði reynt að stjórna á veraldlegum grunni og bæla trúna niður. Þótt hann tæki vestrænt þjóðfélag sér til fyrirmyndar stjórnaði hann með harðri hendi og var illa þokkaður einræðisherra heima fyr- ir. Með klerkastjórninni, sem komst til valda í byltingunni, náðu sjítar pólitískum ítökum sem hafa reynst afdrífarík í Mið-Austurlöndum, en fram að því hafði lítið farið fyrir ágreiningnum milli súnníta og sjíta á yfirborðinu. Markmiðið var að breiða út byltinguna og eitt afsprengi þess var Hizbollah-hreyfingin í Líbanon. Hiz- bollah hefur í orði kveðist bera hagsmuni allra múslíma fyrir brjósti, en sá málflutningur hefur í augum súnníta ekki þótt halda vatni þegar á reynir. Stuðningur kvenna og mótmæli Á árunum 1978 og 1979 gengu þúsund- ir kvenna að skipan Ruhollahs Khomeinis erkiklerks, sem var í útlegð í Frakklandi, í svörtum tsjador til stuðnings byltingunni um götur Írans. Hann þakkaði þeim síðar stuðn- inginn. Eftir byltinguna, sem var í mars 1979, gengu konur aftur fylktu liði þúsundum saman dag eftir dag til að mótmæla þegar farið var að tak- marka réttindi þeirra. Einn ásteytingarsteininn var að nú átti að þvinga konur til að ganga í tsjador, sem er alklæðnaður. 11. mars skutu byltingarverðir af byssum yfir höfuð þeirra og daginn eftir voru konurnar sem mótmæltu grýttar og ráðist á þær með hnífum. 13. mars tilkynnti Khomeini að konur yrðu ekki skyldað- ar til að klæðast tsjador, en það væri æskilegt. Íranskt þjóðfélag er fullt af mótsögnum. Konum er haldið niðri á sumum sviðum en ekki öðrum. Þær mega sitja á þingi og gegna AFP/UGC Stúdentar sitja á hringtorgi nærri íslamska Azad-háskólanum íTeheran. „Ekki vera áhorfendur, verið með okkur,“ heyrast konurnar kyrja í myndskeiði.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.